20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

1. mál, fjárlög 1985

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrst að rifja upp að við 2. umr. fluttu þm. Alþfl. till. um 5 millj. kr. framlag til kjararannsókna, þ.e. nánar tiltekið úttektar á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Nú hefur fjvn. við 3. umr. tekið til greina till. Alþfl. að nokkru leyti og leggur til 800 þús. kr. framlag í þessu skyni. Ég fagna þessari till. og minni um leið á að þarna er kominn stuðningur í verki við þáltill. sem upphaflega var flutt á vegum Alþfl. og samþykkt á Alþingi árið 1980.

Í annan stað minni ég á að við 2. umr. lögðum við fram till. um sérstakt framlag að upphæð 3 millj. kr. til aðgerða gegn ávana- og fíkniefnum. Einnig það var í samræmi við þáltill. sem flutt var og samþykkt á seinasta Alþingi. Hv. fjvn. hefur einnig tekið tillit til þessarar till. að nokkru leyti með því að leggja til nú fyrir 3. umr. að samþykkt verði 1 millj. kr. framlag til þessara mála. Þeirri málsniðurstöðu fagna ég einnig og þarf ekki að eyða mörgum orðum í að rifja upp fyrir hv. alþm. hver nauðsyn er á því að fylgja eftir almennum orðum og fyrirheitum í verki í þeim málum.

Í þriðja lagi minni ég á að við 2. umr. fluttu þm. Alþfl. till. um 10 millj. kr. framlag til aðgerða gegn skattsvikum. Þessi till. var felld við 2. umr. í nafnakalli við þá till. sagði hæstv. fjmrh. að gert væri ráð fyrir peningum í þessu skyni, þ.e. til aðgerða gegn skattsvikum, undir rekstrarliðum hinna ýmsu rn. Að vísu kom það fram að þetta fær nú ekki að öllu leyti staðist. Í máli hæstv. dómsmrh. kom það fram að svo væri ekki. Ég minni á ummæli hæstv. dómsmrh. sem fram komu í svari við fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta efni þar sem hann sagði:

„Álag á dómstólum er nú svo mikið orðið að nauðsynlegt er að bæta þar við fulltrúa og var óskað eftir því við undirbúning fjárlagafrv. nú í vor. Ekki var fallist á þá starfsliðsaukningu við undirbúning fjárlagafrv. en það erindi verður væntanlega skoðað nánar af hv. fjvn. með hliðsjón af fyrrnefndri þáltill. og vænti ég þess að þá fái þessi beiðni jákvæða fyrirgreiðslu.“

Síðar í máli dómsmrh. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Til að mæta auknu álagi vegna aukinnar starfsemi skattyfirvalda að rannsókn skattsvika og auknum fjölda almennra mála var óskað eftir fimm nýjum stöðum rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Á þetta var ekki heldur fallist við undirbúning fjárlagafrv., en ef unnt á að vera að sinna auknum málafjölda á sviði skatta- og viðskiptabrota verður að skoða þessa beiðni nánar nú við afgreiðslu fjárlagafrv. og eins í sambandi við Sakadóm.“

Af þessu tilefni tel ég fram komin rök fyrir því að hæstv. fjmrh. hafi ekki haft rétt fyrir sér í þeim efnum að fyrir þessu hafi verið séð í rekstrarliðum einstakra rn. Því er það að á þskj. 364 eru fluttar brtt. frá okkur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur:

;,1. Sakadómur Reykjavíkur, almennur rekstur. Fyrir 13 millj. 44. þús. kemur 14 millj. 44. þús.

