20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

1. mál, fjárlög 1985

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú lokið störfum við undirbúning að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985. Við upphaf þessarar umr. vil ég enn flytja samstarfsmönnum mínum í fjvn. þakkir fyrir mikil og erfið störf við þær aðstæður sem nú eru. Í mikilli tímaþröng hafa nm. rækt störf sín af mikilli ósérplægni og sérstakri lipurð. Ég vil enn fremur þakka starfsmanni nefndarinnar og starfsfólki fjárlaga- og hagsýslustofnunar ríkisins ómetanlega aðstoð, en í störfum þessara aðila hefur á lokasprettinum þurft að leggja nótt við dag. Þá vil ég enn fremur flytja hæstv. fjmrh. og öðrum ráðh. þakkir svo og þm. sem haft hafa mikil skipti við okkur nm.

Við 2. umr. fjárlaga lýsti ég því hvernig samdráttur þjóðarframleiðslu og þjóðartekna síðustu þrjú árin hefur komið fram í minnkandi tekjuöflun ríkissjóðs jafnhliða því sem ríkisstj. og Alþingi hefur ákveðið á þessu tímabili að fella niður ýmsa skatta. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ríkissjóður hefði á þessum þremur árum ýmist misst eða tekið á sig svo mikla skerðingu á tekjum sínum að hann hefði að sínum hluta tekið á sig þau áföll sem orðið hafa í þjóðarbúskapnum. Með þessu er síður en svo gert lítið úr þeim erfiðleikum sem einstaklingar, heimilin í landinu og atvinnuvegirnir hafa tekið á sig á þessu tímabili.

Þrátt fyrir að verulega hafi verið dregið saman í ríkisrekstrinum byggist afkoma ríkissjóðs og hefur byggst í of ríkum mæli á því að halli hefur verið á viðskiptum við útlönd. Innflutningur og velta í þjóðfélaginu hefur verið meiri en þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa getað staðið undir. Eftir þriggja ára samdráttarskeið er því nú spáð að á næsta ári taki þjóðarframleiðslan að vaxa, þó í litlum mæli sé, eða aðeins um 1/2% frá síðasta ári. Vonandi er að þær batahorfur fái staðist að við getum nú farið að fikra okkur upp úr öldudalnum. Sú sigling verður án efa vandrötuð, en til þess að við getum fengið vind í seglin á þeirri leið verður okkur að takast hvort tveggja, að auka framleiðsluverðmæti okkar og um leið að draga úr þeim mikla halla sem er á viðskiptum okkar við útlönd.

Fyrir 3. umr. fjárlaga komu forustumenn Þjóðhagsstofnunar á fund fjvn. og kynntu síðustu þjóðhagsspá fyrir árin 1984 og 1985. Jafnframt kynntu þeir nýtt endurmat á tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári sem byggist á hinum nýju þjóðhagsforsendum. Við þetta nýja mat á tekjuhorfum ríkissjóðs á árinu 1985 er að verulegu leyti tekið tillit til hvernig innheimtur til ríkisins á síðari hluta þessa árs hafa orðið. Hafa ber í huga í þessu sambandi að velta í október og nóvember á þessu ári virðist hafa verið óvenju mikil.

Í áliti Þjóðhagsstofnunar kemur fram að þrátt fyrir það að nú standi vonir til þess að lokið sé þriggja ára samdráttarskeiði í íslenskum þjóðarbúskap og að nokkuð bjartara sé fram undan og hagvöxtur taki við á ný, þá verði enn mikill halli á viðskiptum okkar við útlönd á árinu 1985. Spáð er lítils háttar halla á vöruskiptajöfnuði. Að öðru leyti stafar viðskiptahallinn eingöngu af greiðslu vaxta af erlendum lánum. Vaxtagreiðslurnar eru taldar munu nema um 15% af útflutningstekjum á árunum 1984 og 1985 sem bera má saman við 4–5% á árunum 1970 til 1974 og 7% árin 1975–1979.

Að loknum kjarasamningum í nóvember og efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnar þótti sýnt að ef fjárlög ársins 1985 ættu að gefa raunhæfa mynd af ríkisbúskapnum væri nauðsynlegt að endurmeta fjölmarga liði frv. án þess að þar kæmi fram stefnubreyting um ný verkefni eða rekstrarumfang. Þetta endurmat þurfti að ná bæði til tekna, gjalda og lánahreyfinga ríkissjóðs.

Hér verður fyrst vikið að tekjuhlið frv. og skýrðar breytingar á endurmati tekjuhliðar eftir kjarasamninga og efnahagsráðstafanir í nóvember og svo einnig endurmat Þjóðhagsstofnunar nú fyrir 3. umr.

Tekjur fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, námu samtals 21 milljarði 980 millj. Eftir uppfærslu að loknum kjarasamningum og efnahagsráðstöfunum í nóv. var talið að tekjur ríkissjóðs gætu orðið á næsta ári 24.9 milljarðar kr. Eftir nýja áætlun Þjóðhagsstofnunar fyrir 3. umr. eru tekjur ríkissjóðs á næsta ári áætlaðar í heild 25 335.9 millj. kr. Skýrist hækkunin fyrst og fremst af því að talið er að sölugjald muni hækka frá fyrra endurmati um 300 millj. kr., aðflutningsgjöld um 200 millj. og tekjur vegna gjaldskrárbreytinga um 12 millj. kr. Er þá reiknað með þeirri efnisbreytingu að sölugjaldstekjur hækki m.a. vegna þess að sölugjald hækkar úr 23.5% í 24%. Enn fremur að sölugjald gefi nokkru hærri tekjur vegna betri söluskattsskila. Jafnframt er þá reiknað með því að tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 600 millj. kr. í samræmi við yfirlýsingar ríkisstj.

Rétt er að taka fram að það sem er alvarlegt við þessa tekjuáætlun er fyrst og fremst það að hún byggir á viðskiptahalla sem nemur 5.6% af þjóðarframleiðslu eða samtals 4.8 milljörðum kr. Það er þá jafnframt ljóst að ef ráða á bót á viðskiptahallanum að meira eða minna leyti þá mun það koma fram í minnkandi tekjum ríkissjóðs.

Helstu upphæðir á einstökum liðum tekjupósta í frv. breytast við þessar hreyfingar þannig að beinir skattar hækka úr 2805 millj. í 3115 millj., eða um 11.1%. Óbeinir skattar, sem eru um 85% allra tekna ríkissjóðs, hækka hins vegar um 3045 millj. kr. Að öðru leyti vísast til brtt. frá meiri hluta fjvn. á þskj. 381.

