20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

1. mál, fjárlög 1985

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Með örfáum orðum vil ég bæta við það sem hv. formaður fjvn. sagði um fjármagn til rannsókna og tilrauna til nýsköpunar í atvinnulífi. Eins og kom fram hjá hv. formanni er gert ráð fyrir að fjármagni af þeim 500 millj. kr. sem ríkisstj. hefur ákveðið að verja til nýsköpunar í atvinnulífi verði varið í þessu skyni. Þess vegna lagði ég fram í ríkisstj. tillögu um að 50 millj. af þessum 500 millj. yrði ráðstafað sem framlagi í sjóð sem veitt yrði fjármagn úr til rannsókna og tilrauna til nýsköpunar í atvinnulífi. Þá er gert ráð fyrir að

Rannsóknaráð ríkisins geri till. til menntmrh. sem menntmrh. leggi síðan fyrir ríkisstj. um þær reglur sem gildi um úthlutun á þessu fjármagni. Svo er bókað í gerðabækur ríkisstj. og verður nánar um þetta fjallað með lánsfjárlögum.

Ég geri fastlega ráð fyrir að m.a. muni Líffræðistofnun Háskólans fá fjármagn af þessu fé til þeirra rannsókna sem hún hefur sótt um til fjvn., enda er þar tvímælalaust um mjög athyglisvert mál að ræða. Ég fagna því að samstaða hefur náðst um að leggja til hliðar þó þetta fjármagn til slíkra rannsókna, því að vitanlega er það undirstaðan í því að nýsköpun í atvinnulífi geti farið vel úr hendi. Ég ætla ekki að eyða tíma til að rekja þau ýmsu mál sem þar eru í athugun, en þau eru mörg og þetta er áreiðanlega lágmarksfjárveiting í þessu skyni, þó ríflegri en nokkru sinni fyrr hefur verið gert og væntanlega til þess að töluverður kippur verði í þessum málum, ef ég má orða það svo, eða töluvert aukin starfsemi.

Ég vil svo jafnframt geta þess, af því að það kom fram í ræðu hv. formanns fjvn. og mátti skilja svo, að ríkisstj. hefði verið nokkuð rausnarleg því að hún samþykkti hækkanir upp á 460 millj. kr. Vel má svo segja. En í mínum huga var þar einvörðungu um hluti að ræða sem fella má undir gerða hluti. Þarna var um að ræða hækkun til útgjalda trygginga, fyrst og fremst vegna mildandi aðgerða sem felast í þeim reglugerðum sem gefnar voru út fljótlega eftir samninga um kaup og kjör og eftir gengisfellingu. Það er rétt að þessi útgjöld urðu nokkru meiri en áætlað var í upphafi. Mér reiknast til að útgjöld vegna þessara mildandi aðgerða séu u.þ.b. 300 millj. kr. Af því eru um 100 millj. kr. vegna meiri hækkunar til ellilífeyrisþega en almenn hækkun bóta varð og 125 millj. kr. vegna lækkunar á því sem stundum hefur verið nefnt sjúklingaskattur. 50 millj. eru vegna þess að ekki var hækkuð upp til verðlags greiðsla fyrir læknisþjónustu og lyf. Mér sýnist að með þessu móti sé búið í raun og veru að draga til baka allan þennan svokallaða sjúklingaskatt. Og ég vil segja fyrir mitt leyti að ég fagna því að menn hafa séð sér fært að bæta þar úr, sérstaklega fyrir ellilífeyrisþega sem njóta fyrst og fremst þess sem hér er um að ræða. Þetta eru samtals u.þ.b. 300 millj. kr.

Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að það er ekkert ánægjuefni að afgreiða fjárlög með svo miklum halla. Mín skoðun er sú að það sé nokkuð ákveðið haldið á málum að draga úr ýmsum kostnaði. Hins vegar er það staðreynd að þessir mikilvægu þjónustuliðir eins og heilsugæslan og menntakerfið eru ákaflega fjárfrekir liðir og ég hef ekki orðið var við annað en að allir hv. þm. vilji kappkosta að halda þeirri þjónustu o jafnvel auka hana verulega. Ég get tekið undir það. Ég tel það eitt hið mikilvægasta við afgreiðslu fjárlaga að halda slíkri þjónustu og framlögum sem eiga að jafna aðstöðu manna í landinu. Þetta eru langsamlega stærstu útgjaldaliðirnir. Staðreyndin er sú að verulega hefur verið dregið úr fjárveitingum til fjárfestingar, u.þ.b. um 7%, og er nú opinber fjárfesting orðin æðilítil eftir samdrátt ár eftir ár. Með þessu er ég ekki að segja að það séu ekki ýmsir liðir á fjárlögum sem mætti fella niður og spara. Ég er sammála því. En ég held að það hefði varla mátt betur frá þessu sleppa ef menn vildu þá ekki ganga enn lengra í að draga úr mikilvægri fjárfestingu t.d. í vegamálum, höfnum o.s.frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að unnt sé að draga úr þessum halla, ef ekki losna alveg við hann, án þess að leiði til aukins viðskiptahalla, en það kom fram í viðtali við einn hv. þm. að það væri leiðin. Ég andmæli því, því að viðskiptahalli og halli á fjárlögum eru sami bölvaldurinn í verðbólgu og skuldum hlöðnu þjóðfélagi. Ég held að það sé rétt sem margir hafa bent á, að verulega sé hægt að bæta innheimtu söluskatts og tekjuskatts og ég geri mér vonir um að það átak sem er verið að gera þar á vegum hæstv. fjmrh. muni skila sér. Ég held hins vegar að það þurfi að endurskoða þessi lög og t.d. hækka stórlega viðurlög o. fl. þess háttar, sem ég ætla ekki að fara hér út í en ég tel sjálfsagt að ríkisstj. skoði, og ég fagna því að mér hefur heyrst vera vilji hjá hv. stjórnarandstæðingum til að taka þátt í aukinni tekjuöflun.

Þegar ég taldi þær samþykktir sem ríkisstj. gerði í heilbrigðismálum, þá láðist mér að geta um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég tek undir það sem formaður fjvn. sagði, að það er orðin gífurleg upphæð og vekur satt að segja undrun hve mikið fjármagn rennur til þess ágæta máls. En með þessu er tekin sú ákvörðun að halda þeirri stefnu sem verið hefur, að vísu í 100% umframþörf og ég tel að það hafi verið nauðsynlegt og því óhjákvæmilegt að mæta þeirri viðbótarfjárveitingu sem þar var um að ræða.