2. Liðurinn Rannsóknarlögregla ríkisins, almennur rekstur. Fyrir 37 millj. 130 þús. kemur 39 millj. 130 þús.“

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að vekja athygli á till. sem liggja hér fyrir til afgreiðslu. Þar er fyrst að nefna till. á þskj. 361, sem er við 4. gr., liðurinn 02–991, húsfriðun Viðeyjarstofu og Nesstofu. Í staðinn fyrir 750 þús. kr. komi 5 millj. 750 þús. Þessa till. þarf ég ekki að kynna nánar, hún er til þess að fylgja fram þáltill. sem flutt var af flestum þm. Reykjavíkur og Reykjaness um endurreisn Viðeyjarstofu. Sú till. var flutt með það í huga að í ágústmánuði 1986 á Reykjavíkurborg stórafmæli frá því að hún hlaut kaupstaðarréttindi. Þetta tengist þeirri hugmynd að ríkissjóður og Alþingi samþykki að minnast þessa merka atburðar í Íslandssögunni með því að afhenda Reykjavíkurborg eignarhluta sinn í Viðey og jafnframt endurreista Viðeyjarstofu. Ég legg áherslu á að sú fjárveiting, sem þessu máli er ætluð í fjárlögum og er bæði til Viðeyjarstofu og Nesstofu, er allsendis ófullnægjandi miðað við þær framkvæmdir sem hér um ræðir. Ef það er vilji Alþingis að halda á málum eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. vegna 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar og ef þeir hlutir eiga að geta orðið að veruleika í tæka tíð þá er þessi brtt. nauðsynleg.

Þá vil ég jafnframt, með leyfi forseta, vekja athygli á brtt. sem er seint fram komin, hún kom fram núna fyrir nokkrum klst., og við Karl Steinar Guðnason stöndum að sem flm. Þar er um að ræða brtt. við 4. gr., liðinn 01101 Forsætisráðuneyti, verkefni öryggismálanefnd. Till. er um það að í stað 1 millj. 332 þús. kr. komi 2 millj. kr. Fjárlagabeiðni öryggismálanefndar allítarlega rökstudd eftir verkefnum mun hafa verið upp á 2.4 millj. kr. en hér er farin málamiðlunarleið. Það má kannske minna á að hér urðu umr. utan dagskrár um öryggismál þar sem fram kom í máli gagnrýnenda núv. hæstv. ríkisstj. að mikið skorti á að hún hefði undir höndum nægilega haldbærar og sannanlegar upplýsingar um ýmsa mikilvæga þætti öryggismála. Það fer ekki saman annars vegar að gagnrýna stjórnvöld að því er þetta áhrærir og hins vegar neita að verja litlum fjármunum sem til þarf til að íslensk stjórnvöld hafi á hverjum tíma getu til að leggja sjálfstætt mat á flókin tæknileg viðfangsefni í utanríkismálum. Þess vegna er þessi till. flutt.

Ég vil, áður en lengra er haldið, vekja athygli á því að við þessa fjárlagaafgreiðslu höfum við þm. Alþfl. flutt tillögur sem eru fyrsti vísir að endurskipulagningu ríkisfjármála og þá ekki síst út frá tekjuöflun og tekjustofnum ríkisins. Við fluttum tillögur um hækkun á tekjuhlið annars vegar með aukinni tekjuöflun af söluskatti þrátt fyrir óbreytta söluskattsálagningarprósentu að upphæð 2.1 milljarður kr. Jafnframt fylgdum við eftir tillögum okkar um nýjan eignarskattsauka á verðbólgugróða undanfarinna ára sem gert er ráð fyrir að geti skilað 1 milljarði kr. og jafnframt minni háttar tillögum um hækkun skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, skatt á innlánsstofnanir og að hagnaður Seðlabanka verði tekinn í ríkissjóð, alls að upphæð 400 þús. Við höfum því gert því tillögur um aukna tekjustofna ríkisins upp á 3.1 milljarð kr. Þessu höfum við að langmestum hluta lagt til að yrði varið til að bjarga húsnæðislánakerfi þjóðarinnar en öllum sem til þekkja ber saman um að það sé nú gjald- og greiðsluþrota.

Sú stefna, sem hér er mótuð, er vægast sagt gerólík þeirri sem fram kemur í ríkisfjármálastefnu ríkisstj. og skal þó viðurkennt að mikið skortir á að nokkur stjórnarandstöðuflokkanna hafi gengið nægilega langt í þeim efnum, þ.e. hreinlega með því að skila og leggja hér fram annars konar fjárlög eða tillögur um heildstæða stefnu í ríkisfjármálum til mótvægis við það stefnuleysi sem nú ríkir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, herra forseti, við þessa 3. umr., aðeins minna á nokkrar staðreyndir um ríkisfjármálin nú þegar dregur að lokum fjárlagaafgreiðslu.

