20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

238. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem lá í orðum hv. 3. þm. Reykv., að ríkisstj. telur nauðsynlegt að athuga mjög vandlega þróun efnahagsmála á næstu mánuðum og það mun verða gert nú í þinghléi. Ég vil endurtaka það sem ég hef áður sagt að það mun verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins um stefnuna í efnahagsmálum á næsta ári, ekki síst og m.a. til undirbúnings þeim kjarasamningum sem á því ári fara fram.

Ég vil einnig lýsa því yfir að ég geri ráð fyrir að hafa samráð við formenn flokka stjórnarandstöðunnar um þau mál þegar þau hafa skýrst. Ég hygg að sú nefndarskipun sem hér er vísað til sé nokkuð annars eðlis og það er þá rétt að hv. 1. þm. Suðurl. geri nánar grein fyrir því. Eins og ég skildi þá nefnd hef ég síður en svo á móti skipun hennar.