Tekjur af sölugjaldi eru taldar hækka um 1415 millj. og verða alls 9835 millj. kr. sem skýrist m.a. af hækkun söluskattsauka um 0.5% sem áður er getið. Og auk þess sem einnig er áður getið er stefnt að hertu eftirliti í innheimtu skattsins.

Í samræmi við stefnu frv. er gengið út frá því að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af söluskatti verði skertar um sama hundraðshluta og fram kemur í fjárlagafrv. Í þessu felst að skil ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðsins eru 38 millj. kr. lægri en ella væri. Samt mun sú hækkun á sölugjöldum og aðflutningsgjöldum, sem fram kemur í þessum breytingum, færa sveitarfélögunum 90 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.

Tekjur af hagnaði ÁTVR hækka um 150 millj. kr. og er þá gengið út frá 10% hækkun á söluvörum einkasölunnar umfram almenna verðlagshækkun.

Áður er getið aukinna tekna ríkissjóðs vegna gjaldskrárbreytinga.

Samtals námu útgjöld skv. gjaldahlið frv., þegar það var lagt fram, 22 512 millj. kr. Við 2. umr. hækkuðu útgjöld frv. skv. till. fjvn. um 231 millj. kr. En skv. þeim till., sem nú liggja fyrir, hækka útgjöld frv. í 26 071,8 millj. kr. Þessi hækkun á útgjöldum frv. skiptist í þrjá meginflokka og hefur hver einn sína sérstöðu. Í fyrsta lagi vegna uppfærslu skv. nýjum verðlagsforsendum og breytinga sem ríkisstj. tók ákvörðun um í nóvembermánuði sem nemur 2743 millj. kr. Í öðru lagi vegna ákvarðana sem ríkisstj. tók á milli 2. og 3. umr. um 460.5 millj. kr. Í þriðja lagi vegna brtt. sem eiga rætur að rekja til ákvarðana í fjvn. sem eru um 125 millj. kr. og eru þar af þó 12 millj. kr. sem eru brtt. frá samvinnunefnd samgöngumála. Þessir liðir verða nú skýrðir hver fyrir sig.

Við 1. umr. frv. gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir ákvörðunum ríkisstj. um að hækka rekstrarliði frv., en auk þess ákvað ríkisstj. að hækka nokkra liði sérstaklega. Niðurstöður kjarasamninga leiða til þess að launaliðir ársins 1985 hækka mun meira en að var stefnt í fjárlagafrv. Áhrif samninganna koma bæði fram á þessu ári og mynda þannig grundvöll launaáætlunar á árinu 1985. Launaliðir frv. hækka samtals af þessum sökum um 887.6 millj. kr. Launaliðir almennra rekstrarviðfangsefna hækka um 691.2 millj. kr., eða sem svarar 1.9% umfram samsvarandi liði í fjárlagafrv. Til að mæta áhrifum kjarasamninga við ýmsa launþegahópa, sem ekki eru komin fram, eru áætlaðar 196.4 millj. kr. Þetta færist á liðinn launa- og verðlagsmál undir fjmrn. Af þessum lið verður tekið til að mæta þeirri uppfærslu launa og rekstrargjalda sem koma fram vegna brtt. sem kunna að verða samþykktar hér á Alþingi við 3. umr. En skv. brtt., sem meiri hl. fjvn. og fjvn. hefur flutt, nema þessar uppfærslur tæplega 7 millj. kr. sem mundu þá færast af þessum lið.

Í verðlagsspám, sem komið hafa fram fyrir árið 1985, er talið að almennt verðlag muni breytast um 26–28% á milli áranna 1984 og 1985. Í fjárlagafrv. var hins vegar gert ráð fyrir 13–15% hækkun. Eigi rekstrarfjárveitingar að verða raunhæfar 1985 er nú talið að hækkun rekstrargjalda stofnana þurfi að miða við 23– 24% á milli ára í stað 11% eins og gert var í fjárlagafrv. Getur þó vel verið að ýmsum þyki að sér þrengt sem fyrir stofnunum standa. Miðað er við það að gengi erlendra gjaldmiðla hækki á milli ára um 22–23%. Í fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun í haust var miðað við að gengi breyttist um 5% frá upphafi til loka árs 1985. Jafnframt var stefnan sú að halda genginu lítt breyttu til næstkomandi áramóta.

Aðstæður eru nú gjörbreyttar og sér hver maður að forsendur áætlunar um vexti og afborganir hafa einnig breyst. Af þessum sökum eru gerðar till. um að almenn uppfærsla rekstrargjalda nemi 416.7 millj. kr. Þar af er hækkun vaxtagreiðslna ríkissjóðs af almennum lánum 122.3 millj. og aðrar hækkanir 294.4 millj. kr.

Þessi uppfærsla á útgjöldum frv. er nauðsynleg til að horfst sé í augu við almennar verðlagsbreytingar og nauðsynleg útgjöld, því ella rekur að því að nauðsyn væri á aukafjárveitingum á árinu 1985, en það er skv. venju til þess fallið að slæva alla fjármálaábyrgð forstöðumanna stofnana og fyrirtækja.

Til viðbótar því, sem ég nú hef rakið um uppfærslu launa og rekstrargjalda, taka nokkrir liðir uppfærslu, þ. á m. tilfærsla til Þjóðleikhúss, Sinfóníuhljómsveitar og Unglingaheimilisins í Kópavogi. Þá er að nefna lán Orkusjóðs, lán vegna Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fleiri verðlags- og gengisbundna liði. Alls nemur þessi uppfærsla 70.7 millj. kr. Veigamestu tilfærsluliðirnir eru þó þessir:

Talið er nauðsynlegt að hækka framlög til almannatrygginga um 850 millj. kr. eingöngu vegna bótahækkana í samræmi við kjarasamninga og til þess að mæta hækkun útgjalda sjúkratrygginga sem af launa- og verðlagsbreytingum stafar. Auk þessa hækka útgjöld lífeyristrygginga um 100 millj. kr. vegna sérstakrar 14% bótahækkunar lífeyristrygginga nú í nóvember í stað 10% almennrar hækkunar launa. Alls eru þetta því um 950 millj. kr. sem almannatryggingar hækka vegna breytinga á verðlagsforsendum.

