19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er satt að segja dapurlegt að mál eins og þetta stóra mál skuli aldrei fá umfjöllun hér á Alþingi með eðlilegum hætti á eðlilegum fundartíma þingsins og aftur og aftur skuli það gerast að málið er svo seint fram komið frá hæstv. ríkisstj. að það verði að taka næturfundi í það að ræða þetta stóra mál, úrslitamál um afkomu þjóðarinnar, sem er sjávarútvegurinn, meginuppspretta þeirra auðæva sem þjóðin byggir líf sitt á. Þetta er þeim mun alvarlegra sem hér er á ferðinni mál sem felur í sér valdaafsal Alþingis sem er einsdæmi í löggjöf að öðru leyti. Það er verið að fela einum manni meira vald í sjávarútvegsmálum en nokkur dæmi eru til um að ráðherrar hafi á öðrum sviðum.

Það er athyglisvert að þegar þessi umr. fer fram sést ekkert af hæstv. ráðherrum, nema rétt maður og maður af þessum 10 mönnum sem sitja í ráðherrastólum, og það er athyglisvert að stærsti þingflokkurinn hefur varla komið við sögu í umr. í kvöld eða í nótt um þetta mál í hv. Nd. Þessi flokkur, sem heitir Sjálfstfl. og á víst enn þá 23 þm. á Alþingi sem er allt of mikið og stendur vonandi til bóta, hefur ekki svo mikið sem látið sjá sig í þessum ræðustól fyrir utan hæstv. annan varaforseta deildarinnar sem kom hér í kvöld og flutti ræðu og reif málið niður svo að segja í smáatriðum, en lýsti samt stuðningi við það að lokum. Þetta er ósköp svipað og oft gerist með talsmenn ríkisstj. á síðustu vikum. Þeir segjast vera á móti flestu sem stjórnin gerir, en snauta svo til að styðja hana að lokum nauðugir og það átti við um þann eina þm. sem dirfðist að stíga í ræðustól úr þingliði Sjálfstfl. hér í kvöld. Sjálfstfl. er sem sagt sama um sjávarútvegsmál. Hann gerir ekki mikið með þau. Hann afhendir þau Framsfl. í heilu lagi og það heyrist ekki svo mikið sem tíst að mark sé takandi á í þessu efni af hálfu forráðamanna Sjálfstfl. Nm. Sjálfstfl. í sjútvn. Nd. eru allir sofandi. Þeir leggja ekki upp í þennan stól. Hv. þm. Halldór Blöndal er nú annars býsna viljugur við að tala. (GJG: Orðvar maður.) Orðvar maður, segir hv. 7. þm. Reykv. Það eru vafalaust skiptar skoðanir um það hversu orðvar hann er, en hitt er að hann er margorður oft. Hann hefur í rauninni ekki haft neitt til málanna að leggja í sjávarútvegsmálum í kvöld eða í nótt utan innskot upp úr jólakortaskriftum sínum við skrifaraborðið áður en hann hvarf af vettvangi og hefur ekkert síðan til hans spurst.