Í fyrsta lagi er það dapurleg staðreynd að á sama tíma og ríkisstj. horfir fram á skipbrot stjórnarstefnunnar í efnahags- og ríkisfjármálum almennt þá skuli vera staðið með hefðbundnum hætti að afgreiðslu fjárlaga. Verðbólgan stefnir óðfluga upp í hinar gömlu og þekktu hæðir. Viðskiptahallinn er vægast sagt geigvænlegur. Erlend skuldasöfnun heldur áfram að vaxa. Öll yfirlýst markmið um að stuðla að jafnvægi og stöðugleika í íslensku efnahagslífi eru fyrir bí og sýnilegt er af allri afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlun þeirri sem nú liggur fyrir að sömu mistökin eru gerð, sömu röngu stefnunni er fylgt að því er varðar stýringu fjármagns og verið hefur. Það er eins og menn hafi ekkert lært og engu gleymt.

Þar að auki er leitt til þess að vita að þau fyrirheit, sem gefin eru með þessum fjárlögum, eru mestan part einberar blekkingar. Það er fljótsagt að ef við lítum á ríkisfjármálin í heild, og þá ber bæði að líta á þessi fjárlög sem hér liggja fyrir og þá lánsfjáráætlun sem lögð hefur verið fram, þá er um að ræða endurtekningu hinnar dapurlegu sögu frá því í fyrra, þ.e. við erum hér að afgreiða ríkisfjárlagadæmi með hrikalegu gati.

Það er mesti misskilningur að hinn raunverulegi ríkisfjármálavandi sé fólginn í einhverjum 700 millj. kr. halla. Þegar litið er á hvort tveggja, fjárlög og lánsfjáráætlun, erum við að ræða um hallarekstur á ríkisrekstrinum sem varlega má áætla 3–3.5 milljarða kr. Það er ömurlegt til þess að vita að ríki og stofnanir þess hyggjast taka enn 8 milljarða að láni og endurgreiða aðeins 5, að annað árið í röð stefnir í nettóaukningu erlendra lána upp á 3 milljarða kr. Þar að auki er þess að geta að hallinn á fjárlögunum sjálfum er raunverulega vanmetinn stórlega eins og auðvelt er að sýna fram á.

Ef litið er á fjárfestingardæmið miðað við þessar risavöxnu tölur er rétt að rifja hér aðeins upp að þessi 81/2 milljarður, sem tekinn verður að láni, skiptist þannig að í A-hluta fjárlaga koma 1.8 milljarðar kr., B-hluta 1.3 milljarðar, hjá fyrirtækjum ríkisins 1.8 milljarðar, hjá húsbyggingarsjóðum ríkisins 1.5 milljarðar rúmir, hjá fjárfestingarlánasjóðakerfinu 1.4 milljarðar og síðan má bæta við 1/2 milljarðs kr. vanmati í þessu dæmi. Til samanburðar er hins vegar þess að geta að atvinnulífið á Íslandi fær í sinn hlut einungis um 1.8 milljarða kr. Þetta er ríkisfjármálastefna af nákvæmlega sama taginu og fylgt hefur verið með hrikalegum afleiðingum á undanförnum hálfum öðrum áratug. Það er engin breyting á orðin.

Varðandi vanmatið í ríkisfjármáladæminu er sérstaklega ástæða til þess að nefna eitt. Fram kom að innheimta og innlausn spariskírteina ríkissjóðs mun engan veginn standast og er þar um að ræða meiri háttar vanáætlun. Enn fremur er þess að geta að hinar hefðbundnu vitlausu áætlanir um lánsfjáröflun innanlands frá lífeyrissjóðum eru óskhyggjan einber. Staðreyndirnar tala allt öðru máli. Þarna er gert ráð fyrir því að taka að láni hjá lífeyrissjóðunum 1.2 milljarða kr. til húsnæðislánakerfisins á sama tíma og reynslan í ár sýnir að hámarkið er um 430 millj. kr. Allar áætlanir um nýtingu á inniendum sparnaði, sem á að vera 1/4 í öllu þessu heildarlánsfjárdæmi, eru mestan part draumórar einir.