Beint framlag á A-hluta fjárlaga til Lánasjóðs íslenskra námsmanna nemur í frv. 481 millj. kr. Fjárútvegun til sjóðsins eingöngu vegna verðlagsbreytinga er 96.8 millj. kr. Þar af hækkar fjárveiting á A-hluta um 56.8 millj. og hækkun á lántökum sjóðsins sjálfs er 40 millj. Hér er eingöngu verið að leiðrétta fjárhag sjóðsins þannig að hann geti staðið við þau fyrirheit sem að er stefnt í fjárlagafrv.

Þá ákvað ríkisstj. hækkun á framlögum til húsbyggingasjóða um 104 millj. kr. til þess að fjárframlög haldi verðgildi sínu árið 1985.

Þá má enn nefna framlög til niðurgreiðslna á vöruverði sem hækka um 70 millj. kr., þannig að fjárhæð sú, sem í frv. er áætluð til niðurgreiðslna á vöruverði, haldi því raungildi sem að var stefnt.

Þá er þess að geta að í frv. er áætlað fyrir endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi 380 millj. kr. Samhliða endurskoðun á söluskattstekjum almennt er einsýnt að þessi fjárhæð þarf að endurskoðast og hækkar framlag til þessa um 50 millj. kr. og verður alls 430 millj.

Í það heila tekið hækka tilfærslur alls skv. þessu um 1301.5 millj. kr. Þá er þess að geta að ríkisstj. ákvað að framlag til Vegagerðar ríkisins hækkaði um 192 millj. kr. og þannig verða alls um 1650 millj. til ráðstöfunar 1985. Þetta jafngildir 1.91% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu 1985 sem gangi til vegamála. Rétt er að minna á að með auknum útboðum hefur víða tekist að ná fram tilboðum sem hafa verið nokkuð undir kostnaðaráætlun, og hefur það haft áhrif á framkvæmdamagn. Vegaframkvæmdir á árinu 1985 fjármagnast þannig að 1255 millj. kr., eða 76%, koma inn í mörkuðum tekjustofnum en afgangurinn, eða 24%, með beinu framlagi úr ríkissjóði.

Framlag til Landhelgisgæslunnar hækkar sérstaklega um 14.8 millj. kr. vegna uppfærslu á framlagi til kaupa á þyrlu sem er vegna breytinga á gengi. Þannig er einnig um ýmsa liði utanrrn.

Til samræmis við hækkun rekstrarliða eru sértekjur stofnana hækkaðar nokkuð. Alls hækka sértekjur um 88.3 millj. kr. og fjölyrði ég ekki frekar um það.

Þetta eru skýringar við fyrsta þáttinn í þeirri útgjaldahækkun frv. sem ég geri hér að umtalsefni.

Annar þátturinn í þessari breytingu á gjaldahlið frv. er af allt öðrum toga spunninn. Er hann til kominn skv. tilmælum frá ríkisstj. í kjölfar ákvarðana sem hún hefur tekið á milli 2. og 3. umr. Þar vil ég fyrst nefna 225 millj. kr. hækkun almannatrygginga vegna útgjalda sjúkra- og lífeyristrygginga. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur gefið út reglugerðir til að létta útgjöld sjúklinga. Þannig var ákveðið að takmarka greiðslur sjúklinga fyrir sérfræðiþjónustu og rannsóknir og leiðir af því a.m.k. 125 millj. kr. aukin útgjöld. Einnig er ákveðið að hækka ekki á næsta ári þátt sjúklinga í lyfjakostnaði og sérfræðiþjónustu. Af þeim sökum hækka útgjöld um allt að 50 millj. kr.

Þá vil ég nefna að talið var að 40 millj. kr. skorti á áætlun sjúkratrygginga til að standa undir útgjöldum sem verða við það að nýjar sjúkrastofnanir taka til starfa á miðju ári 1985. Enn fremur hækka útgjöld lífeyristrygginga um 10 millj. kr. vegna breyttrar reglugerðar um örorkubætur.

Samtals hækka því útgjöld almannatrygginga skv. þessu um 1150 millj. kr. frá því að fjárlagafrv. var lagt fram í upphafi þings, ýmist vegna breyttra verðlagsforsendna eða vegna ákvarðana sem teknar hafa verið af hæstv. trmrh. og hæstv. ríkisstj.

Þá er lagt til skv. ákvörðun ríkisstj. að hækka framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 130 millj. kr. umfram þá hækkun sem Lánasjóðurinn hefur fengið vegna breyttra verðlagsforsendna. Er þá reiknað með að mæta svo kallaðri umframfjárþörf upp í 100% í staðinn fyrir 95% eins og nú er. Einnig er um magnaukningu að ræða þannig að reiknað er með að lánveitingum fjölgi frá því sem gert var ráð fyrir í frv. úr 7% á næsta ári upp í 11% á næsta ári. Verði þessar till. samþykktar verður fjárútvegun til sjóðsins á næsta ári samanlagt 1008 millj. kr. og skiptist þannig að lánsfé í B-hluta er 340 millj. kr. og fjárveiting sem nemur 668 millj. kr. Af heildarfjárútvegun til sjóðsins fara 895 millj. til útlána en mismunurinn, 113 millj., er til þess að standa undir rekstri sjóðsins og jafna mismun innkominna vaxta og afborgana og þeirra sem greiddir eru af lánum sjóðsins.

Gott er að geta búið vel eða sæmilega að námsmönnum, ekki síður en öðrum. Ástæða sýnist þó til að staldra við og hugleiða hversu langt skuli ganga. Og hvort þær reglur, sem gert er ráð fyrir að gildi um þessi efni á næsta ári, þurfi ekki frekari athugunar við. Ég tel ástæðu til að gerð verði athugun á því hver afkoma námsmanna raunverulega er. Ég dreg í efa að afkoma hins venjulega manns í okkar landi sé betri en námsmanna sem lána njóta.

Hér er verið að ráðstafa háum fjárhæðum. Til samanburðar við 1008 millj. kr. til Lánasjóðs íslenskra námsmanna má nefna að rekstrarfjárveiting til ríkisspítalanna, svo dæmi sé tekið, er 1453 millj. kr. Það má t.a.m. geta þess að hér er urri að ræða hærri fjárveitingu til Lánasjóðs íslenskra námsmanna en áætlað er að verja til byggingarsjóða ríkisins á næsta ári. Hér er um að ræða litlu lægri fjárveitingu en áætlað er að verja til allra stofnkostnaðarframkvæmda á næsta ári miðað við fjárlagafrv. eins og það var lagt fram. Hér er enn fremur um að ræða hærri fjárveitingu en alls er veitt til niðurgreiðslna á vöruverði, jöfnunar á rafhitun, niðurgreiðslna á húshitun með olíu og þannig til millifærslna í þjóðfélaginu á þessum liðum.