Hv. varaformaður sjálfstfl., sá sem vildi koma formanninum á stallinn sællar minningar í Seltjarnarnesræðunni frægu, er í sjútvn. Hann sést ekki. Og heldur hann þó glaður ræður á Seltjarnarnesi eins og kunnugt er þegar minna liggur við en í þessum stóra málaflokki þó að honum sé það hugleikið að koma formanni sínum á stall. Er ekki líka í sjútvn. hv. 2. þm. Reykn.? Man ég það ekki rétt? Gunnar Schram mundi hann heita. Ég man ekki betur en að hann sé þar. Það hefur ekkert til hans spurst á þessari nóttu. Enginn veit hvar hann er. Sjálfstfl. virðist ekki hafa nokkurn mann í ríkisstj. eða sjútvn. sem hefur snert af áhuga á þessu máli. Þó var það þannig fyrr á öldinni að Sjálfstfl. átti hér á Alþingi fjölmarga talsmenn sjávarútvegsins. Í því sambandi má nefna Ólaf Thors, fyrrv. formann Sjálfstfl., sem gegndi því starfi um áratuga skeið. Eftirmenn hans í forustu Sjálfstfl., hvort sem þeir eru á stalli eða ekki, láta sér þennan málaflokk í léttu rúmi liggja. Og er þá hætt við að þau hin smærri málin hljóti litla athygli hjá þessu liði þegar stórmál af þessu tagi synda hér í gegn án þess að þessir menn svo mikið sem tísti hér úr ræðustól á Alþingi og nenna ekki að vera við umr. Væri nú ráð ef hæstv. forseti vildi hlutast til um að það yrði kannað hvort einhverjir sjálfstæðismenn hér í húsinu eru enn vakandi vegna þess að það væri vissulega mikið skemmtilegra að eiga orðastað við þá viðstadda en fjarstadda. Þætti mér vænt um ef hæstv. forseti vildi ýta á bjöllu þá sem hann hefur í forsetaborðinu og kannaði hvort þingverðir vildu ekki leita að eins og einum vakandi sjálfstæðismanni, vegna þess að ég skil það að hæstv. forseti á erfitt með að komast hér í ræðustólinn meðan hann situr í forsetastól. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að kannað verði hvort það eru til vakandi sjálfstæðismenn hér í húsinu þó það væri ekki nema svo sem eins og einn. (Forseti: Hæstv. forseti getur tekið það verk að sér að hlusta fyrir hönd Sjálfstfl.)

Hæstv. forseti ætlar að taka það að sér að hlusta fyrir hönd Sjálfstfl. Það er út af fyrir sig virðingarvert að hann taki þann kross á sig að hlusta fyrir þennan flokk sem nennir ekki að sinna sjávarútvegsmálum. En það dugir ekki í þessu tilfelli, hæstv. forseti, vegna þess að forsetinn á erfitt með að komast í ræðustól til að svara fyrir flokk sinn hér í umr. meðan hann situr í forsetastól. Ég virði það mjög við forseta að hann skuli ætla að taka að sér að hlusta fyrir hönd Sjálfstfl. Mér þykir vænt um að það skuli vera einhver skilningarvit á vegum þess flokks hér í salnum núna. Mér þykir vænt um það og ég met það mikils við forsetann að hann skuli taka það að sér að hlusta, ekki aðeins sem forseti og hlutlaus embættismaður Alþingis heldur einnig sem sjálfstæðismaður, þar sem hann nú situr. Hitt þætti mér miklu vænna um ef þeir yrðu vaktir, einhverjir af þeim sjálfstæðismönnum sem kunna að finnast hér í húsinu enn þá. En þeir eru kannske allir sofandi. Það gæti verið skýringin að hæstv. forseti hefði meðlíðun með flokksbræðrum sínum og vildi leyfa þeim að lúra þangað til þeir verða teknir í handauppréttinguna á eftir. Þá verða þeir ræstir, sjálfstæðismennirnir, þegar á að fara að láta þá rétta upp hendur hér á eftir með þessu þjóðnýtingarfrv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálum. Þá mæta atkvæðavélarnar úr Sjálfstfl. ein af annarri og rétta syfjandi upp höndina með þessu valdaafsali til Framsfl. Það er reisn yfir þessu liði, þessum köppum, þessum talsmönnum atvinnurekstrarins í landinu, einkum einkarekstrarins. Það er reisn yfir þessum mönnum sem vilja beita sér fyrir nýsköpunarátaki í atvinnulífinu, eins og hv. 1. þm. Suðurl. Þetta eru miklir kappar sem þjóðin — hluti hennar — hefur kosið sér á Alþingi. Það verður gaman að sjá hvort þeir drattast þá til að greiða hér atkvæði á eftir og hvort þeir hafa meðvitund til að greiða atkvæði eins og til er ætlast af þeim. Ætli þeir sofi með handjárnin þannig að þeir greiði nú örugglega atkvæði eins og hæstv. sjútvrh. hefur skipað þeim að gera? Ætli þeir lúri hjá handjárnunum sínum? Það kemur í ljós hér á eftir.