Alvarlegasti þátturinn af þessu öllu saman blasir við í hinum erlendu skuldum. Við erum nú skuldug fyrir tæplega 45 milljörðum kr. á sama tíma og þjóðarframleiðsla okkar er áætluð rúmlega 67 milljarðar. Þar með eru erlendar skuldir þjóðarinnar orðnar tæplega 64% þjóðarframleiðslu. Þó ekki væri neitt annað tilnefnt en þetta eina dæmi þá jafngildir það staðfestum dómi um gjaldþrot þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt er.

Þetta þýðir að greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum mun halda áfram að vaxa. Hvað þýðir það fyrir vinnandi fólk á Íslandi? Hvað þýðir það fyrir sjómanninn, fiskvinnslufólkið sem aflar og vinnur þau verðmæti sem hér er um að ræða? Það þýðir það í reynd að af hverjum fjórum fiskum, sem sjómaðurinn dregur á land, eru þegar tveir eyrnamerktir upp í afborganir og vexti af þeim erlendu lánum sem hér um ræðir og til gjaldeyrisöflunar fyrir sjávarútveginn sjálfan. Af hverjum fjórum fiskum, sem dregnir væru á land, eru ekki nema tveir til ráðstöfunar til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar. Og það sem verra er: Þrátt fyrir allt talið um að snúa eigi við af þessari ógæfubraut er nú ljóst að á bak við það býr engin alvara. Þetta er allt saman skrum og blekkingar.

Þessu til viðbótar má síðan nefna að á bak við fyrirheitin, sem sérstaklega Sjálfstfl. komst til valda út á eftir seinustu kosningar, öll fyrirheitin um að stokka upp það spillta, rotna og árangurslausa stjórnkerfi fjárfestingar sem við höfum búið við á undanförnum árum, er engin alvara. Því er öllu haldið áfram. Stefnan er sú sama, stofnanirnar eru þær sömu, kerfið er það sama, lögmálið er það sama. M.ö.o., þetta er vonlaus pólitík. Þjóðin hefur þegar orðið fyrir hrikalegum vonbrigðum. Hún eygði einhverja von við valdatöku þessarar ríkisstj. Sú von hefur nú endanlega verið heygð.

Það er óþarfi að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil, herra forseti, að lokum leyfa mér að vitna í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag. Ritstjóri Morgunblaðsins verður væntanlega ekki sakaður um neinn óvilja til hæstv. ríkisstj., þvert á móti. Í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins hefur það komið fram að þær vonir, sem aðstandendur þessarar ríkisstj. bundu við hana í upphafi, hafa nú orðið sér til skammar. Menn, sem ætla að fjalla um þessi mál af einhverju raunsæi, hljóta einfaldlega að viðurkenna það. Í þessari ritstjórnargrein segir, með leyfi forseta:

„Skv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985, sem lögð var fram á Alþingi í fyrradag, fer heildarlánsfjáröflun til opinberra aðila langleiðina í tíu milljarða kr. Meginhluti þessa lánsfjár verður áfram sóttur til útlendinga, þ.e. í erlendan sparnað, eða 7.3 milljarðar. Þar af ganga til afborgana 4.7 milljarðar kr., þannig að hrein aukning erlendra langtímalána verður 2.6 milljarðar kr., sem samsvarar 6% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þrátt fyrir ráðgerðan framkvæmdasamdrátt 1985, sem á heildina litið nemur 3% frá 1984, eykst erlendi skuldaþunginn. Löng erlend lán Íslendinga nema nálægt 43 milljörðum kr. nú um áramótin, sem er rúmlega 60% sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Þessar skuldir aukast á næsta ári. Þessi skuldastaða er ógnvekjandi.“

Það er ástæða að tilfæra eina aðra tilvitnun í þessa ritstjórnargrein. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú þarf erlend lánsfjáröflun ekki að vera af hinu illa ef henni er varið til framkvæmda sem rísa undir fjármagnskostnaði og skila að auki arði til að bæta lífskjör í landinu. Hverfi hún hins vegar í fjárfestingarmistök, sem dæmi eru um, skerðir hún enn lífskjörin.