Í fjárlögum er fjárveiting sem einungis dugar til að reka skipaútgerð ríkisins í sex mánuði. Og með sama hætti var fjárlagafrv. sett upp fyrir næsta ár. Í þeim till., sem fluttar eru að tilmælum ríkisstj., er lagt til að framlag ríkisins hækki um 40 millj. kr., þannig að rekstur fyrirtækisins verði tryggður allt árið 1985.

Á síðustu árum hefur iðulega verið vanáættað til reksturs grunnskóla á fjárlögum ríkisins. Nú er lagt til í samræmi við till. ríkisstj. að hækka framlög til rekstrar grunnskóla um 22 millj. kr. Enn fremur er lagt til að launaliður grunnskóla hækki um 9 millj. og er það sumpart til þess að á síðari hluta þessa skólaárs verði hægt að vinna upp nokkuð af þeirri kennslu sem tapaðist við verkfall opinberra starfsmanna í haust.

Í umr. um þessi mál hef ég hreyft hugmyndum um hvort ekki væri athugandi að sá hluti af útgjöldum grunnskólalaga, sem ekki er fastbundinn í lögum heldur er í heimildarformi, verði ekki lengur kostaður af ríki heldur verði sveitarfélögum það í sjálfsvald sett hvort þau taka að sér þann kostnað eða ekki. Hér er ekki síst átt við forskóla sem ekki er lögbundinn. Kostnaður við rekstur forskóla mun á næsta ári nema milli 30 og 40 millj. kr.

Mér virðist rökrétt að ef ríkissjóð skortir fé til að standa straum af útgjöldum skv. lögum þá verði fyrst felld niður útgjöld til þeirrar starfsemi sem er í heimildarformi og ekki lögbundin, svo sem er um forskóla.

Það er einnig mikilvægt að slíkar aðgerðir komi sem jafnast við sveitarfélögin, en forskóli mun nú rekinn í flestum eða öllum skólahverfum landsins og kemur ekki harðar við einn landshluta en annan, þó að hann færðist til sveitarfélaga. Enn fremur sýnist mér ekki óeðlilegt að t.a.m. sálfræðiþjónusta í grunnskólum væri á vegum sveitarfélaganna en ekki ríkisins, þannig að sveifarfélögin tækju þann þátt að sér og ákveði sjálf umfang þeirrar þjónustu. Þá er hér lagt til í samræmi við samþykktir ríkisstj. að framlag til Erfðafjársjóðs hækki um 5.6 millj. kr. og fær þá sjóðurinn tekjur skv. óskertum lögum af erfðafjárskatti.

Enn fremur er lagt til að tekinn verði upp nýr liður, Sjónstöð ríkisins, og verði framlag um 5 millj. kr. Þar af verði laun 1.9 millj., rekstrargjöld 0.8 millj. og stofnkostnaður 2.1 millj. Á launalið þessarar stofnunar er gert ráð fyrir einni stöðu læknis, einni stöðu sjónþjálfa, hálfri stöðu sjónfræðings og einni stöðu skrifstofumanns. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki til starfa eigi fyrr en 1. apríl n.k.

Þá er lagt til að inn á liðinn Ríkisspítalar, stofnkostnaður komi nýr liður, K-bygging, og verði fjárveiting 20 millj. kr.

Þær till., sem hér hafa verið skýrðar, eru fluttar skv. tilmælum og í kjölfar ákvarðana ríkisstj. og nema þær samtals 460.5 millj. kr.

Fjvn. leggur ekki til breytingar á þessum liðum í krónutölu frá því sem tilmæli komu um frá ríkisstj. En ég get persónulega tekið fram að mér virðast sumar þær ákvarðanir sem að baki þessum till. liggja í litlu samræmi við þá erfiðu stöðu sem við er að fást í fjármálum ríkisins.

Þriðji þátturinn í hækkun útgjalda á frv. á milli 2. og 3. umr. eru till. sem eiga rætur að rekja til ákvarðana fjvn. og eru fluttar af nefndinni í heild, en inni í þeim till. eru, eins og áður sagði, 12 millj. kr. vegna brtt. frá samvinnunefnd samgöngumála. Þessar till. frá fjvn. og samvinnunefnd samgöngumála nema í heild 125 millj. kr. Áður en ég vík að því að skýra einstakar till. í þessum flokki brtt. þykir mér rétt að víkja að rekstrar- og greiðsluyfirliti ríkissjóðs eins og það kemur út ef till. fjvn. og meiri hl. fjvn. verða samþykktar.

Eins og þegar er komið fram nema áætlaðar tekjur ríkissjóðs á næsta ári, verði brtt. meiri hl. fjvn. samþykktar, samtals 25 335.9 millj. kr. en gjöld samtals 26 071.8 millj. kr. Því er um rekstrarhalla að ræða sem nemur 735.5 millj. kr. Eins og fyrr er að vikið kemur þessi rekstrarhalli fram eftir endurmat tekna og gjalda, bæði vegna breyttra verðlagsforsendna og vegna þeirra breytinga á einstökum liðum útgjalda og tekna sem hér hafa verið raktar og ýmist komu fram við 2. umr. eða hér liggja fyrir í tillöguformi. Þetta er um 203 millj. kr. meiri halli en upphaflega var gert ráð fyrir þegar frv. var lagt fram. Til þess að mæta þessum aukna halla hefur verið gerð breyting á áformum um lánsfjáröflun fyrir ríkissjóð á næsta ári. Sumar af þeim breytingum eru bein afleiðing af öðrum verðlagsforsendum sem upphaflega voru lagðar til grundvallar, en aðrar eru nauðsynlegar til að fjármagna aukinn rekstrarhalla.

Erlendar lántökur til A- og B-hluta ríkissjóðs munu hækka um 300 millj. kr., úr 2600 í 2900 millj. Hér verður ekki fjallað ítarlegar um erlendar lántökur og áhrif þeirra á fjármál ríkisins og þjóðarbúskapinn. Sú umr. mun fara fram við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga. Rétt þykir mér þó að benda á að æskilegt væri að breyta tekjuöflun ríkissjóðs á þann veg að hún væri ekki jafnháð og raun ber vitni breytingum á innflutningi og viðskiptahalla, sem að nokkru leyti eru afleiðingar af miklum erlendum lántökum.

