20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins vegna þessara síðustu ummæla þá er þetta að mínu mati ekki spurning um Arkin og forsögu hans, hvort hann hafi einhvern tíma haldið fram röngu máli og hvort hann haldi fram röngu máli núna. Þetta er spurning um það hvernig okkur gengur, Íslendingum, að okkar eigin frumkvæði að ganga eftir upplýsingum um sannleiksgildi skjala sem kunna að vera á sveimi í stjórnkerfum Bandaríkjanna og NATO, gögnum sem varða okkar öryggismál. Yfirlýsing Bandaríkjamanna, sem kemur fram í þessu gagni, er óbein með tilvísun til samþykkta sem áður hafa komið fram og mér finnst hún ekki nægjanlega afgerandi. Mér finnst snuprurnar um launungina, um að menn ræði svona mál ekki í siðuðum samkvæmum, ekki eiga heima í yfirlýsingu frá stjórnvöldum eins og Bandaríkjastjórn.