20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

1. mál, fjárlög 1985

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi gera grein fyrir nokkrum brtt. við fjárlagafrv. sem ég stend að ásamt öðrum þm. Alþb.

Á þskj. 409 flytjum við hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Steingrímur J. Sigfússon og ég till. um K-byggingu Landspítalans. Þar er gert ráð fyrir því að varið verði til K-byggingarinnar á árinu 1985 29.1 millj. kr. Eftir að þessi till. var lögð fram hefur komið fram till. frá ríkisstj. um að varið verði til K-byggingarinnar á árinu 1985 20 millj. kr. og ég tel ástæðu til að fagna þessari till. og mun í ljósi hennar draga okkar till. til baka.

Ég vil einnig láta það koma fram að ég tel ástæðu til að láta í ljós ánægju yfir því að það hefur verið tekið inn við meðferð fjárlaga milli 2. og 3. umr. framlag vegna öryggismála sjómanna.

Ég vil þá einnig í þessu sambandi leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann geri grein fyrir því hér á eftir hvernig ríkisstj. hyggst koma til móts við þann áhuga sem er í þjóðfélagi okkar vegna fjársöfnunar til hjálparstarfs í Eþíópíu.

Á þskj. 413 flytjum við, ég og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, brtt. varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Till. gerir ráð fyrir að framlag til Byggingarsjóðs verkamanna verði 400 millj. kr. á árinu 1985 í stað 282 millj., eins og gert er ráð fyrir í till. þeim sem liggja fyrir.

Ástæðan til þess að við flytjum þessa till. er margþætt og ég ætla ekki að rekja það í smáatriðum. Ég ætla aðeins að benda á að á árinu 1984 var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir legðu byggingarsjóðunum til um 860 millj. kr., en í lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir 1000 millj. kr. til byggingarsjóðanna. Á árinu 1985 er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir leggi byggingarsjóðunum til 1.4 milljarða og talan hækki á milli ára um u.þ.b. 60%. Þessi hugmynd um hækkun á framlagi lífeyrissjóðanna upp á 60% er alger fjarstæða. Hún stenst engan veginn. Í því skyni að tryggja betur en gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun og fjárlögum fjárhag Byggingarsjóðs verkamanna sérstaklega, þá er þessi till. okkar hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar flutt á þskj. 413.

Á þskj. 408 flyt ég brtt. varðandi Blindrabókasafn þar sem gert er ráð fyrir því að verði nokkur hækkun, upp á nokkur hundruð þús. kr., til rekstrar Blindrabókasafnsins. Ég er sannfærður um að sú tala sem er á fjárlögum núna vegna Blindrabókasafnsins stenst ekki, og ef ríkisstj. heldur fast við þá tölu mun koma að því mjög fljótlega á árinu 1985 að beðið verður um sérstaka aukafjárveitingu til Blindrabókasafnsins. Ég spái því að menn telji sig verða að samþykkja slíka beiðni vegna þess að ella verður einfaldlega að leggja hluta af starfsemi Blindrabókasafnsins niður. Ég skora því á hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. að taka þessari till. vel. Hún hefur ekki mikil útgjöld í för með sér.

Ég vil í þessu sambandi einnig láta það koma fram að ég tel að það sé fagnaðarefni að inn í brtt. fjvn. er komin upphæð til sjónstöðvarinnar og byrjunarstarfsemi hennar á miðju ári 1985.

Herra forseti. Þessi fjárlög, sem nú er verið að afgreiða, bera einkenni núv. ríkisstj. Fyrir einu ári vorum við að afgreiða fjárlög sem voru talin bestu fjárlög sem ríkið hefði eignast, þau væru örugg, byggð á traustum áætlunum og það voru skrifaðar um það margar forustugreinar í málgögn stjórnarflokkanna að hérna væri mikið framfaraspor stigið. Hv. þm. Lárus Jónsson, sem var þá formaður fjvn., skrifaði greinar í blöð og hélt um það ræður að hérna væri um að ræða kaflaskipti í sögu fjármála íslenska ríkisins. Það sem hann sagði var að einu leyti rétt. Það voru kaflaskipti. Þau kaflaskipti blasa nú við við afgreiðslu þessara fjárlaga. Þegar efnahagsdæmi ríkisstj. er skoðað í heild sést glöggt hvernig myndin lítur út.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í annað sinn um langt árabil að afgreiða fjárlög með verulegum halla og ríkisreksturinn verður fjármagnaður með erlendum lántökum. Rekstur ríkisins og ríkisstofnana er fjármagnaður með útlendum peningum, dollurum, mörkum og pundum, sem börnum okkar og barnabörnum er ætlað að borga með ávísunum á framtíðina.

Í öðru lagi er ljóst að það stefnir í viðskiptahalla á næsta

ári upp á 4–5 milljarða kr. eða svipaðan viðskiptahalla í hlutfalli við þjóðartekjur og á þessu ári. Viðskiptahalli þýðir á mæltu máli auknar erlendar lántökur eða minni gjaldeyriseign þjóðarbúsins.

Í þriðja lagi stefnir af almennum ástæðum, m.a. einnig þeim sem ég hef hér rakið, í auknar erlendar lántökur. Margir héldu, eins og hv. 6. þm. Reykv., að ríkisstj. ætlaði að beita sér fyrir því að minnka erlendar lántökur. Þær fara vaxandi. 60%, sem voru heilög tala í munni hæstv. fjmrh. fyrir einu ári, eru fokin út í veður og vind, en hann situr sem fastast.

Í fjórða lagi liggur fyrir að eitt af meginmarkmiðum ríkisstj., sem var að draga úr verðbólgu, er einnig að fjúka út í veður og vind. Verðbólga margfaldast núna á örfáum mánuðum. Aukning verðbólguhraðans hefur aldrei um áratuga skeið orðið önnur eins og í tíð núv. ríkisstj. þessa dagana.

Í fimmta lagi er kaupmáttur almennra launa verkafólks lægri en hann hefur verið um áratuga skeið.

Í sjötta lagi ákveður ríkisstj. að skera niður félagslega þjónustu og framlengja sjúklingaskatt.

Í sjöunda lagi liggja engar ákvarðanir, engar hugmyndir, engar tillögur fyrir um aukna verðmætasköpun í þessu þjóðfélagi til eflingar atvinnulífi á komandi árum. Fjárlögin eru þess vegna ávísun á vandamál framtíðarinnar, barna okkar og barnabarna. Þau eru ávísun á fátækt fjöldans en lúxus fámenns hóps. Af þeim ástæðum er það, herra forseti, sem ég vil að lokum taka undir þau orð sem hv. 5. þm. Reykn. viðhafði hér í dag, en hann sagði:

„Við teljum fullkomið ábyrgðarleysi að feta þá braut sem hér er og teljum að eins og málum er nú komið ætti að fresta afgreiðslu fjárlaga og erum fyrir okkar leyti reiðubúin til þess að leggja í það vinnu með meiri hl. n. að endurskoða þær ákvarðanir sem að er stefnt að samþykkja og erum þeirrar skoðunar að leita eigi leiða til þess, m.a. með nýrri tekjuöflun, að afgreiða fjárlög án halla.“

Ég hygg að sjaldan hafi talsmenn stjórnarandstöðuflokka boðist með jafnafgerandi hætti til að leggja liðsinni sitt til að leysa þau erfiðu vandamál sem þjóðin nú stendur frammi fyrir að verulegu leyti vegna þeirrar stjórnarstefnu sem nú hefur verið fylgt í eitt og hálft ár.