20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

1. mál, fjárlög 1985

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar fjárlagaumr. Hér hafa fulltrúar stjórnarflokkanna og stjórnarandstæðingar leitt saman hesta sína. Ég hef hlustað á þessar umr. og mér dettur ekki í hug að halda því fram að sannleikurinn sé allur öðrum megin. Mér dettur ekki í hug að halda að þm. séu heldur þeirrar skoðunar.

Margt af því sem flutt er þessu frv. til málsbóta á fullan rétt á sér, er góður og gildur rökstuðningur. Með sama hætti er gagnrýni stjórnarandstæðinga einnig réttmæt að mörgu leyti, enda verður það víst seint svo að deilur um viðkvæm og flókin stjórnmálaleg eða fjármálaleg viðfangsefni gefi einhlíta niðurstöðu. Mér er ljóst að það er ekki auðvelt viðureignar að setja saman fjárlög sem allir geta verið sáttir við. Samdráttur í þjóðarframleiðslu setur strik í reikninginn. Sparnaður og aðhald er óhjákvæmileg ráðstöfun. Skattlagning er ekki fýsilegur valkostur. Þegar fjárlög eru sett saman þarf að líta til margra átta. Það þarf að sinna félagslegri þjónustu, halda uppi eðlilegum rekstri og framkvæmdum og það verður að láta hjólin snúast í atvinnulífinu og uppfylla yfirleitt þær skyldur sem lagðar eru á ríkisvaldið. Það verður að forða atvinnuleysi og kreppuástandi, endar þurfa að ná saman og skuldasöfnun verður að stilla í hóf.

Jafnvel þótt menn vildu söðla um í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, skera á fjárveitingar til óarðbærrar atvinnustarfsemi, klippa á margvíslegan rekstur á vegum hins opinbera og þurrka út skuldir og viðskiptahalla, þá er allt þetta erfitt að framkvæma í einu vetfangi, nánast útilokað. Menn geta hvorki stórhækkað framlög til heilbrigðisþjónustu í einu risastökki né heldur skorið hana niður við trog rétt si svona. Við erum ekki að leika okkur með tölur, við erum að fjalla um líf og afkomu þjóðarinnar og fjöldans. Hver og ein fjárveiting snertir þúsundir fólks sem treystir því og verður að treysta því að fjárlög séu sett saman af ábyrgð, raunsæi og skilningi á stöðu og högum þeirra sem í hlut eiga.

Þetta þarf svo sem ekki að rekja, enda sitja bæði í stjórn og stjórnarandstöðu reyndir þm. sem hafa fengist við fjárlagagerð beggja megin borðsins. Þeir sem nú sitja í stól gagnrýnandans hafa sjálfir fengið yfir sig skammirnar sem þeir nú láta yfir ríkisstj. ganga og svo aftur öfugt. Hæstv. fjmrh. ber hita og þunga dagsins, hann er skammaður og dreginn til saka. En auðvitað hefur hann ekki einn höfundarréttinn að þessu frv. Fjárlög eru sett saman af ríkisstj. sem heild og borin fram af henni. Í þeim felst fjármálaleg og efnahagsleg stefna ríkisins á hverjum tíma og þar koma að sjálfsögðu einnig til sögunnar viðhorf þingflokka og einstakra þm. Ábyrgðin á fjárlagafrv. er ekki eins manns þótt hann vilji í umr. verða nokkurs konar persónugervingur allra þeirra sem lagt hafa í púkkið.

Það er ýmislegt gott um þetta frv. að segja. Engum blandast hugur um að staðan er þröng. Fjmrh. og fjvn. hafa þurft að klípa af fjárveitingum og ekki fer á milli mála að ýtrasta sparnaðar er gætt á fjölmörgum sviðum. Varla telst það saknæmt, það er miklu fremur lofsvert ef og þegar markvisst er unnið að því að draga úr óhóflegum rekstrarkostnaði og framkvæmdum í ljósi þeirrar nauðsynjar að ríkið þurfi að draga saman seglin.

