19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á nokkur þau atriði sem hér hefur verið vikið að. Í fyrsta lagi vil ég minnast á þá fullyrðingu að mál þetta hafi komið seint fram og lítill tími unnist til að fjalla um það. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Hins vegar vil ég minna á að sjávarútvegsnefndir þingsins komu saman í byrjun sept. og ég dreifði þar fyrstu drögum að þessu frv. og þar voru staddir fulltrúar allra þingflokka. Síðan var haldinn annar fundur um mánaðamótin september/október og ég lagði á það áherslu að þessi drög yrðu rædd hjá viðkomandi þingflokkum og menn lögðu fram athugasemdir áður en málið yrði flutt. Ég afhenti formönnum allra þingflokka þetta frv. sama daginn og ég dreifði því í ríkisstj. Það var síðan flutt hér á Alþingi 8. nóv. Segja má að ástæða hefði verið til að flytja það fyrr. En einnig er rétt að geta þess að þing hagsmunasamtaka eru tiltölulega seint á haustinu þótt aðilar hafi reynt að flýta þeim. Viðkomandi aðilar voru almennt ekki tilbúnir að tjá sig um afstöðu til þessara mála áður en þeir höfðu haft tækifæri til að ræða þau nánar innan sinna vébanda og viðkomandi félög, félög sjómanna og útvegsmanna, Fiskifélagið, halda sína aðalfundi. Þessir aðilar töldu að hér væri um það stórt mál að ræða að ekki væri hægt að tjá sig um málið fyrr en þeir hefðu fengið næg umboð til þess. Það má því segja að viðkomandi aðilar hefðu ekki getað gefið þingnefndum upp nægilega skýra afstöðu þótt málið hefði komið hér fyrr fyrir.

Þetta vildi ég rifja upp vegna þess að mér finnst að menn tali hér eins og þeir hafi ekkert um þetta séð sem ég tel vera rangt. Það er nú einu sinni svo að stórmál eins og þetta verður ekki fyrst og fremst leyst í umr. hér í þinginu þótt þær séu jafnframt mjög nauðsynlegar. Það þarf að fjalla um það í viðkomandi þingflokkum og í þingnefndum og ekki síst í viðtölum við hina ýmsu hagsmunaaðila. Það er ekki málið að við tökum sem lengstan tíma hér í umr. þótt þær séu vissulega nauðsynlegar.

Menn gera mikið úr því að ég sé að sækjast eftir þessu valdi. Það er langt í frá að ég telji það neitt eftirsóknarvert. Hins vegar kem ég ekki auga á aðra leið til að stjórna þessum málum en að pólitískur ráðh. með meiri hl. á þingi að baki sér beri ábyrgð á málum sem þessum. Að sjálfsögðu á hann að bera ábyrgð gerða sinna gagnvart þessum lýðræðislega kjörna meiri hl. Ég sé ekki að það mundi leysa mikið í þessu máli þótt farin yrði sú leið að samþykkja það sem menn hafa sett hér fram í till. til þál.

Ég vil minna á að í þessum lögum stendur að ráðherra beri að hafa samráð við sjávarútvegsnefndir þingsins. Ég veit ekki betur en það hafi verið gert. Ég veit ekki betur en að í byrjun s.l. árs hafi verið haldnir margir fundir með sjávarútvegsnefndum þingsins og tekið tillit þar til margvíslegra sjónarmiða og sú reglugerð, sem sett var, rædd mjög ítarlega. Ég vildi gjarnan að þm. hefðu þetta í huga þegar þeir dæma í þessu máli en láti það ekki alveg liggja á milli hluta.

Ég vil einnig taka fram eins og ég hef gert áður að það hefur verið vilji hér á Alþingi og ég vænti þess að svo sé enn að um þetta mál séu höfð mjög víðtæk samráð við hagsmunaaðila. Sú leið hefur verið farin að skipa sérstaka ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila til að fjalla um þau, m.a. eftir að þeir hafa fjallað um þessi mál í sínum samtökum. Þeir eru að því og þau atriði sem hér hafa verið nefnd, eins og bæði smábátar og línuveiðar, hafa verið þar til umfjöllunar og mönnum er ósköp vel kunnugt um þær skoðanir sem hér hafa komið fram. Ég hef aldrei sagt, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hélt fram, að ég vildi ekkert tillit til þess taka. Hann sagði að ég hefði sagt að ekki kæmi til greina að gera það. Það sem ég sagði var að ekki kæmi til greina að línuveiði og handfæraveiði væri algerlega utan kvóta. Það var það sem ég sagði. En hann sagði að ég hefði í raun og veru sagt að ég vildi ekkert tillit taka til meirihlutaálits sjútvn. Ed. þar sem fram kom að þeir væru þeirrar skoðunar að lína skyldi að hálfu vera utan kvóta. Ég vona að þetta sé alveg skýrt.

