18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka hv. 3. þm. landsk. fyrir að hafa beitt sér fyrir því að flytja þetta mál og hæstv. heilbrmrh. fyrir þau orð sem hann lét hér falla áðan um þennan málaflokk sem á sér þegar margra ára sögu.

Ég hygg að það hafi verið nokkuð snemma á árinu 1981 að Guðmundur Jóhannesson kom í heilbrmrn. og lagði fram sínar hugmyndir um kerfisbundna leit að brjóstakrabbameini hjá konum. Þær hugmyndir voru teknar til athugunar í rn. og upp úr því varð til sú nefnd sem síðan hefur skilað áliti eins og gerð var grein fyrir fyrr í þessum umr.

Ég tel að það hafi komið fram hjá hæstv. heilbrmrh. að efasemdir um þetta mál byggjast fyrst og fremst á fjárhagslegum forsendum. Ég hygg að efasemdir út frá læknisfræðilegum forsendum geti tæplega verið til í þessu efni, eins og kom mjög glöggt fram í máli hv. flm. Og þó að engin þjóð hafi enn þá byrjað kerfisbundnar rannsóknir af þessu tagi breytir það ekki því að Íslendingar eiga í málum eins og þessum að reyna að nýta sér kosti fámennisins og setja af stað rannsóknir af þessum toga ef nokkur kostur er. Slíkar rannsóknir með kerfisbundnum hætti á Íslandi koma einnig öðrum til góða. Það má mikið vera ef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mundi ekki sýna kerfisbundnum rannsóknum af þessu tagi sérstakan áhuga. Ég minni á að hún hefur í rauninni þegar fjallað um forvarnarstarf hér á landi, talið Ísland ákjósanlegan vettvang fyrir kerfisbundið forvarnarstarf, og ég hygg að það gæti vel komið til greina að heilbrmrn. ræddi sérstaklega við Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að hún komi til skjalanna varðandi það að setja þessar rannsóknir af stað hér á landi.

Ég minni á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur áður lagt fjármuni í rannsóknir á Íslandi og spurningin er hvort ekki væri hugsanlegt að kanna það einnig í þessu tilviki. Ég vil sem sagt beina því til hæstv. heilbrmrh. að taka það til athugunar.

Hitt er auðvitað rétt, sem hann tók fram, að það hafa komið fram þau sjónarmið á undanförnum árum að rannsóknir af þessum toga orkuðu tvímælis út frá fjárhagslegum forsendum og þó að menn eins og Guðmundur Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Hrafn Tulinius o.fl. legðu mikla áherslu á þessar rannsóknir hér á landi varð ég líka var við það hjá forustumönnum í heilbrigðisstéttum á minni tíð í rn. að menn töldu að ekki væri endilega 100% víst að við ættum að setja þetta verkefni inn í forgangsröðina.

En aðalatriðið er auðvitað það í þessu efni, sem hæstv. ráðh. kom að, að Alþingi sjái heilbrmrn. fyrir fjármunum til þess að þessar rannsóknir verði framkvæmdar. Ég minni á að hér fer senn fram 1. umr. um fjárlög fyrir árið 1985. Vafalaust er eðlilegt að taka á þessu máli sérstaklega í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna og kanna að hve miklu leyti Alþingi er tilbúið að tryggja heilbrmrn. fjármuni til að fara út í þær rannsóknir sem hér er gerð tillaga um að hafnar verði með hópskoðunum.

Annars komu fram í ræðu hæstv. heilbrmrh. mörg atriði varðandi almenn heilbrigðismál sem mig langar til að gera örlítið að umtalsefni. Ráðh. upplýsti að Íslendingar eyða núna 10% af þjóðarframleiðslunni í heilbrigðisþjónustu. Ég hygg að þetta sé hæsta hlutfallstala í heimi. Við höfum verið að hækka mjög verulega að undanförnu. Bæði höfum við verið að taka upp nýjar heilbrigðisstofnanir á undanförnum árum og það er enn í undirbúningi og auk þess hefur þjóðarframleiðslan minnkað þannig að hluttallið af kostnaði við heilbrigðisþjónustu af vergri þjóðarframleiðslu hefur farið mjög vaxandi að undanförnu. Ég hygg að til þess að mæta þessari staðreynd sé óhjákvæmilegt að menn átti sig á því betur en við höfum gert til þessa og betur en Alþingi hefur gert til þessa hvaða atriði það eru sem Alþingi er sammála um að setja fremst í forgangsröðina. Ég tel að eðlilegt væri að fram færi hér á Alþingi á ári hverju umr. um stefnumótun í heilbrigðismálum þar sem farið yrði yfir verkefnin með svipuðum hætti og gert er varðandi önnur verkefni á vegum opinberra aðila eins og t.d vegaframkvæmdir. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir alla alþm. að átta sig á því hvað þetta dæmi er þröngt nema þjóðin sé tilbúin að eyða mikið hærri hluta af sinni þjóðarframleiðslu í heilbrigðismál en hún er þegar tilbúin til að gera. Þá er ég að tala um vilja hennar, þann vilja sem birtist hjá þeim mönnum sem sitja á hv. Alþingi, þ.e. hversu langt er Alþingi tilbúið að ganga til að sækja fjármuni í heilbrigðisþjónustuna. Mér hefur ekki skilist að menn væru tilbúnir að ganga mikið lengra í þeim efnum en þegar er gert. Ef menn eru ekki tilbúnir að ná í aukna fjármuni þarf að benda á hvar á að færa til í þeirri heilbrigðisþjónustu sem þegar er á móti þeim nýju verkefnum sem ákveðið er að kosta fjármunum til. Ég held að það væri hollt fyrir alþm. og það væri gott fyrir heilbrmrn. að þessi mál væru rædd hér af fullu raunsæi því að hérna á Alþingi standa uppi oft og tíðum kröfur um tugmilljóna, hundruð milljóna króna útgjöld í heilbrigðismálum á sama tíma og sömu aðilar eru jafnvel með hugmyndir um að skera mjög verulega niður þá samneyslu sem þegar er til í þjóðfélaginu og er fólgin í sköttum.