Eitt helsta gagnrýnisatriðið og orsakavaldurinn að vanda þjóðarbúsins nú á þessu hausti var einmitt talinn vera fólginn í því að ríkissjóði og ríkisstj. hefði ekki tekist sem skyldi að herða sína eigin sultaról meðan fólkinu var gert að skerða sín eigin kjör. Ríkisvaldið hefur verið sakað um að halda uppi óeðlilegri þenslu, ríkisvaldið gengi jafnvel á undan í að eyða meiru en aflað var og eigi að því leyti sinn stóra þátt í þeim efnahagsþrengingum sem nú blasa við. Spurningin er einmitt sú þegar þetta fjárlagafrv. er afgreitt hvort ríkissjóður spenni ekki enn einu sinni bogann of hátt, hvort sparnaðurinn sé nægur.

Þá verður einnig að telja þessu frv. til tekna að með því er tekið fyrsta skrefið í átt til niðurfellingar tekjuskattsins. Ég hef hér fyrr í vetur lýst þeirri skoðun minni að tekjuskatturinn sé ranglátur launamannaskattur sem eigi hvað stærstan þáttinn í þeim ójöfnuði sem ríkir milli stétta og einstaklinga í þjóðfélaginu. Í stað þess að einblína á hækkanir launa frá einum kjarasamningum til annarra hlýtur það að vera helsta baráttumál launþegahreyfingarinnar í landinu að fá tekjuskatt felldan niður af almennum launatekjum. Það yrði stærsta kjarabótin. Og ekki bara launþegahreyfingin heldur og öll þau stjórnmálaöfl sem vilja berjast fyrir jöfnuði og réttlátu þjóðfélagi.

Mér finnst að allir góðir menn, hvar í flokki sem þeir standa, eigi að sameinast um að uppræta misréttið, svikin og kjaraskerðinguna sem felst í tekjuskattinum. Álagning tekjuskatts hefur alla tíð haft það að höfuðmarkmiði að jafna kjörin í landinu, stuðla að tekjujöfnuði. Allir hljóta hins vegar að sjá að tekjuskattslögin nú eru skálkaskjól ójafnaðarins, þau hafa breyst í andstæðu sína. Það er sama hversu marga skattrannsóknarlögreglumenn og skattheimtumenn við ráðum til starfa, það er sama hversu oft við fyllum upp í þær undanbragðaleiðir sem í lögunum finnast, alltaf skal niðurstaðan verða sú að skatturinn kemur misjafnlega niður vegna þess að skattþegar hafa og munu alltaf hafa misjafna aðstöðu til að telja fram eða færa tekjur og hlunnindi undan skatti. Við getum ekki lengur varið það gagnvart samvisku okkar né heldur skattgreiðendum að í skjóli löggjafar, jafnvel í nafni löggjafar, sé einum gert að greiða umtalsverðan hluta af aflafé sínu í skatt meðan öðrum er kleift að skjóta sér undan skatti þótt hann búi við sömu og jafnvel betri launakjör og afkomu.

Agnúar og gallar skattalöggjafarinnar felast ekki endilega í því að skattprósentan sé of há. Gagnrýni beinist að því að menn sitji ekki við sama borð. Skattbyrði þessa þjóðfélags bitnar á launafólki fyrst og síðast. Þess vegna er það stærsta hagsmunamál verkalýðshreyfingarinnar og stærsta stjórnmálaverkefni Alþingis að eyða því hrópandi misrétti sem viðgengst í skjóli úreltra skattalaga.

Með þessu fjárlagafrv., sem við erum nú að fjalla um, er sýndur litur í þessum efnum þótt að mínu mati hefði átt að ganga miklum mun lengra. En viðleitnin og viljinn eru fyrir hendi og það ber að meta.