Það þýðir svo sem ekki mikið að eiga orðastað við Sjálfstfl. meðan hann er allur steinsofandi á tvist og bast í húsinu. Þó væri gaman að velta því fyrir sér hvernig það einkaframtak lítur út sem Sjálfstfl. er að beita sér fyrir í landinu um þessar mundir. Eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson rakti hér í kvöld eru veiðarnar skipulagðar að ofan, miðstýrðar eins og það heitir. Það er mjög vont orð, miðstýrður, þegar það er sagt um okkur í Alþb., það er afskaplega vont orð og minnir á ýmislegt ljótt á vissum stöðum á jarðarkringlunni. Veiðarnar eru miðstýrðar, verðlagið er miðstýrt — í Verðlagsráði sjávarútvegsins — og útflutningur á sjávarafurðum er líka miðstýrður vegna þess að það fer allt í gegnum leyfi úr viðskrn. (Gripið fram í: Þeir hafa gleymt því.) Þeir hafa gleymt því? (GE: Ég hafði gleymt því.) Hv. þm. hafði gleymt því, en ég var í því að veita þessi leyfi hérna fyrr á öldinni. Það er þess vegna sem ég man eftir þessu. — Það er því alls staðar í sjávarútveginum þar sem þetta alltumfaðmandi vald kemur við sögu. Það má ekki draga svo fiskkvikindi upp úr sjó að það þurfi ekki að spyrja um leyfi allra náðarsamlegast: Hæstv. sjútvrh., má ég draga upp þennan fisk? Er hann í kvóta eða ekki? Og ef fiskurinn er ekki í kvóta og komið yfir kvóta eru varðskipin send á eftir bátskelinni. Í sumar var Landhelgisgæslan önnum kafin við það að hundelta trillubáta og hafði ekki tíma eða aðstæður til þess að sinna eðlilegum verkefnum sínum af þeim ástæðum. Forstjóri Landhelgisgæslunnar kom á fund okkar hv. þm. Ólafs Þórðarsonar í sumar og bar sig mjög upp undan því hvað erfitt væri orðið og tímafrekt verkefni fyrir Landhelgisgæsluna að vera að renna á eftir bátskeljum hér og þar í kringum landið.

Þegar á að verðleggja fiskinn er það ákveðið af miðstýrðu valdi, Verðlagsráði sjávarútvegsins, og er það að mörgu leyti skynsamlegt kerfi að mínu mati. En það fer lítið fyrir þessum einkaframtaksmönnum þegar kemur að máli af þessu tagi. Þeir gera ekki vart við sig, þeir sofa með handjárnin sín einhvers staðar úti í bæ, tísta ekki einu sinni. Og þegar kemur að því að flytja út fá þeir stimpil hjá hæstv. viðskrh., þannig að þeir eru stimplaðir í bak og fyrir af því kerfi sem þeir sjálfir þykjast vera að berjast á móti.

Hin gífurlega ofstjórn í þessum málaflokki, sem nær hápunkti með þessu frv. og kvótalögunum, hlýtur að vekja alvarlegar umr. á hv. Alþingi og einnig úti í þjóðfélaginu. Ég held hins vegar að umræðan úti í þjóðfélaginu um þessi mál sé allt of lítil. Umræðan í þeim byggðarlögum þar sem fjölmiðlarnir eru aðallega, Reykjavík t.d., er mjög lítil.

