19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforkusölu sem lagt hefur verið fram á þskj. 307. Hefur nefndin rætt frv. og leggur til að það verði samþykkt.

Tveir nm., hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson og hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir, hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Undir nál. skrifa þessir tveir hv. þm. enn fremur með fyrirvara.

Það fóru mjög ítarlegar umr. fram um þetta frv. fyrir nokkrum dögum í hv. deild. Hæstv. iðnrh. flutti ítarlega framsöguræðu og allmargir þm. tóku til máls um þetta mál. Ég segi fyrir mig að ég hefði kosið að hafa þetta frv. nokkuð á annan veg, enda liggja mínar skoðanir fyrir, bæði í umr. um verðjöfnunargjaldið hér áður fyrr og nú síðast í sérstöku nál. sem hefur verið lagt fram sem fskj. með þessu frv. Ég vil því ekki tefja tímann nú með því að gera grein fyrir því. En nefndin leggur til að þetta frv. verði samþykkt.