20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þetta mál er býsna skondið. Það hafa liðið tvær vikur frá því að beðið var um upplýsingar. Maður getur út af fyrir sig spurt: Hvað var það sem tók tvær vikur í þessu máli?

Síðan kemur svarið og í því kemur ekkert fram. Það er vísað í fyrri samþykktir sem þegar hafa verið margræddar á Alþingi. Það hefur ekkert nýtt komið fram. Það er næstum eins og slegið á fingurna á utanrrh. og það er sagt við hann: Svona hluti ræðir maður ekki. Þetta er eins og umræður um aldur kvenna. Þetta er alls ekki til umræðu. Þetta er alls ekki fullnægjandi svar. Mér sýnist að það þurfi að ganga eftir svari, það þurfi raunverulega að ganga eftir því hvort þetta skjal er í gildi. Er þetta skjal til og er þetta skjal satt? Við eigum fulla heimtingu á að fá svör við því. Mér finnst að hér þurfi að koma fram upplýsingar um orðalag fsp. Það er ekki nóg að sagt sé að beðið hafi verið um skýringu á þessu plaggi. Við viljum fá að vita hvernig var spurt svo að við getum metið svarið á grundvelli þess.

Hæstv. forsrh. sagði að þetta væri fullkomlega viðunandi svar. Ætli þeim Formósumönnum hafi ekki alla tíð þótt fullkomlega viðunandi svör Bandaríkjamanna um hornstein utanríkismálastefnu Bandaríkjanna sem var stuðningur við Formósu á sínum tíma? Hvers virði var það svo þegar á reyndi? Ég held að hérna sé spurning um íslenskt frumkvæði og ég legg til, ef þetta er spurning um einhvers konar trúnað, að utanrmn. verði birtar upplýsingar um það hvernig var spurt. Ég tel líka að ráðh. ætti að svara því hvort honum hafi borist upplýsingar um sannleiksgildi plaggsins eftir öðrum leiðum. Þar er spurning um íslenskt frumkvæði. Hvað hafa Íslendingar sjálfir gert eftir öðrum leiðum til að sannreyna sannleiksgildi þessa máls? Mér fyndist líka að ráðh. ætti að svara því hvort hann hafi sjálfur séð kjarnorkuvopnaáætlanir NATO og Bandaríkjanna. Og ég vil að lokum spyrja hvort utanrmn. verði birtur hinn enski texti allra þeirra bréfaskipta sem farið hafa fram um þetta mál, bæði spurninga og svara. Þetta tel ég að skipti miklu máli. Málið er algerlega opið, það hefur ekkert skeð annað en að sagt hefur verið: Svona spyr maður ekki.

Ég geri mér grein fyrir því að vegna tímaskorts verður varla hægt að koma nákvæmlega að þessum málum nú, en ég tel að það ætti þá að gerast í utanrmn. við fyrsta tækifæri.