Gert er ráð fyrir að útgáfa verðbréfa og happdrættisskuldabréfa skili 400 millj. kr. sem er hækkun um 50 millj. kr. frá upphaflegum áætlunum. Í lánsfjáráætlun er nánar fjallað um þessa fjáröflun og bregðist hún, eins og gerðist á þessu ári, mun það skapa viðbótarvanda fyrir ríkissjóð.

Alls er áætlað að lánajöfnuður sýni 868.5 millj. kr. í innborganir umfram útgreiðslur, sem með 120 millj. kr. nettó útstreymi á viðskiptareikningum og rekstrarhalla að fjárhæð 735.5 millj. kr. þýðir um 13 millj. kr. greiðsluafgang.

Að mínum dómi er ekkert ánægjuefni að kynna áætlað rekstraryfirlit ríkissjóðs á næsta ári með yfir 700 millj. kr. halla. Á hinn bóginn tel ég ekkert efamál að gjaldahlið fjárlagadæmisins sé nú traustari en verið hefur á undanförnum árum.

Ég tel þá rétt að fara nokkrum orðum um B-hluta frv. Að venju hefur fjvn. fjallað um fjárhag ýmissa B-hluta fyrirtækja og sjóða. Út af fyrir sig tel ég að B-hluta fyrirtæki þyrftu að fá ítarlegri umfjöllun en oft vill verða við mikinn tímaskort á síðustu dögum fyrir afgreiðslu fjárlaga. Ég vil vekja á því athygli að hjá sumum þjóðþingum eru gjaldskrármál og þar með hækkun gjaldskráa ákveðin í fjárlögum hverju sinni.

Rekstur og fjárfestingar Pósts og síma, Ríkisútvarps og Rafmagnsveitna ríkisins fengu sérstaka umfjöllun. Rekstraráætlun Pósts og síma er í öllum meginatriðum samhljóða rekstraráætlun stofnunarinnar. Aftur á móti er lagt til að framkvæmdir stofnunarinnar verði 350 millj. kr. á árinu 1985, sem er um 25 millj. kr. lægri fjárhæð en lagt var til í upphaflegri framkvæmdaáætlun. Tveimur framkvæmdum í Reykjavík verður þar með frestað á næsta ári, þ.e. pósthúsbyggingu í Mjóddinni í Breiðholti og aðstöðuhúsi á Ártúnshöfða. Þó eru framkvæmdir fyrirhugaðar þannig að um 100 millj. kr. verði varið til lokaátaks í uppsetningu sjálfvirks síma í sveitum. Þetta verk hefur gengið betur en áætlað var og á stofnunin lof skilið fyrir. Aðrar framkvæmdir stofnunarinnar eru því um 250 millj. kr. og eru sýndar á sérstöku yfirliti á þskj. 412 í brtt. meiri hl. fjvn.

Út frá forsendum frv. um launa- og verðlagsbreytingar er talið nægjanlegt að gjaldskrá stofnunarinnar hækki um 11% á næsta ári og gildi sú hækkun frá 1. febr. n.k. Þetta verður að teljast hófleg hækkun gjaldskrár sem hefur ekki hækkað frá því í ágúst árið 1983. Fjárhagsafkoma stofnunarinnar hefur verið fremur góð á þessu ári og því full ástæða til að þessi þáttur opinberrar þjónustu hækki ekki umfram það sem brýnast er talið.

Framlag úr A-hluta, þ.e. sá hluti af rekstri stofnunarinnar, sem greiddur er af Alþjóðaflugmálastofnuninni, hækkar úr 40 millj. kr. og verður 50 millj. Þá hækkar áformuð lántaka úr 30 millj. í 32 millj., en um aðrar breytingar vísa ég til þskj. 412 um brtt. meiri hl. fjvn.

Til þess að ná jöfnuði í rekstri Ríkisútvarpsins þurfa gjaldskrár vegna sjónvarpsins að hækka að því er talið er frá 1. mars um 16% vegna auglýsinga og á sama tíma um 10% vegna afnotagjalds. Gjaldskrá útvarpsins er sömuleiðis talin þurfa að hækka frá 1. mars um 6% fyrir auglýsingar og um 10% vegna afnotagjalda. Framkvæmd við útvarpshús hefur miðað vel undanfarið. Alls er á árinu 1985 áætlað að til framkvæmda renni um 50 millj. kr. úr byggingarsjóði útvarpsins. Er þá hafnað áformum um lántökur til framkvæmda upp á 59 millj. kr. til viðbótar.

Þá vík ég að fjármálum Rafmagnsveitna ríkisins. Í fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 kemur fram að fjárfestingar fyrirtækisins eru alls áætlaðar 185 millj. kr. á næsta ári og eru þær að mestu fjármagnaðar með lántöku sem er 175 millj. kr. Óhjákvæmilegt virðist að gjaldskrá fyrirtækisins hækki nokkuð.

Landsvirkjun mun áætla 14% hækkun á heildsölugjaldskrá frá 1. janúar n.k. Áður hefur Landsvirkjun fengið 5% hækkun á sinni gjaldskrá án þess að það hafi komið fram í smásölugjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins. Skv. þeim till., sem fyrir liggja, má ætla að Rafmagnsveitur ríkisins þyrftu að fá gjaldskrárhækkun sem nemur nálægt 20% á næsta ári.

Um aðrar breytingar á B-hluta frv. má nefna að lagt er til að byggingarsjóði rannsóknastofnana atvinnuveganna verði heimiluð lántaka, 4.5 millj. kr., sem ráðstafað verði til nýbygginga Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Um Lánasjóð ísl. námsmanna og skipaútgerð ríkisins hefur áður verið fjallað.

Í síðasta lagi hafa verið gerðar breytingar á fjárhag nokkurra B-hluta fyrirtækja, svo sem eins og Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar í samræmi við breytingar sem fram koma í brtt. við 3. og 4. gr. frv.

