29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

197. mál, aðstöðugjald

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að svara fsp. á þskj. 221.

Skv. upplýsingum sem ég aflaði frá ríkisskattstjóra kemur fram að þessar upplýsingar. sem tiltækar eru í tölvuvæddu formi, eru flokkaðar eftir atvinnugreinamerkingu Hagstofu Íslands og sýna merkingu sem ákveðin er skv. þeim þætti atvinnurekstrar sem umfangsmestur er í krónutölu talinn þegar um blandaðan atvinnurekstur er að ræða. Ríkisskattstjóri segir að um nákvæma hreina skiptingu milli heildverslunar og smásöluverslunar sé ekki að ræða skv. framangreindum gögnum og gæti ekki legið fyrir, nema með gífurlegri vinnu hjá skattstjórum landsins upp úr framtölum og fylgigögnum þeirra, svo að nákvæmt sé upp á krónu.

Hvað fjölda í hverri atvinnugrein snertir eru allir taldir með þó svo umfang atvinnurekstrar sé lítið. T.d. eru allir merktir sem hafa með að gera einhverja heildsölu, jafnvel þótt viðkomandi aðili sé að öðru leyti í fullri vinnu sem launþegi hjá öðrum.

Þá er að geta þess að upplýsingar um flutninga á sjó ná til allra sem slíkt stunda innanlands. T.d. eru meðtaldir þeir sem stunda siglingar með ferðamenn í svokölluðum túristaferðum. Framangreind atriði ættu varla að hafa veruleg áhrif á heildarniðurstöðu aðstöðugjaldsstofna í hverri atvinnugrein skv. framangreindri atvinnumerkingu, en geta haft veruleg áhrif á fjölda í hverri atvinnugrein.

Jafnframt tekur ríkisskattstjóri fram að upplýsingar eru byggðar á álagningu 1984 vegna ársins 1983, en ekki tekið tillit til breytinga vegna kæra.

Skv. þessum formála, sem hér hefur verið lesin upp, hef ég fengið í hendur aðstöðugjaldsálagningu ársins 1984 eftir atvinnugreinum.

Í smásöluversluninni er um að ræða aðstöðugjaldsstofn upp á 15 milljarða 723 millj. kr. og heildaraðstöðugjald frá þessari atvinnugrein er 182 millj. 456 þús. 247 kr. g gæti, ef tíminn leyfir, hlaupið yfir stærstu þættina í smásöluversluninni. Þar er kjöt og nýlenduvöruverslun með 4.9 milljarða aðstöðugjaldsstofn og aðstöðugjald 52.1 millj. Tóbak, sælgætis- og gosdrykkjavarningur er með 1.2 milljarða í aðstöðugjaldsstofn, en aðstöðugjald er 14.4 millj. Vefnaðar- og fatnaðarvöruverslanir eru með 1.3 milljarða aðstöðugjaldsstofn, en aðstöðugjald er 15 millj. Aðstöðugjaldsstofn skóverslana er 167 millj., en aðstöðugjald 2 millj. — Ég tek bara grófu töluna, tel ekki þúsundir. — Búsáhalda-, heimilistækja- og húsgagnaverslun er með 1 milljarð 892 millj. í aðstöðugjaldsstofn, en aðstöðugjald er 22.7 millj. Blandaðar verslanir eru með aðstöðugjaldsstofn upp á 4 milljarða 164 millj. og greiða í aðstöðugjald 51.1 millj. Eins og ég áður sagði er heildaraðstöðugjaldsstofn í smásöluverslun skv. upplýsingum ríkisskattstjóra 15.7 milljarðar, en aðstöðugjaldið 182.4 millj.

Þá kem ég að heildverslun. Þar er aðstöðugjaldsstofninn 13 milljarðar 745 millj. 888 þús. og aðstöðugjald 1984 169 millj. 374 þús. kr. Þetta skiptist þannig: Bensín- og smurstöðvar með 102 millj. 793 þús. í aðstöðugjaldsstofn greiða í aðstöðugjald 1 millj. 270 þús. Byggingarvöruverslanir með 1 milljarð 972 millj. 407 þús. í aðstöðugjaldsstofn greiða í aðstöðugjald 23 millj. 312 þús. Sala á bifreiðum og bifreiðavörum: aðstöðugjaldsstofninn er 2 milljarðar 449 þús. 497 kr., en aðstöðugjald 30 millj. 109 þús. kr. Heildsöluverslanir aðrar hafa aðstöðugjaldsstofn upp á 9 milljarða 221 millj. 190 þús. og greiða í aðstöðugjald 114 millj. 681 þús. 703 kr.

Þá eru það skipafélögin, þ.e. flutningar á sjó. Aðstöðugjaldsstofninn er 2 milljarðar 610 millj. 527 þús. kr. og aðstöðugjald 17 millj. 936 þús. kr.

Skv. þessum upplýsingum hafa þessar atvinnugreinar, sem ég hef lesið hér upp, smásöluverslunin, heildverslunin og skipafélögin, greitt samtals 369 millj. 767 þús. 830 kr. í aðstöðugjald 1984 af aðstöðugjaldsstofni sem er 32 milljarðar 79 millj. 433 þús. kr. En ég vil geta þess að heildaraðstöðugjald, álagt aðstöðugjald, á árinu 1984 var 846 millj. 951 þús. 835 kr.

Ég vænti þess, herra forseti, að þessar upplýsingar séu nægilegt svar við fsp. á þskj. 221.