29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

154. mál, kostnaður ríkissjóðs vegna húsaleigu

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mun nú svara þeim fsp. sem finnast á þskj. 159 frá hv. 5. þm. Reykv.

Skv. gögnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar eru 183 skriflegir samningar í gildi milli einkaaðila og ríkissjóðs. Sá fjöldi húsaleigusamninga, sem ríkissjóður greiðir leigu skv., er þó hærri. Í þessari andrá er rétt að geta þess að húsaleigumál margra stofnana ríkisins eru málaflokkur sem oft vill lenda út undan hjá fagráðh. eða rn. Í haust var leitað eftir samstarfi við öll ráðuneytin um að fastar yrði tekið á þessum málum en gert hefur verið og er þess vænst að það samstarf skili árangri.

Í öðru lagi er spurt: Hversu margar ríkisstofnanir, ráðuneyti meðtalin, eru enn til húsa í leiguhúsnæði? Því svara ég þannig: Ríkisstofnanir í leiguhúsnæði eru 202.

3. spurningin: Hversu háa upphæð greiðir ríkissjóður á ári hverju í húsaleigu (miðað við 12 mánaða tímabil 1983–1984)? Svar við þeirri spurningu er: Á tímabilinu 1.t.83 til 31.12.83 greiddi ríkissjóður í húsaleigu samtals 111 millj. 213 þús. 538 kr.

4. Hvert er meðalverð í gildandi húsaleigusamningum á fermetra? Svarið er: Miðað við 15. des. s.l. er meðaleiningarverð það sem ríkissjóður greiðir, þ.e. kr. pr. fermetra, 79,32 kr.

5. spurningin hljóðar svo: Eru mikil brögð að því að ríkissjóður greiði húsaleigu fyrir fram til margra ára og kosti þar með byggingu leiguhúsnæðis að hluta? Svarið er: Það eru engin brögð að því að ríkissjóður greiði húsaleigu fyrir fram til margra ára og kosti með því byggingu leiguhúsnæðis.