En ef hægt er að telja upp það jákvæða við þetta frv. þá er því miður einnig hægt að rekja hinar neikvæðu hliðar. Fram hjá þeim verður ekki gengið. Frv. gerir ráð fyrir halla. Enn virðist vera óleystur vandi upp á rúmlega 700 millj. kr. Það þykir ekki góð latína að afgreiða fjárlög með halla á sama tíma og verið er að takast á við vaxandi verðbólgu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkissjóður hefur það sér til afsökunar að endurgreiða þarf söluskatt til sjávarútvegsins upp á 600 millj. kr. En það stendur þó eftir engu að síður sem staðreynd að fjárlög eru nú afgreidd með halla upp á 700 millj. kr. Halli á fjárlögum þýðir það eitt að ríkissjóður ætlar að eyða meiru en hann á fyrir, hann ætlar að halda uppi þenslu, rekstri og eyðslu sem ekki er til fé fyrir í sjóðum ríkisins. Þetta eru að mínu mati mikil mistök sem ekki kunna góðri lukku að stýra.

Í öðru lagi er ljóst að viðskiptahalli er geigvænlegur á þessu ári, eða 3.9 milljarðar kr., og fyrirsjáanlegt er að hann verður einnig verulegur á næsta ári. Viðskiptahalli þýðir á mæltu máli að þjóðin kaupir meira erlendis frá, eyðir meiru en hún aflar. Þetta heitir óráðsía og ábyrgðarleysi í efnahagsstjórn sem ástæða er til að fordæma. Fjárlög ráða vitaskuld ekki miklu um viðskiptajöfnuð við útlönd, en það er óhjákvæmilegt að minnast á viðskiptahallann í tengslum við fjárlagafrv. vegna þess að hann er einn mikilvægur angi af efnahagsstöðu þjóðarbúsins og mikilvægur þáttur í almennri stjórn efnahagsmála. Ríkisstjórnin ber ábyrgð í þessum efnum. Það er hennar hlutverk, hennar skylda að gera þær ráðstafanir að viðskiptahallinn hverfi með rangri gengisskráningu. Með þenslu á vinnumarkaði og gegnsæjum kaupmætti, jafnvel fölskum kaupmætti, sólundar þjóðin fjármunum sínum til innkaupa og erlendra viðskipta sem eykur skuldir og viðheldur sjúku ástandi í efnahagsmálum, því ástandi sem við höfum verið að kljást við nú á annan áratug.

Síðast en ekki síst, herra forseti, vaða erlendar skuldir enn á súðum og þar er enn hoggið í þann knérunninn sem síst skyldi. Erlend skuldasöfnun er nú reiknuð í 63.4% af þjóðarframleiðslu og fullyrt er að hún geti farið í nær 70% á komandi ári miðað við allar forsendur og tölur sem liggja fyrir. Þetta er gersamlega óverjandi. Erlend skuldasöfnun í þeim mæli, sem að undanförnu hefur viðgengist, ber vott um siðleysi gagnvart framtíðinni. Það er auðvelt að slá lán og eyða í óhófi ef ekki er hirt um efndirnar og skuldauppgjörið og það er auðvelt að slá um sig ef ekki er hirt um afleiðingarnar.

Það er alkunn staðreynd að hagfræðingar og efnahagssérfræðingar hafa ætíð varað alvarlega við vaxandi skuldasöfnun. Þeir benda á að skuldir séu til þess eins að magna vandann og sýkja efnahaginn. Ljóst er að þegar skuldasöfnun nemur rúmlega 63% af þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði þeirra nemur tæplega fjórðungi af heildarútflutningstekjum landsmanna er þjóðin komin í hóp skuldugustu þjóða heims. Þá fer að verða spurning um hvort Ísland telst efnahagslega sjálfstæð þjóð.

Allir stjórnmálaflokkar hafa varað við óhóflegri erlendri skuldasöfnun og gert að stefnumálum sínum að stemma stigu við henni. Allir hafa þeir talið það höfuðviðfangsefni sitt. Núv. hæstv. ríkisstj. gaf sams konar loforð og hæstv. fjmrh. lagði meira að segja svo mikla áherslu á þetta grundvallaratriði að hann gerði það að fráfararatriði á sínum tíma ef erlendar skuldir færu fram úr 60%. Nú segja útreikningar að skuldahlutfallið sé komið langt upp fyrir þetta mark.