Mér þykir rétt að taka fram að til fjvn. kom beiðni um fjárframlag til að standa straum af rannsóknum á sviði líftækni, svokallað ensímverkefni. Að mati vísindamanna á þessu sviði er hér um að ræða langtímaverkefni sem hæpið er að muni skila þjóðarbúinu arði fyrr en að nokkrum árum liðnum. Til undirbúnings þessu verkefni er nú talið að verja þurfi milli 60 og 70 millj. kr. á næstu árum, þar af um 16 millj. kr. á árinu 1985. Hér er um mjög áhugavert verkefni að ræða sem þarfnast gaumgæfilegrar athugunar. Hluti þess fjármagns, sem til rannsókna kann að verða varið, er þó hreint áhættufé. Með tilliti til þess, sem ákveðið hefur verið um stofnun þróunarfélags til eflingar nýjunga í atvinnulífinu og rannsókna, sýnist fjárstuðningur við verkefni á sviði líftækni dæmigert viðfangsefni félagsins.

Þá vil ég taka fram að í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna í byrjun sept. kom fram að ákveðið er að takmarka greiðslu útflutningsbóta við 380 millj. kr. á næsta ári. Jafnframt skal að því stefnt að 10% af áætluðum útflutningsbótarétti, þ.e. 55–60 millj. kr., verði ráðstafað til eflingar nýrra búgreina. Framkvæmd þessa stefnumarkmiðs ríkisstj. er fyrirhugað þannig að verkefni verði fjármögnuð með hluta af því fé sem ætlað er til svonefnds þróunarfélags. Í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að til þessa félags verði aflað 500 millj. kr. með lánsfé.

Hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir því að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár væri sýnt í fskj. hvernig ríkissjóður væri gerður upp skv. reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fjvn. hefur kynnt sér þessa framsetningu og hún hefur orðið tilefni til umr. á Alþingi. Það er þarft framtak hjá hæstv. ráðh. að kynna frv. með þessum hætti. Fjvn. hefur hug á því að fjalla nánar um þetta framsetningarform eftir áramót og mun þá kynna skoðanir sínar á því.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. meiri hl. n. varðandi greiðsluyfirlit ríkissjóðs, tekjuáætlun og B-hluta stofnanir. Áður en ég hef að gera grein fyrir brtt. n. varðandi 4. og 6. gr. vil ég taka fram að brtt. við þessar tvær gr. frv. eru fluttar af fjvn. í heild. Að sjálfsögðu hefur minni hl., þ.e. fulltrúa; stjórnarandstöðuflokkanna, eftir venju frjálsar hendur um að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Brtt. við 1., 2. og 3. gr. svo og 5. gr. eru fluttar af meiri hl. fjvn. Mér þykir rétt að taka það fram og biðja velvirðingar á því að orðið hafa þau mistök að örfáar till., er varða 4. gr. og ætlunin var að fluttar yrðu af fjvn. í heild, hafa farið inn á þskj. 381 sem flutt er af meiri hl. fjvn. Þetta eru brtt. 10–13 og 23 á því þskj.

Þá vil ég hér greina frá þeim brtt., sem fluttar eru við 4. gr.

Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Til kjararannsókna, og skiptist hann þannig að laun hækka um 200 þús. og rekstrargjöld um 600 þús. kr.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Þingvallanefnd. Lagt er til að gjöld hækki um 500 þús. kr. vegna aukins stofnkostnaðar innan þjóðgarðsins.

Menntamálaráðuneyti.

Kennaraháskóli Íslands. Lagt er til að laun hækki um 700 þús. kr. sem er vegna tveggja lektorsstaða við skólann til að sinna kennslu í tölvufræðum og fyrir kennara fyrir fatlaða.

Íþróttakennaraskóli Íslands. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, viðhald, sem verði 250 þús. kr. Verkmenntaskóli, Akureyri. Lagt er til að gjöld hækki um 500 þús. kr. vegna tækjakaupa.

Vélskóli Íslands. Lagt er til að gjöld hækki um 500 þús. kr. vegna tækjabúnaðar.

Í báðum þessum skólum er gert ráð fyrir að verja þessu fé til að undirbúa eða kaupa tæki sem kallast „hermir“, en þau tæki kosta mun meira en þessar fjárhæðir segja til um. Forstöðumenn þessara skóla gera sér vonir um framlög annars staðar frá þannig að unnt verði að koma kaupum í kring.

Fjölbrautaskóli, Garðabæ. Hér er um nýtt viðfangsefni að ræða og tilfærslu frá grunnskóla sem gerist við það að skólanum hefur verið breytt í fjölbrautaskóla. Þessi breyting hefur í för með sér aukin útgjöld ríkissjóðs um 1 millj. 280 þús. kr. en að öðru leyti færist kostnaður sem nemur 7 millj. 750 þús. kr. af lið grunnskóla til þessa fjölbrautaskóla.

Tónlistarfræðsla. Lagt er til að liðurinn Tónlistarskólar hækki um 4 millj. kr. svo sem þegar hefur verið greint frá.

Skálholtsskóli. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 300 þús. kr.

Grunnskólar, Norðurlandi eystra. Liðurinn lækki um 300 þús. kr. vegna sparnaðar við skólahjúkrun þegar heilsugæslustöð á Akureyri tekur til starfa.

Grunnskólar almennt. Liðurinn framhaldsdeildir í grunnskólum lækkar um 7 millj. 750 þús., eins og áður segir, vegna stofnunar fjölbrautaskóla í Garðabæ. Einnig er lagt til að tekinn verði upp nýr liður, grunnskólar, óskipt, 31 millj. kr., sem skiptist þannig að 22 millj. ganga til rekstrar og 9 millj. vegna launa sem áður hefur verið skýrt frá. Liðurinn grunnskólar almennt hækkar því um 23 millj, 250 þús. kr.

Skólar fyrir þroskaheft börn. Útgjöld vegna Kjarvalshúss, greiningarstöðvar, hækka um 900 þús. kr. sem skiptist þannig að laun hækka um 450 þús. en önnur gjöld um 250 þús. og eignakaup um 200 þús. kr.

Þjálfunarskólar. Lagt er til að útgjöld hækki um 250 þús. sem skiptist þannig að önnur gjöld hækki um 100 þús. en stofnkostnaður um 150 þús.

Fullorðinsfræðsla. Lagt er til að útgjöld hækki um 130 þús. kr. vegna þess að Heimilisiðnaðarskólinn hækkar um 30 þús. og verður 150 þús. en einnig er tekinn upp nýr liður, félagsmálanámskeið, sem er 100 þús. kr.

Listir, framlög. Lagt er til að útgjöld hækki um 1300 þús. kr. sem skýrist af því að Þýðingarsjóður hækkar um 200 þús. kr., Íslenska óperan um 500 þús. og tekinn er upp nýr liður, Íslenski dansflokkurinn, 600 þús. kr.