Hæstv. heilbrmrh. nefndi nokkur verkefni sem hann teldi að væri mjög mikilvægt að fara út í. Ég tek alveg undir það t.d að setja af stað skurðdeild fyrir hjartasjúkdóma. Ég held að það sé ekki einasta skynsamlegt frá heilbrigðissjónarmiði heldur sé það hreinlega fjárhagslega skynsamlegt. Það var sýnt fram á það hér í fyrra í umr. um þetta mál að skynsamlegt er að setja af stað deild fyrir hjartaskurðlækningar hér á landi. Þannig er ekki verið að gera neitt annað en það að efna til kostnaðar á Landspítalanum sem sparast í sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins. Þar er sem sagt dæmi um verkefni þar sem verið er að flytja til fjármuni innan heilbrigðiskerfisins. Þar er ekki um að ræða verkefni sem tekur til sín nýja viðbótarfjármuni.

Ég hygg líka að ef þetta dæmi, kerfisbundnar rannsóknir á brjóstakrabbameini hjá konum, væri reiknað til enda kæmust menn fljótlega líka að þeirri niðurstöðu að þar er ekki eingöngu um að ræða kostnaðarauka, ný fjárútlát, heldur líka sparnað varðandi heilbrigðisþjónustuna á síðari og dýrari stigum. Það vill verða svo að þegar t.d fjárlaga- og hagsýslustofnun er að reikna út kostnað við heilbrigðisþjónustuna hér skoðar hún aldrei þennan flöt á málinu, aldrei nokkurn tíma, fæst aldrei til að líta á það, heldur lítur eingöngu á þann brúttókostnaðarauka sem verður til þegar efnt er til viðkomandi starfsemi. Fjárlaga- og hagsýslustofnun fæst aldrei til að líta á þann sparnað sem hlýst annars staðar í heilbrigðisþjónustu okkar af t.d rannsóknarstarfsemi eins og þeirri sem hér er verið að leggja til. Ég held þess vegna að heilbrmrn. þurfi að gjalda varhug við áætlunum fjárlaga- og hagsýslustofnunar nú eins og áður. Það er afskaplega þröngt sjónarhornið þegar menn nálgast heilbrigðisþjónustuna þar, eins og núv. ráðh. veit vafalaust og þekkir af langri reynslu.

Ég held að þarflegt væri að menn færu aðeins yfir það hér í umr. á hv. Alþingi — þó fáir séu viðstaddir eru það væntanlega þeir sem nenna og þeir sem hafa áhuga hvað það er sem er dýrt í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Hvað er það sem er dýrt? Ég hef heyrt menn setja á langar ræður um að heilsugæslan sé hér allt að drepa, heilsugæslustöðvarnar séu að ríða þjóðarbúinu á slig vegna þess að þær séu svo dýrar. Staðreyndin er hins vegar sú að heilsugæslan í landinu er sáraódýr. Öll heilsugæsla og heilsuvernd er sáraódýr. Það sem er dýrt í heilbrigðisþjónustunni eru sjúkrahúsin eins og þau hafa verið rekin hjá okkur á undanförnum árum. Ég held að við ættum að gjalda varhug við fullyrðingum um að heilsugæslustöðvarnar hafi þanið út kostnað heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Það er alger fjarstæða. Reksturinn t.d á B-álmu Borgarspítalans, svo ég nefni dæmi um stofnun sem er núna verið að taka í notkun, er á við margar heilsugæslustöðvar á ári hverju. Ég held að við eigum að slá skjaldborg um heilsugæsluna og heilsuverndina, en reyna hins vegar með tilflutningum á fjármagni að spara fyrir nýjungum í heilbrigðisþjónustunni í þeim greinum sem einkum lúta að sjúkrahúsarekstrinum.

Aðalerindi mitt upp í stólinn var auðvitað að þakka fyrir þessa umr. og skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að beita sér fyrir því að það verði unnin á Alþingi áætlun um forgangsverkefni í heilbrigðismálum til nokkurra ára þannig að Alþingi fái sjálft að horfast í augu við þann veruleika sem rekstur heilbrigðisþjónustunnar er, sem tekur núna til sín, eins og sagt var, 10% af vergri þjóðarframleiðslu.

Að lokum fagna ég því alveg sérstaklega að það hefur verið ráðinn starfsmaður í heilbrmrn. til að vinna að þessum samningi um forvarnarverkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Ég tel það fagnaðarefni að Ísland skuli vera aðili að þessum samningi með þeim hætti sem ákveðið hefur verið. Ég vil einnig láta í ljós að ég tel ánægjulegt að heilbrmrn. lítur enn þá svo á að unglingageðdeild sé tvímælalaust eitt af forgangsverkefnunum í heilbrigðismálum. Í þessu sambandi vildi ég hins vegar leggja spurningu fyrir hæstv. heilbrmrh. Ég get þó auðvitað gert það með skriflegum hætti síðar ef menn vilja. Hvað líður störfum nefndar sem átti að gera tillögur um stefnumótun í geðheilbrigðismálum og hafði skilað nokkrum áfangaskýrslum þegar á árinu 1983 og hafði ákveðið að taka til við sérstök vandamál unglinganna að ég held á miðju s.l. ári? Er komin skýrsla frá nefndinni varðandi geðræn vandamál unglinga sérstaklega og meðferð þeirra?