Mergurinn málsins er þó sá að byggja upp innlendan sparnað og eiginfjármyndun þjóðarinnar þann veg að hún verði ekki jafn háð dýru, erlendu fjármagni og nú er. Það er ekki einungis þáttur í nauðsynlegri lífskjarasókn þjóðarinnar heldur ekki síður í varðveislu efnahagslegs sjálfstæðis hennar.“

Í þessari ritstjórnargrein, herra forseti, er talað um að sú fjármálastefna, sem hér er fylgt í fjárlögum og lánsfjárlögum, byggist í raun og veru á fjármagnstilfærslu frá íslenskum atvinnuvegum og íslenskum almenningi til erlendra fjármagnseigenda. Það er kannske kjarni málsins. Öll stóru orðin um að snúa hefði átt við af þeirri ógæfubraut sem stefnir hraðfari að hruni íslensks efnahagslífs og endalokum efnahagslegs sjálfstæðis þessarar þjóðar heldur áfram. Þetta gerist þrátt fyrir það að ráðherrar sjálfstfl., sem í stjórnarandstöðu vakti vonir þjóðarinnar um að þarna yrði á breyting, alger breyting þegar hann tæki aftur við völdum, fara með, eins og þeir guma af sjálfir, 86% af öllum ríkisútgjöldum þjóðarinnar.

Ég geri ekki ráð fyrir því að vinnandi fólk á Íslandi, þeir sem skapa þau verðmæti sem verið er að skipta í þessum fjárlögum, fylgist mikið með afgreiðslu mála hér á þessum degi á Alþingi. Kannske er svo komið að þeir séu fyrir löngu búnir að gefa upp á bátinn allar vonir um að hér verði nokkur breyting á. Kannske er dæmisagan skýrust af lítilli sögu sem fólk hins vegar greip af allri þessari umr. Einn hv. þm. leggur fram fsp. til ráðh. um kostnað bankastjóra, erlendra gesta, þeirra lánardrottna og vildarvina við laxveiðar. Það kemur á daginn, að fengnum svörum, að þessir gæslumenn þjóðarauðsins, þessir menn sem ganga fram fyrir aðra og berja sér á brjóst og saka þjóðina um að hafa eytt um efni fram og prédika dag hvern frá morgni til kvölds nauðsyn aðhalds og sparnaðar, verja nokkrum hundruðum millj. kr. í gæluverkefni af slíku tagi. Það er þó ekki það versta, engan veginn. Það versta við þær upplýsingar var að upplýsingarnar voru lognar. Tóm lygi og ómerkilegheit. Þegar upplýsingarnar voru veittar, svörin voru gefin, þá var stungið undir stól öllum upplýsingum um þann kostnað sem leiðir af laxveiðum útlendinga, m.a. laxveiðiástríðu bankakerfisins í öllum útibúum vítt og breitt um landið. Síðan var látið nægja að segja hálfsannleikann, þ.e. hver þessi kostnaður væri pr. veiðistöng miðað við aðalbankana hér í Reykjavík en, eins og ég segi, sleppt útibúunum og sleppt öllum öðrum kostnaði sem þessu fylgdi, sleppt frásögnum af því hver var ferðakostnaður umræddra gesta, hver var áfengisrisna umræddra gesta og annar kostnaður sem þessu fylgir. Menn, sem kunnugir eru þessum tölum úr bankakerfinu, telja að svarið hafi raunverulega verið u.þ.b. þriðjungur af sannleikanum.

Tölurnar í þessu máli skipta engu meginmáli. Það er engan veginn aðalatriðið og auðvitað er það smámunasemi að ætlast til þess að slíka hluti megi ekki einhvern tíma gera. En það er tvennt sem skiptir máli í þessu. Annars vegar ef það er staðreynd að svörin sjálf voru ekkert annað en hálfsannleikur og hitt, að það er hið táknræna dæmi þess að hér er allt við hið sama. Kerfið hefur sinn sama gang. Það heldur áfram að mala burtséð frá öllum messunum um nauðsyn aðhalds og sparnaðar, burtséð frá öllu pólitíska kjaftæðinu um nauðsyn stefnubreytingar. Og ég verð að segja fyrir mína parta að það er ósköp auðvelt að skilja það að almenningur í landinu, sem vinnur langan vinnudag við léleg lífskjör, sé orðinn hundleiður og vonsvikinn, jafnvel niðurbeygður yfir þessu ástandi á Alþingi Íslendinga.