Norræn samvinna. Lagt er til að útgjöld hækki um 75 þús. kr. vegna hækkunar á liðnum 1.20, þátttaka í framkvæmdastjórn UNESCO.

Ýmis íþróttamál. Lagt er til að útgjöld hækki um 200 þús. kr. vegna liðarins Íþróttamál fatlaðra. Hækkun þessi á öll að renna til íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík.

Liðurinn Ýmislegt 999. Lagt er til að liðurinn hækki um 800 þús. kr. sem skiptist þannig að nýr liður, Kvenfélagasamband Íslands, fái 600 þús. kr., 85-nefnd 500 þús. kr. og tekjuliðurinn Ýmis framlög hækkar einnig um 300 þús. kr. Á móti lækkar liðurinn Félög, styrkir um 600 þús. kr.

Utanríkisráðuneyti, ýmis utanríkismál. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Félag sameinuðu þjóðanna, 50 þús. kr. sem er vegna 40 ára afmælis samtakanna.

Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að rekstrargjöld hækki um 200 þús. kr. Er það sumpart vegna breytinga sem gera þarf á starfseminni við yfirtöku ráðuneytisins á Landnámi ríkisins.

Búnaðarfélag Íslands. Lagt er til að útgjöld aukist um 1 millj. kr., sem skiptist þannig að laun hækki um 300 þús. kr. og önnur gjöld um 200 þús. vegna leiðbeininga í loðdýrarækt sem ekki er áætlað fyrir í frv., en önnur rekstrargjöld hækki um 500 þús. kr. sem er vegna aksturs ráðunauta.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Lagt er til að gjöld hækki um 4 millj. 450 þús. kr. sem skiptist þannig: Tekinn verði upp nýr liður, Viðhald á húsi Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri, 350 þús. kr. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Tilraunastöðvar landbúnaðarins, 2 millj. 500 þús. kr. óskipt, er gangi hlutfallslega jafnt til tilraunastöðva landbúnaðarins.

Stofnkostnaður vegna byggingar á Möðruvöllum hækkar um 900 þús. kr. og styrkur til stofnkostnaðar á Stóra-Ármóti um 700 þús. kr.

Veiðimálaskrifstofa. Lagt er til að gjöld hækki um 200 þús. kr. sem skiptist þannig að laun hækki um 100 þús. kr. vegna starfsmanns á Suðurlandi sem tæki til starfa frá og með 1. maí en taki laun að hálfu annars staðar frá. Enn fremur að rekstrargjöld stofnunarinnar verði hækkuð um 100 þús. kr.

Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að gjöld hækki um 300 þús. kr. vegna þess að tekinn er upp nýr liður, Búnaðarsamband Austur-Skaftafellsýslu, 150 þús. kr. Búnaðarsamband Suðurlands hækkar um 50 þús. og ýmis verkefni um 100 þús.

Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að gjöld hækki um 300 þús. kr. vegna starfa fulltrúa á skrifstofunni.

Hafrannsóknastofnun. Lagt er til að gjöld hækki alls um 9 millj. 240 þús. sem skýrist þannig að vegna rekstrar á nýju rannsóknaskipi, Otto Wathne, verði varið alls 9 millj. 600 þús. kr., en sértekjur dragast frá sem eru 600 þús. kr. Lagt er til að unnt sé að reka skipið í 8–9 mánuði. Þá eru tekin upp útgjöld vegna útibús í Vestmannaeyjum, 240 þús., sem starfi frá miðju ári, en þar er húsnæði tilbúið fyrir þessa starfsemi.

Dómsmálaráðuneyti.

Borgardómari í Reykjavík. Lagt er til að laun hækki um 71 þús. kr. og er það leiðrétting.

Borgarfógetinn í Reykjavík. Lagt er til að önnur gjöld hækki um 1300 þús. kr. vegna tölvuvæðingar embættisins.

Sýslumaður og bæjarfógeti, Akureyri. Lagt er til að gjöld hækki um 750 þús. sem er stofnkostnaður svo að unnt verði að standa við verksamning.

Sýslumaður, Hvolsvelli. Lagt er til að stofnkostnaður hækki um 750 þús. Er sú hækkun enn fremur til þess að unnt verði að standa við verksamning um framkvæmdir sem eru í gangi.

Landhelgisgæslan. Lagt er til að útgjöld hækki um 5 millj. 747 þús. og skiptist þannig að laun hækki um 768 þús. og rekstrargjöld vegna nýrrar þyrlu um 4 millj. 979 þús. kr. Þessi rekstrargjöld eru leiga fyrir þyrluna.

Almannavarnir. Lagt er til að stofnkostnaður vegna tækjakaupa hækki um 300 þús. kr.

Dómsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður, Aðgerðir gegn fíkniefnum, 1 millj. kr.

Ýmis löggæslukostnaður. Lagt er til að útgjöld hækki um 2 millj. 500 þús. vegna þess að tekinn verði upp nýr liður, Starfsmenn hjá sýslumönnum og bæjarfógetum, og verður fé þessu skipt síðar af fjvn. að fengnum tillögum frá dómsmrn. og ráðninganefnd ríkisins.

Prestar og prófastar. Lagt er til að laun hækki um 700 þús. kr. vegna hækkunar á liðnum Ýmislegt, með undirliðum kirkjuráð og kirkjuþing.

Félagsmálaráðuneyti.

Málefni fatlaðra. Lagt er til að gjöld hækki um 2 millj. 500 þús. vegna 10. gr. laga um aðstoð við þroskahefta.

Málefni fatlaðra á Reykjanesi. Lagt er til að gjöld hækki um 200 þús. kr. vegna launakostnaðar í nýju sambýli á Reykjanesi.

Málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Lagt er til að gjöld hækki um 300 þús. kr. vegna aukinna rekstrargjalda til ráðstöfunar hjá svæðisstjórn.

Málefni fatlaðra á Suðurlandi. Lagt er til að liðurinn Sambýli á Selfossi hækki um 400 þús. kr. en þar hafði orðið reiknivilla við undirbúning frv.

Vinnueftirlit ríkisins. Lagt er til að laun hækki um 2 millj. 795 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 1 millj. Sértekjur hækki á móti um 3 millj. 795 þús. kr. Með þessum hækkunum á tekjum og gjöldum stofnunarinnar er ætlast til að hún starfi í samræmi við þær áætlanir sem hér liggja að baki og ekki verði um frekari útþenslu stofnunarinnar að ræða.

