20.12.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

173. mál, Skipaútgerð ríkisins

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Njóta skipafélögin Eimskip og Hafskip og skipadeild SÍS einhverra sérstakra kjara hjá Skipaútgerð ríkisins í flutningum? Ef svo er, hver eru þessi kjör? Ef einhver munur er á kjörum þeirra innbyrðis, hverjar eru þá ástæður þess?

2. Er þess gætt að allir viðskiptamenn njóti sömu kjara fyrir sömu vöru, svo sem vegna flutninga á frystum fiski og öðrum sjávarafurðum?

Svar:

1. Skipafélögin njóta afsláttarkjara á framhaldsflutningum hjá Skipaútgerð ríkisins. Er hér annars vegar um að ræða almennan afslátt frá töxtum og hins vegar sérstaka samninga um einstök verkefni. Hvað almennu afslættina snertir er um tvenns konar samninga að ræða, annars vegar opinn samning þar sem engin skuldbinding fylgir af hálfu viðkomandi skipafélags um magn flutnings, og hins vegar samning sem kveður á um ákveðið lágmarksflutningamagn. Munur á afslætti milli þessara samninga er að meðaltali 2–4%. Að undanförnu hafa Eimskipafélag Íslands hf. og skipadeild SÍS verið með fyrrnefnda samninginn en Hafskip hf. með hinn síðarnefnda, en viðræður hafa staðið yfir við skipadeild SÍS og Eimskipafélagið um breytingar.

2. Almennt njóta viðskiptamenn sömu kjara fyrir sömu vöru. Undantekningar eru þó fyrrnefndir samningar við skipafélögin, samningar við aðra aðila þar sem flutningskaupi ábyrgist verulegt flutningsmagn, svo og flutningar samkvæmt tilboðum. Það sem máli skiptir er það flutningsmagn sem samið er um, hvaða þjónustu og þar með hvaða tilkostnaðar er krafist af hálfu Skipaútgerðarinnar, svo og hversu áríðandi flutningarnir eru, eða hvort nýta megi viðkomandi vöru til að fylla vannýtt rými í skipunum þegar það hentar. Það sem að framan er talið á við um flutninga á flestum vörutegundum, þar með frystum fiski og öðrum sjávarafurðum.

Þegar Skipaútgerðin gerir tilboð í flutninga sem boðnir eru út ráða aðstæður því nokkuð hverju sinni hversu há tilboðin eru, enda getur Skipaútgerðin ekki fremur en önnur fyrirtæki búið við það að keppinautarnir viti fyrirfram um upphæð tilboðs hennar.

Það hefur verið stefna stjórnar Skipaútgerðar ríkisins að fyrirtækið keppi um flutninga á almennum markaði og búi að því leyti við svipaðar viðskiptavenjur og almennt gilda þar.