Ég er því andvígur að línan og handfærin séu algerlega utan kvótans vegna þess að það skapar hagsmunaárekstra sem ég tel ekki fært að menn leggi út í. Það eru mjög skiptar skoðanir á þessu máli. Hins vegar minni ég á að lína var að hálfu utan kvóta í jan. og febr. 1984.

Ég vænti þess að ráðgjafarnefndin muni skila af sér núna alveg á næstunni. Í framhaldi af því verða höfð samráð við sjútvn. þingsins og ég vænti þess að það takist að komast að bærilegri niðurstöðu í þeim málum í samvinnu við þessa aðila. Ég hef talið mér það skylt að reyna að skapa sem besta samstöðu um þessi mál þótt ég geri mér grein fyrir því að hún verður aldrei algjör. Það þýðir ekkert að vera að vitna í það að þessi og þessi sé óánægður og þess vegna beri að breyta því. Auðvitað verða alltaf einhverjir óánægðir í sambandi við slíka úthlutun og slíka stýringu.

Að því er varðar smábátana gera menn mikið úr því að það hafi verið sérstaklega illa farið með þá, þ.e. báta upp að 10 tonna markinu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að hann hefði flutt um það till. að bátar á bilinu 10–20 tonn yrðu utan við. Ég hygg að hann hafi mismælt sig aðeins, það hafi verið bátar upp að 10 tonna stærð. A.m.k. skildi ég hann þannig að hann ætti fyrst og fremst við þá en ekki báta á bilinu 10–20 tonn. Er það ekki rétt skilið hv. þm.? (Gripið fram í.) Ég held að á s.l. ári hafi verið lögð fram till. um veiðar báta upp að 10 tonna stærð. Þessir bátar voru stöðvaðir 4 daga um verslunarmannahelgina og síðan í eina viku. Þeir hafa ávallt verið stöðvaðir gegnum mjög langan tíma í eina viku. Þetta voru því 10–11 dagar, ef ég man rétt, á móti viku sem venjulega hefur verið. Síðan voru veiðar þeirra stöðvaðar í lok nóvember. Sannleikurinn er sá að tíð hefur verið mjög rysjótt síðan og þessir bátar lítt getað verið að. Þeir hafa veitt milli 14 og 15 þús. tonn eða allmiklu meira en gert var ráð fyrir. Þeir hafa því ekki orðið fyrir mikilli skerðingu. En það var andi þessara laga að allir yrðu fyrir einhverri skerðingu en að sumir yrðu ekki algerlega látnir sitja hjá. Við verðum einnig að hafa það í huga að það eru bátar næst fyrir ofan, hver svo sem þessi mörk eru. Þeir kvörtuðu afar mikið og það hefur e.t.v. verið erfiðasta vandamálið í þessu dæmi. Það eru bátar sem eru rétt yfir þessum mörkum. Menn verða að gæta þess að þarna sé samræmi á milli. Um leið og ákveðin stærð er gefin algerlega frjáls og bátur, sem er einu tonni stærri, á svo að búa við verulegar takmarkanir er réttlætiskennd manna að sjálfsögðu mjög misboðið.

