29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

154. mál, kostnaður ríkissjóðs vegna húsaleigu

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina eftirtöldum fsp. til hæstv. fjmrh. um kostnað ríkissjóðs og ríkisstofnana vegna húsaleigu:

„1. Hversu margir húsaleigusamningar eru í gildi milli ríkissjóðs og ríkisstofnana annars vegar og einkaaðila hins vegar?

2. Hversu margar ríkisstofnanir, ráðuneyti meðtalin, eru til húsa í leiguhúsnæði?

3. Hversu háa upphæð greiðir ríkissjóður á ári hverju í húsaleigu (miðað við 12 mánaða tímabil 1983–1984)?

4. Hvert er meðalverð í gildandi húsaleigusamningum á fermetra?

5. Eru mikil brögð að því að ríkissjóður greiði húsaleigu fyrir fram til margra ára og kosti þar með byggingu leiguhúsnæðis að hluta?“

Þessar fsp. þarfnast ekki annarra skýringa. Ég vil aðeins taka það fram að þær eru fram settar í framhaldi af þáltill., 156. máli, sem við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fluttum fyrir áramót, um yfirtöku ríkissjóðs á seðlabankabyggingu undir Stjórnarráð Íslands, en þar er vísað til þess að það styðjist við hagkvæmnisrök að yfirtaka þá byggingu og velja þar framtíðarsamastað fyrir stjórnarráðið, en vísa Seðlabankanum í önnur húsakynni.