Í þessu sambandi verð ég að vísa á bug þeim röksemdum að hækkandi skuldir séu verjanlegar vegna lækkandi þjóðarframleiðslu. Menn vita vonandi hvað átt er við með hlutfallsútreikningi, þá er verið að tala um hlutfall af þjóðarframleiðslu, hlutfallið milli tekna og skulda. Þetta þýðir einfaldlega að ef tekjur lækka verða menn að lækka lántökur sem því nemur.

Nú er ég ekki að mana hæstv. fjmrh. til brottfarar úr ríkisstj., síður en svo. En ég rifja þetta aðeins upp til að undirstrika og minna á hvað stjórnmálamenn, eins og t.d. hæstv. fjmrh., hafa lagt mikið upp úr því að skuldasöfnun færi ekki úr böndum. Þetta kemur og fram í því að formenn stjórnarflokkanna töldu ástæðu til að nefna 61% markmið sem algert hámark í erlendri skuldasöfnun á þessu ári þegar þeir settu saman sinn stjórnarsáttmála á s.l. hausti. Og af hverju nefna þeir 61%? Þeir hefðu sennilega alveg eins getað nefnt 60% eða 62%, það skiptir ekki meginmáli. En þeir eru sem sagt að binda þessa tölu og setja ákveðið þak af því að þeir gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að ganga lengra nema þá að ganga fram af nöfinni og nú hefur það verið gert. Við erum komnir fram af.

Ég vil og minna á að erlend skuldasöfnun er ekki aðeins háskaleg sem slík þegar Íslendingar eru farnir að borga fjórðu hverju krónu í vexti og afborganir af erlendum skuldum. Önnur afleiðing þessarar skuldasöfnunar er sú að í raun og veru er verið að beina verðbólgunni í aðra farvegi, veita henni útrás í gegnum annan ventil en þann sem mælist í vísitölu framfærslu. Sú verðbólga er engu betri og hún er e.t.v. hættulegri fyrir þá sök að skuldasöfnun hnekkir um stund, vekur falskar vonir og villir sýn almenningi og stjórnvöldum þegar fjallað er um verðbólgu og lífskjör. Erlend skuldasöfnun bindur hendur komandi kynslóðar, rekur þjóðina í þann vítahring sem við öll þekkjum úr okkar eigin daglega lífi þegar við erum sífellt að elta skottið á okkur og týnum og glötum hverri krónu í greiðslu á skuldum og vöxtum.

Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunin beri allt of mikinn keim af vaxandi erlendri skuldasöfnun og að sú skuldasöfnun sé alvarleg atlaga að efnahag og fjárræði þjóðarinnar. Hún er því miður megineinkenni þessarar fjárlagagerðar, megingallinn og höfuðmeinsemdin. Ég stóð í þeirri góðu trú að núv. ríkisstj. hafi verið mynduð til að ráðast ekki síst að erlendri skuldasöfnun. Ég hélt að hún vildi koma skikki á efnahaginn. Það er ekki nóg að stinga á einu kýli meðan gröfturinn vellur og grefur um sig. Það er ekki nóg að mæla vísitölu framfærslu niður meðan á rangri gengisskráningu, viðskiptahalla, þenslu í ríkisbúskap og erlendri skuldasöfnun er haldið á fullum dampi óheft og nánast skefjalaust.

Ég tel ástæðulaust, herra forseti, að fjalla um einstaka liði þessa fjárlagafrv. þó að ærin ástæða væri til. Ég vil ekki tefja tímann hér um of. Meginmálið, grundvallaratriðið, sem ég vildi leggja áherslu á með þessari ræðu minni, er að vara við hinni miklu og uggvænlegu erlendu skuldasöfnun. Ég óttast afleiðingarnar af henni og ég vara við andvaraleysinu. Ég treysti mér þar af leiðandi ekki til að gjalda jáyrði við fjárlagafrv. sem er með þessu marki brennt.