Vinnumál. Lagt er til að gjald hækki um 5 millj. 150 þús. kr. sem skýrist með því að tekinn er upp nýr liður, Orlofsheimili launþegasamtaka, sem verður 4 millj. 790 þús. kr., Iðnnemasamband Íslands verði 50 þús. kr. og liðurinn Ýmislegt hækki um 310 þús. kr.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að gjöld hækki um 3 millj. kr. sem er vegna nýs liðar, Varnaraðgerðir við Skeiðará, varnargarðar við þjóðgarðinn í Skaftafelli, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði á vegum Vegagerðar ríkisins.

Heilbrigðisráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að laun hækki um 250 þús. kr. vegna samningsbundinnar yfirvinnu sérfræðings í rn.

Hollustuvernd ríkisins. Lagt er til að gjöld hækki vegna tækjakaupa fyrir geislavarnir um 250 þús. kr. Sjónstöð ríkisins. Tekinn er upp nýr liður, svo sem fyrr hefur verið frá greint, með 5 millj. kr. Ríkisspítalar. Lagt er til að gjöld hækki alls um 59 millj. kr. sem skiptist þannig að laun hækki um 230 millj. kr., tækjakaup um 16 millj. og yfirstjórn á Landspítalalóð hækki um 20 millj. sem er fjárfesting vegna K-byggingar sem fyrr er frá greint. Rétt er að geta þess að í þskj. 411, brtt. frá fjvn., hefur slæðst inn villa í yfirliti varðandi þennan lið. Fleiri villur kunna að vera í þskj. svo sem oft er við afgreiðslu fjárlagafrv. vegna þeirrar gífurlegu vinnu og álags sem hvílir á starfsmönnum sem að þessu vinna. Verður að biðja þá velvirðingar á því.

Málefni fatlaðra. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra ber ríkissjóði að greiða halla af endurhæfingarstöðvum fatlaðra og skulu þær heyra stjórnarfarslega undir heilbrigðisráðuneytið. Af þessum sökum hefur ekki verið hjá því komist að búa til nýjan lið á fjárlögum til þess að vinna að þessu verkefni. Útgjaldaauki ríkissjóðs vegna þessa er 5 millj. og 9 þús. kr.

Þessi liður skiptist þannig að endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra við Háaleitisbraut í Reykjavík er með 3 millj. 625 þús. kr., Sjálfsbjörg á Akureyri með 1 millj. 384 þús. og sumardvalarheimilið í Reykjadal með 3 millj. 251 þús. kr.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. Liðurinn Heilsuverndarstöðvar, styrkir lækkar um 500 þús. kr. vegna þess að ný heilsugæslustöð á Akureyri tekur til starfa frá og með 1. janúar.

Fjórðungssjúkrahúsið, Akureyri. Lagt er til að laun hækki um 1 millj. 700 þús. kr. vegna þess að til starfa tekur ný slysadeild á árinu.

Héraðslæknar og heilsugæslustöðvar. Lagt er til að útgjöld hækki á þessum lið um 10 millj. 800 þús. kr. skýrist þessi hækkun með því að kostnaður við starfslið við nýja heilsugæslustöð á Akureyri verði 8 millj. 800 þús. kr. og kostnaður vegna nýrra heilsugæslulækna á Grundarfirði, Eskifirði og í Grindavík auk annars starfsfólks, sem hugsanlega verður ráðið á árinu 1985 í heilsugæslustöðvum, verði samtals 2 millj. kr. Gert er ráð fyrir að læknir á Grundarfirði geti tekið til starfa 1. febrúar en á Eskifirði og í Grindavík frá og með 1. júlí.

Á móti þessu lækka sjúkratryggingar Tryggingastofnunar ríkisins um 4 millj. kr. svo og liðurinn Heilsuverndarstöðvar, styrkir um 500 þús. kr. og grunnskólar á Norðurl. e. um 300 þús. kr. eins og áður hefur verið getið. Samtals er hækkun ríkisútgjalda vegna þessara breytinga 6 millj. kr.

Bindindisstarfsemi. Áfengisvarnaráð. Útgjöld hækka um 250 þús. kr. sem skýrist af því að laun hækka um 50 þús. og rekstrargjöld um 200 þús. kr.

Fjármálaráðuneyti. Uppbætur á lífeyri. Liðurinn hækkar um 697 þús. kr. sem færist á liðinn Styrktarfé og aðrir starfsmenn.

Fasteignamat ríkisins. Lagt er til að laun hækki um 800 þús. kr.

Samgönguráðuneyti.

Vegagerð ríkisins. Lagt er til að taka upp nýjan lið, Til einstaklinga og samtaka, sem eru styrkveitingar til þeirra aðila sem halda uppi greiðasölu við erfið skilyrði að vetrarlagi. Liðnum verður skipt af fjvn. síðar í vetur svo sem tíðkað hefur verið á undanförnum árum. Áður hefur verið skýrt frá uppfærslu á Vegagerð ríkisins samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og skal það ekki endurtekið hér.

Siglingamálastjóri. Lagt er til að gjöld hækki um 1500 þús. sem skiptist þannig: Laun hækki um 300 þús., önnur gjöld um 600 þús. og stofnkostnaður um 600 þús. kr.

Gert er ráð fyrir því að skoðunargjald verði hækkað um 2 millj. kr. og er sú till. kynnt í brtt. meiri hl. fjvn. við 3. gr.

Sjóslysanefnd. Lagt er til að framlag hækki um 3 millj. kr. vegna þess að tekinn er upp nýr liður, Öryggismál sjómanna.

Flugmálastjórn. Lagt er til að gjöld hækki um 150 þús. kr. sem er hækkun á launalið vegna hálfrar stöðu flugvallarstarfsmanns á Breiðdalsvík.

Iðnaðarráðuneyti. Ýmis orkumál. Lagt er til að útgjöld vegna orkusparandi aðgerða hækki um 3 millj. kr. og verði 13 millj. kr.

Tillögur er varða 6. gr. tel ég að skýri sig að mestu sjálfar.

Ég hef þá lokið, herra forseti, við að greina frá till. fjvn. og yfirliti yfir rekstrarstöðu og greiðslustöðu ríkissjóðs eins og hún kemur fram skv. þeim till. sem fjvn. flytur og meiri hl. fjvn. á öðrum þskj.