Hitt er svo annað mál að farið hafa fram viðræður við þessa smábátaeigendur um með hvaða hætti mætti rétta hlut þeirra sem stunda þessar veiðar allt árið og gera þeirra hlut betri, en ekki með þeim hætti að þeir búi ekki við neina stjórnun. Það tel ég ekki fært. Þeir verða að búa við einhverja stjórnun með sama hætti og aðrir. (Gripið fram í: Er stjórnunin markmið í sjálfu sér?) Nei, hv. þm. Það væri út af fyrir sig mjög gott í þessum málum að þurfa ekki að hafa neina stjórn. En ég minni á það sem kom t.d. fram í þessari skoðanakönnun sem menn hafa gert lítið úr hér en unnin er af deildarstjóra í sjútvrn., sem hefur menntun frá félagsfræðideild Háskólans sem hefur kennt slíka hluti, og deildarstjóra Hagstofu Íslands, en Hagstofa Íslands er væntanlega talin bærilega hlutlaus aðili í þessu sambandi. Við ætluðumst ekki til þess að þessi skoðanakönnun færði okkur einhverja algilda niðurstöðu sem enginn mundi draga í efa. Við vorum forvitnir um það hvað menn segðu um þessi mál almennt, töldum það til bóta að senda slíka könnun í öll fiskiskip og út um allt land, m.a. til að hvetja menn til að hugsa meira um þessi mál og tjá sig í þessu sambandi. Ég tel alveg ástæðulaust að verið sé að gera lítið úr því að slíkt sé gert. Hitt er svo annað mál að auðvitað má fara út í það sem menn kalla hlutlausa könnun. Er það þá að biðja Dagblaðið um að annast hana eða eitthvað slíkt? Er það þetta sem menn kalla hlutlaust og frjálst hvað svo sem það er nú? (Gripið fram í: Er hæstv. ráðh. að missa trúna líka?) Nei, en ég spyr vegna þess að ég vitnaði til þess að Hagstofa Íslands hefði verið viðriðin þetta mál og ég vænti þess að menn beri sæmilegt traust til þeirrar stofnunar.

Það hefur einnig verið nokkuð vikið hér að því hvort þetta ætti að vera eitt ár eða þrjú ár og ég ætla ekki að fara að rifja það upp. Það er fyrst og fremst spurningin um að geta sagt mönnum meira um framtíðina og þurfa ekki að vinna þessi mál með þeim hætti sem nú er, að við séum að gera það í árslok og geta engu svarað þeim mönnum sem spyrja á haustmánuðum hvað verður á næsta ári, heldur reyna að marka stefnu til lengri tíma. Það hefur líka komið í ljós að það eru mjög margir sem vilja það. En þetta er niðurstaða og ég get ósköp vel sætt mig við hana.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon spurði hér nokkurra spurninga. Ég skildi það svo að hann ætlaðist ekki til þess að ég færi að svara spurningunum frá í fyrra, en það voru þó atriði sem hann minntist á. Það var með smáfisk og slæman fisk. Það hefur alltaf verið smáfiskur og það hefur alla tíð verið slæmur fiskur. Það kom ekkert upp með kvótakerfinu. Það hefur hins vegar verið farið út í það að heimila mönnum að landa smáfiski, m.a. vegna þeirra sögusagna að gífurlegu magni væri hent frá borði. Það er liðlega 1% sem hefur komið með þeim hætti á land og segir það sína sögu um þær sögusagnir. Ég hef ekki trú á því að það hafi verið mikið um að fiski hafi verið hent. Hins vegar hefur ónýtum fiski ávallt verið hent. Ef fiskur er dottinn í sundur í netum og svo illa farinn að hann er nánast ónýtur hefur það alltaf verið svo á netabátum að fiski hefur verið hent. Ég á ekki von á því að það hafi út af fyrir sig breyst. Hins vegar höfum við engar sannanir fyrir því að það hafi aukist og ég tel svo ekki vera.

Vissulega koma upp þau tilvik að landað hafi verið fram hjá. Það hafa 14 veiðieftirlitsmenn í stöðugu eftirliti og ýmsir trúnaðarmenn Fiskifélags Íslands staðfest. En það er ein af ástæðunum fyrir því að menn telja að fleiri tegundir þurfi að vera inni í kvóta, m.a. ufsinn, en hér hefur verið lögð á það áhersla að færri tegundir væru inni í kvóta, vissulega væri gott að geta haft þær sem fæstar. Sú hætta er þó fyrir hendi eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon kom hér inn á, að þorski væri landað sem ufsa og ef ufsi væri algerlega utan við ættum við erfiðara með eftirlit. Það sama má þá segja um smábátana að ef ætti að fara að úthluta kvótum á hvern einstakan smábát mundi það leggja miklu meiri skyldur á herðar rn. varðandi eftirlit og krefjast mjög aukins mannafla. Við höfum reynt að komast hjá því að gera það.

Ég vil benda á að þetta kerfi hefur verið tekið upp með þeim hætti að bæta við þremur eftirlitsmönnum.

Ekki hefur verið fjölgað í viðkomandi rn. og lögð hefur verið á það mikil áhersla að reyna að gera það þannig úr garði að til slíks kæmi ekki. Það hefur að vísu þýtt að mjög mikið álag hefur verið á þessu fólki og það hefur lagt sig mjög mikið fram í þeim efnum. En það hefur verið reynt að komast hjá því að byggja upp gífurlegt bákn í kringum þetta og ég tel að það hafi tekist.