18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Hv. 3. þm. Reykv. og fyrrv. heilbrmrh. hefur þegar sagt ýmislegt af því sem ég vildi sagt hafa hér.

Ég stóð fyrst og fremst upp til að taka undir þessa till. Vissulega hefur verið hellt hér inn á Alþingi á síðustu dögum tugum till. sem krefjast mikilla fjármuna og þó að þar sé um mörg góð mál að ræða virðist ekki alltaf vera horft til þess hver verkefni skyldu hafa forgang og hver ekki. Að þessu leyti er sú þáltill., sem hér liggur fyrir, nokkur undantekning, þykir mér, í fyrsta lagi vegna þess að hún krefst ekki gífurlega mikilla fjármuna, en tvímælalaust má vænta mikils árangurs yrði þessi hópleit að brjóstakrabbameini að veruleika. Menn tala um hvað slíkt mundi kosta. Ég tek undir að það er stundum dálítið einhliða útreikningur. 8 ára barni, sem missir móður sína, er búið að greiða, þegar það verður 18 ára gamalt, 240 þús., lauslega reiknað, í barnalífeyri, en það er nánast sú upphæð sem hér var talað um að mundi kosta að annast það sem slík hópskoðun kynni að leiða í ljós. Stundum er peningalegur útreikningur ekki alveg einhlítur.

Hins vegar hefur þessi umr. leiðst út í umr. um heilbrigðiskerfið í heild. Sannleikurinn er sá að vera kynni að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé svo dýrt sem það er vegna þess að það hefur fengið að þróast tiltölulega skipulagslaust. Eftir því sem ég kemst næst sýnist mér að eina skipulagða átakið í heilbrigðismálum af hálfu yfirvalda á Íslandi hafi einmitt verið uppbygging heilsugæslukerfisins. Við kunnum þá sögu mætavel hvernig ýmsar stofnanir hafa orðið til. SÍBS byggði sínar stofnanir, Krabbameinsfélagið setti sína starfsemi af stað, SÁÁ hefur nú þegar stofnun hér í borg í rekstri. Vitaskuld endar þetta alltaf með því að ríkið yfirtekur svo rekstur þessara stofnana. Annað væri óhugsandi. Þetta þarf ekki endilega að vera góð aðferð við að byggja upp heilbrigðisþjónustu þó að framtakið sé góðra gjalda vert. Hið sama gildir oft um aðgerðir heilbrigðisyfirvalda og raunar annarra yfirvalda.

Ráðh. hefur minnst hér á að nú sé búið að ráða yfirlækni til rn. sem skuli annast forvarnarverkefni. Það er gott og blessað. Það var líka gert í sambandi við fræðslu um tannhirðingu og forvarnaraðgerðir í þeim málum. Sannleikurinn er sá að þetta er gersamlega gagnslaust ef ekki eru veittir peningar til þess að starfið verði eitthvað. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lítið sem ekkert hefur orðið úr þeirri upplýsingastarfsemi sem átti að fara fram lögum samkvæmt — og á — um varnir gegn tannskemmdum einfaldlega vegna þess að það hafa ekki verið látnir í það neinir peningar.

Við komum alltaf að því á endanum að við verðum að velja og hafna í hvað við setjum peninga. Ég átti sæti fyrir tveimur árum í nefnd sem skyldi endurskoða sjúkrahúskerfið í landinu með tilliti til hugsanlegs sparnaðar. Sú nefnd skilaði s.l. haust, fyrir ári, ítarlegri skýrslu til hæstv. ráðh. Einhverjar spurnir hafði ég af því að hann hefði ekki haft mikla trú á störfum þeirrar ágætu nefndar, en ég vil nú samt leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hafi lesið skýrsluna ítarlega og hvort hann hafi virkilega ekki séð í þeirri skýrslu neinar þær tillögur sem mættu verða til sparnaðar í sjúkrahúskerfinu.

Því er ekki að neita að við, sem höfum unnið í heilbrigðiskerfinu, höfum víða séð töluvert einkennilega farið með peninga. Ég held að engum sem komið hefur til starfa í Tryggingastofnun ríkisins blandist hugur um að þar sé peningum stundum varið á býsna sérkennilegan máta. Ég minnist þess að okkur rak í rogastans þegar við sáum þær upphæðir sem læknar fengu greiddar fyrir viku eða hálfs mánaðar ferðir út fyrir Reykjavíkursvæðið til að rannsaka augnsjúkdóma, tannsjúkdóma eða einhverja slíka afmarkaða þætti. Ég held að þar hafi verið um upphæðir að ræða, og hef sterkan grun um að svo sé enn, sem nái ekki nokkurri átt og séu ekki í samræmi við önnur laun í þessu landi. (Iðnrh.: Dæmi?) Dæmi? Já, ég get tekið sem dæmi nær allar slíkar ferðir. Upplýsingarnar um það liggja fyrir í Tryggingastofnun ríkisins hvenær sem hæstv. iðnrh. vill. Ég minnist alveg sérstaklega ferða til Austfjarða sem tóku út yfir allan þjófabálk. Nú skal ég ekki fullyrða hvort Austfirðingar sjá verr eða eru heilsuverri en annað fólk, en ég man að þetta var engu líkt. (Iðnrh.: En upphæðin.) Það er erfitt að að tala við núv. ríkisstj. um upphæðir vegna þess að þær breytast dag frá degi. (Gripið fram í.) Ég man þó, ef hæstv. iðnrh. vill endilega vita, að árið 1974, — það er nú orðið ærið langt síðan, ég skal viðurkenna það, — námu slíkar upphæðir þremur gömlum milljónum fyrir viku ferð á meðan við ótíndir deildarstjórar í þeirri sömu stofnun höfðum um 300 þús. kr. á mánuði. Okkur þótti þetta satt að segja harla góð laun, svo ekki væri meira sagt. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er auðvitað alveg hárrétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að vitanlega má spara í sjúkrahúskerfinu. En sá sparnaður á að fara fram þar, en ekki í fyrirbyggjandi aðgerðum. Þær held ég að séu tvímælalaust sparnaður. Á því er enginn vafi.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira. Ég held að þær umr. sem hér hafa byrjað gætu staðið í allan dag. Hv. 3. þm. Reykv. spurði um störf geðheilbrigðisnefndarinnar. Ég þarf ekki að endurtaka þá spurningu, en vil gjarnan heyra hvort ráðh. hefur lesið langa og kannske ekki sérlega skemmtilega skýrslu hinnar nefndarinnar sem átti að leggja til sparnað í sjúkrahúskerfinu. Hún lagði m.a. til að sjúkrasamlög yrðu lögð niður vegna þess að þar er um tvöfalt kerfi að ræða sem er gersamlega út í hött og ekkert nema aukakostnað af að hafa. Aðrar slíkar tillögur var þar að finna. Ég vil gjarnan fá að heyra hvort ekkert hefur enn þá fundist nýtilegt í starfi nefndarinnar.