Sérstaka ástæðu tel ég til að fagna því, herra forseti, að nú gengur í salinn hæstv. iðnrh., 3. þm. Austurl., og er hann fyrsti sjálfstæðismaðurinn fyrir utan hæstv. forseta sem hefur sést nokkurn veginn vakandi í þessum sal nú um skeið. Þá kemur skrifari deildarinnar líka, sennilega búinn að skrifa jólakortin og búinn að koma þeim í umslög. Er það til marks um að þeir félagar hafi rumskað og að þeir vilji taka þátt í umr. um hvernig Sjálfstfl. er að leika sjávarútveginn í landinu, afhenda Framsfl. það miðstýringarvald sem hér hefur verið rætt um í kvöld. Er athyglisvert að þessir kappar eru nú risnir og komnir í salinn. Þá eru tveir á áheyrendapöllum og ættu að vera þar sem oftast og verður svo sjálfsagt eftir næstu kosningar að þeir láta sér nægja að vera á áheyrendapöllunum. Nú ættu þeir að reka af sér slyðruorðið og ræða um stöðu sjávarútvegsins með tilliti til þróunar einkaframtaksins og nýsköpunar í atvinnulífinu á Íslandi. Geri ég ráð fyrir því að hæstv. forseti sé tilbúinn til þess að skrá þá á mælendaskrá þegar hann er ekki lengur sá eini sem hlustar fyrir hönd Sjálfstfl., en það voru einu skilningarvitin fyrir hönd þess flokks hér í deildinni í kvöld sem hæstv. forseti lagði til. Sjálfstfl. sá ekki ástæðu til þess að senda hingað fulltrúa sína né heldur að taka þátt í umr. Þetta er nú áhuginn á sjávarútvegsmálum í Sjálfstfl. Hann er ekki meiri en þetta. Og hefur þar margt breyst frá því fyrr á öldinni þegar þar voru menn sem lögðu áherslu á að sinna þessum málaflokki sérstaklega. Um þetta er ástæða til að ræða, herra forseti, vegna þess að orðin eru kaflaskipti í sögu Sjálfstfl., sem hefur talið sig vera málsvara einkaframtaks hér í þessu landi, og er hann orðinn ásamt Framsfl. harðasti miðstýringarflokkur í landinu, og gleymi ég þá ekki Alþb.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þessi mál á undanförnum dögum. Þetta mál kom til meðferðar í hv. Nd. 14. des. og þar er mér hugleiknust ræða sem hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, flutti. Hann benti á að frv. mætti orða á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ráðh. fer með sjávarútvegsmál og setur hann reglugerð um framkvæmd þeirra allra.“

Þetta var tilvitnun í einn af þm. Framsfl., hv. þm. Ólaf Þórðarson. Í þessari ræðu rökstuddi hv. þm. Ólafur Þórðarson mjög vel þetta atriði sérstaklega og tók sér í munn orð sem þættu kannske stóryrði úr mínum munni um pólitískan andstæðing minn. Ég verð að segja að mér finnst að hæstv. sjútvrh. skuldi deildinni svar við þessum orðum.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði enn fremur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. er ljóst hvílík hringavitleysa þessi ráðstöfun var, hvílík valdníðsla fólst í því að framkvæma þetta á þennan veg.“

Þetta eru óbreytt orð þm., valdníðsla, og ég veit að þau eru mælt af alvöru en engum galgopaskap af hv. þm. Honum er mikið niðri fyrir í þessu máli og hann vill undirstrika viðhorf sín með þessum hætti. Ég vil benda á að hæstv. sjútvrh. hefur enn þá ekki svarað þessum orðum hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Er hann ekki svaraverður, hæstv. sjútvrh.? Hvernig stendur á því að hæstv. sjútvrh. svarar mönnum úr Alþfl. og Alþb. — að vísu heldur illa en gerir þó tilraunir til þess — en þegar hv. þm. Ólafur Þórðarson ber fram mál sitt af fullum þunga og alvöru er því í engu svarað af flokksbróður hans, hæstv. sjútvrh.?

Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. sjútvrh. svari í einhverju þeim gildu rökum sem fram hafa komið í máli hv. þm. Ólafs Þórðarsonar í þessum efnum. Það er rétt, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði fyrr í kvöld, að ekki er einfalt fyrir samflokksmann ráðh. að gagnrýna gjörðir ráðh. með þeim hætti sem hann hefur gert hér í þessum umr. En þeim mun meiri ástæða er til þess að hæstv. ráðh. virði flokksbróður sinn viðlits og svari í einhverju þeim rökum og málflutningi sem hann hefur haft hér í frammi. Það hefur ekki gerst.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara mjög ítarlega yfir þá ræðu sem hv. 5. þm. Vestf. flutti hér 14. des., en ég vil leyfa mér að svara í fáeinum orðum lokasetningunum í ræðu hans. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil vekja athygli á að sú stjórnarandstaða sem hér er hefur talað talar gegn kvótakerfinu. En hver er alvaran á bak við þann málflutning? Jú, alvaran er sú að mönnum er meira í mun að semja um að komast í jólafrí en að standa á þeirri meiningu sinni að þetta kerfi sé rangt. Mönnum er meira í mun að stytta mál sitt til að hraða afgreiðslu þess í gegnum þingið á sama tíma og með vörunum berjast þeir gegn því. Er trúverðug sú afstaða?“

Síðan kemst hv. þm. þannig að orði að afstaða stjórnarandstæðinga í þessu efni sé í rauninni merkingarlaus.

