20.12.1984
Efri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég hef nú í fundarbyrjun haft samband við alla fulltrúa í hv. fjh.- og viðskn. og erum við öll sammála því að sú breyting sem gerð var í Nd. verði staðfest hér. Það er um tvennt að ræða, að lækka þær tekjur sem skattfrjálsar yrðu, þegar menn láta af störfum, úr 1 millj. í 800 þús. og hins vegar að við fráfall gildi sama regla og þegar menn tilkynna að þeir hafa látið af störfum. Áfram verður þó heimild í lögum til þess að maður sem hefði áður notfært sér að tilkynna að hann væri hættur störfum en héldi svo áfram kannske mörgum árum síðar einhverjum störfum fengi ívilnun frá sköttum.

Ég hef borið þetta mál undir hæstv. fjmrh. sem ekki hefur gert athugasemdir við okkar afstöðu. Ég legg þess vegna til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.