Það er vandi fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma að láta það koma fram með hvaða hætti hún vill leggja áherslu á mál. Það er ekki einfalt. Í þeim efnum eru auðvitað margar leiðir til mismunandi eftir því hvaða mál eru á ferðinni og hvernig þau ber að. Ég leyfi mér þó að fullyrða að í málflutningi margra þm. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað í dag og einnig um málið á síðasta þingi, kemur fram að mínu mati mikil alvara. Hins vegar tel ég að ákveðinn hópur manna hér á hv. Alþingi sé alveg sérstaklega alvörulaus í þessu máli. Þann hóp er ekki að finna fyrst og fremst í liði stjórnarandstæðinga. Þann hóp er að finna í liði þeirra stjórnarþm. sem eru á móti málinu, en láta handjárna sig eins og druslur í þessu máli í annað sinn á þessu þingi. Ég hef talað við fjölda stjórnarþm., bæði úr Sjálfstfl. og Framsfl., og þar kemur greinilega fram að þessir þm. ganga fullkomlega nauðugir til þessa verks. Ég held þess vegna að ef eitthvað er alvöruleysi sé það að láta beygja sig með þessum hætti.

Á síðasta þingi bar mál brátt að og margir höfðu sömu rök og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason og hæstv. ráðh. Matthías Á. Mathiesen. Þeir höfðu þau rök í málinu að þetta kerfi væri sett á í tilraunaskyni í eitt ár. Nú er liðið þetta heila ár. Og hvað hafa þessir þm. og ráðh. Sjálfstfl. t.d. gert til að breyta kerfinu fyrir árið 1985? Hvar hafa þm. Sjálfstfl. lyft litla fingri í þeim efnum eða aðrir þeir stjórnarþm., fyrir utan hv. þm. Ólaf Þórðarson, sem hafa eitt og annað við þessi mál að athuga? Ef alvöruleysi er til í þessu máli finnst það hjá þeim mönnum sem taka ekki þingmannsheiður sinn hátíðlegar en svo að þeir láta þetta úrslitamál hér yfir sig ganga í annað sinn án þess að hafa notað tímann frá í fyrra til að laga eitt né neitt. Það er næstum því átakanlegt þetta tíst sem kemur frá sjálfstæðismönnum úr Ed., er þeir eru að reyna að bjarga sér á floti í þessu máli. Þetta er alvöruleysi, þetta er virðingarleysi fyrir umbjóðendum sínum í fyrsta lagi og í öðru lagi virðingarleysi fyrir því starfi sem það er að vera fulltrúi á Alþingi Íslendinga. Ég ásaka þessa menn um alvöruleysi.

Það hefur komið fram í umr. í kvöld og í nótt að hæstv. sjútvrh. neitar að gefa undir fótinn með það að línan verði, a.m.k. að hluta til, tekin út fyrir kvóta umfram það sem er á þessu ári og hann hefur algjörlega hafnað því að trillurnar verði teknar út fyrir kvóta. Ég vona að í ráðgjafarnefndinni og í því samráði sem hæstv. ráðh. hefur við sjútvn. þingsins verði hægt að hafa áhrif í þessa veru til móts við tillögur þriggja þm. í hv. Nd.

Ég met það nokkurs út af fyrir sig að haft skuli vera samráð við sjútvn. þingsins og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Hv. þm. Guðmundur Einarsson er einn nm. í sjútvn. Nd. Hann gerði satt að segja ekki ýkjamikið úr þessu samráði hér í kvöld og er sá eini af þm. úr sjútvn. sem hafa gagnrýnt það. Ég held að þessu samráði þurfi að haga öðruvísi. Ég held t.d. að það sé ekki alveg nóg í þessu efni að kalla á sjútvn. vegna þess að sjónarmiðin í þingflokkunum eru iðulega skipt í þessum málum, ekki aðeins í Framsfl. eins og hefur komið fram hér í kvöld og í nótt heldur hefur það einnig gerst t.d. í Alþb. Ég held að það eigi að opna farvegi fyrir skoðanaskipti á milli þessara aðila þannig að það sé ekkert gert til þess að útiloka gild sjónarmið þó að þau séu í minni hluta í hverjum þingflokki. Ég held að þingflokkakerfið sé til margra hluta brúklegt, en ég vara við því að meiri hl. í öllum þingflokkum setjist á gild sjónarmið minnihlutaaðila sem túlka viðhorf sem eru kannske ríkjandi í heilu landshlutunum þar sem sjávarútvegur í þessu tilviki er undirstöðu- og úrslitaatvinnugrein.

Ég man ekki eftir því hversu margir fulltrúar úr Vestfjarðakjördæmi eru í sjútvn. Ætli það sé nokkur? Það ætti kannske að duga þeim Vestfirðingum að hafa tvo menn í ríkisstj. (Gripið fram í: En Karvel?) Hann er ekki í sjútvn., er það? (Gripið fram í: Nei.) Nei, hann er það ekki. Alþfl. á ekki mann í sjútvn. Nd. Það er ekki verið að tala hérna um kjördæmasjónarmið. Það ætti kannske að hjálpa þessu byggðarlagi að eiga tvo ráðh. í ríkisstj. Það hefur dugað skammt í þessu máli. Þeir hafa verið víðs fjarri í þessu máli, að því er virðist, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh.

Ég vil segja í fullri alvöru að ég met mikils viðleitni sjútvrh. til að hafa samstarf við sjútvn. þingsins, en ég held að það þurfi að skapa farvegi fyrir þau sjónarmið sem hér eiga talsmenn án þess að þeir hafi fulltrúa í sjútvn. Ég er þar að hugsa um þm. Vestfirðinga t.d. alveg sérstaklega, þar sem viðhorfin í þessum málum hafa verið dálítið önnur en annars staðar á landinu. Það er fyrir neðan allar hellur, að mínu mati, að ætla sér að bera þessi sjónarmið ofurliði með því einu að fulltrúar viðkomandi byggðarlags séu í minni hluta í eigin þingflokkum. Ég gagnrýni það fyrirkomulag.

Hér hefur nokkuð verið minnst á ráðgjafarnefnd í sjávarútvegi og hæstv. ráðh. hefur vitnað til hennar og fleiri. Ég tel að í þessa ráðgjafarnefnd vanti a.m.k. einn hóp fólks. Það er fiskverkunarfólkið. Það á þar ekki sérstakan fulltrúa. Ég teldi að það væri mjög til að bæta stöðuna í þessum málum ef t.d. Verkamannasamband Íslands tilnefndi mann í þessa ráðgjafarnefnd. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur hann eitthvað á móti því eða er hann tilbúinn til að samþykkja að t.d. Verkamannasamband Íslands fyrir hönd fiskverkunarfólks í landinu tilnefndi mann í þessa ráðgjafarnefnd? Ég teldi að það væri strax til verulegra bóta. Þá spurningu vil ég hér skilja eftir handa hæstv. ráðh.

Hæstv. sjútvrh. hafnaði því hér í kvöld að trillur yrðu teknar út fyrir kvóta. Rök hans voru þau: Andi laganna er sá að allir verði fyrir skerðingu. Það verður að vera stjórnun. Stjórnun verður að vera, sagði hæstv. sjútvrh., rétt eins og það væri orðið markmið í sjálfu sér. Í frægri bók segir ein sögupersónan á einum stað: „Agi verður að vera.“ (Gripið fram í: Hann sagði það oft.) Og oft. Þau orð komu mér í hug þegar hæstv. sjútvrh. sagði: Stjórnun verður að vera. — Þá bók mætti hann gjarnan lesa þá daga sem gefast núna í jólaleyfi þm.