11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér er efnt til umræðu um launamál og efnahagsmál. Hæstv. forsrh. kemur hér í stól og hefur í rauninni ekkert að segja, en það tekur hann samt næstum klukkustund að segja það. Ríkisstj. hæstv. ráðh. hefur valið sér það hlutverk að magna og flækja vinnudeilu sem hefur bein áhrif á fjórðung eða fimmtung heimila í landinu. Einstakir ráðh. hafa valið sér það hlutverk að kasta stríðshönskum í andlit löghlýðinna borgara. Samninganefnd ríkisins undir stjórn hæstv. ríkisstj. leyfir sér á sjöunda degi verkfalls að leggja fram umræðupunkta sem eru svo losaralegir og almennir að þeir hefðu varla dugað sem minnisplagg fyrir sex mánuðum. Hér skal ég nefna dæmi. Hér er plagg frá samninganefnd ríkisins:

„Umræðuefni á fundi með samninganefnd BSRB þann 11. okt. 1984:

1. Gildistími aðalkjarasamnings verði til 31. 12. 1985.

2. Nýir sérkjarasamningar gildi frá 1. apríl 1985. Unnið verði að gerð sérkjarasamninga frá undirritun aðalkjarasamnings“ o.s.frv.

„3. Unnið verði að endurskoðun á launakerfi ríkisins og henni lokið eigi síðar en 1. sept. 1985“, o.s.frv. — Og við erum að tala um verkfall sem er þegar hafið.

Þetta hefur samninganefnd ríkisins fram að færa.

Í 4. lið er rætt um lækkun skatta og útsvara „ef af verður, sbr. sérstakar umræður um það efni.“

Og í 5. lið stendur að „samið verði um breytingu á launalið með því markmiði að unnt verði að halda verðlagi í skefjum á samningstímanum.“

Í 6. lið er talað um „að viðræðunefndir aðila eða sérstakar undirnefndir fari yfir þau gögn sem samninganefnd ríkisins hafi áður afhent um þróun ýmissa þátta efnahagsmála“ o.s.frv.

Þetta er það sem samninganefnd ríkisins í umboði ríkisstj. hefur fram að færa á sjöunda degi verkfalls. Eins og ég segi hefði þetta varla gagnað sem lauslegir minnispunktar í þessari deilu fyrir sex mánuðum. Þetta er svo yfirgengilegt eftir viku verkfall þúsunda starfsmanna ríkisins að það er út af fyrir sig efni í vantrauststillögu á fjmrh. Það virðist alls ekki reynt að ná neinum samningum. Forsvarsmenn hæstv. ríkisstj. virðast líta á þessa 17 þúsund starfsmenn ríkis og bæja eins og einhver óþægileg aðskotadýr í samfélaginu, blóðsugur eða þurfalinga sem séu að þvælast fyrir þeim og séu í raun ekki verðir þess að við þá sé talað. Það vill samt svo til að það er þetta fólk í BSRB sem rekur t.d. skólana, sem hefur þó menntað börn þessara sömu ráðh. og okkar þm. allra, og það er þetta sama fólk sem rekur barnaheimilin, spítalana og elliheimilin og aðrar þjónustustofnanir sem hefur ríkt 20 eða 30 ára samstaða í þessu landi um að byggja upp. Það mat sem þessi ríkisstj. leggur nú á störf þessa fólks birtist í viðbrögðum hennar þessa dagana. Þeir sem nú ráða Sjálfstfl. virðast hafa gleymt því hlutverki sem sá flokkur lék þó í áratuga uppbyggingu þessa kerfis. Og það er heimskuleg og það er skammsýn ríkisstj. sem ætlar með eins árs launastefnu að stefna málum í það strand að starfsemi þessara stofnana sé í raun og veru rústuð. Þetta eru lykilstofnanir fyrir afkomu okkar í framtíð. Þetta eru lykilstofnanir fyrir velferð okkar í nútíðinni.

Það er hafinn fólksflótti í stórum stíl frá ríki og sveitarfélögum. Sum barnaheimili hér í borginni eru rekin án tilskilins menntaðs starfsfólks. Stjórnendur skóla og sjúkrahúsa eiga í sífellt meiri örðugleikum við að manna þessar stofnanir, svo tekin séu örfá dæmi. Afleiðingar þessa ástands eru margar. Í fyrsta lagi má það nefna að dýrmæt menntun og starfsreynsla þessa fólks glatast til annarra og jafnvel alls óskyldra starfa. Í öðru lagi versnar þjónustan, sem þessar stofnanir veita, vegna skorts á starfsfólki. Í þriðja lagi veldur reiði, örvænting og óánægja þeirra sem eftir eru versnandi vinnuanda og afköstum. Þetta brýtur stofnanirnar niður innan frá. Í fjórða lagi getur þessi minnkun á þjónustu við viðskiptavinina, t.d. börn og sjúklinga og aðra sem þangað þurfa að sækja, valdið því að þessar stofnanir eigi undir högg að sækja í samfélaginu. Þetta getur valdið fjandsamlegri umræðu og afstöðu umhverfisins. Það er kannske það sem Sjálfstfl. vill ná fram til þess að eiga auðveldara um vik þegar að því kemur að leggja þessar stofnanir niður, sem sumar hverjar virðast vera honum þyrnir í augum. Og það kemur úr undarlegri átt að ríkisstj., sem hefur talið sig eiga þau glæstust spilin á hendinni að vera að byggja hérna upp framtíðarþjóðfélag, nýbreytni í atvinnuháttum og fleira, skuli nú telja sig vinna það verk best með því að þrengja á áður óþekktan hátt að öllu menntakerfi landsins, öllu skólakerfi landsins, og setja það t.d. á vald bankastjóra hvaða námsmenn hefji nám á haustin. Þannig er það á valdi bankastjóra hvaða æskufólk fær að hefja hérna nám á næstu árum. Það er nákvæmlega það sem lög um Lánasjóð ísl. námsmanna voru sett til þess að komast hjá til þess að tryggja jöfnuð. Það er tómt mál að tala um nýsköpun í atvinnulífi til framtíðar ef sú nýsköpun byggist ekki á vel hæfu og menntuðu rannsókna- og starfsfólki.

Það ætti að vera ríkisstj. ærið umhugsunarefni að kennarastéttin, sem á að vísa leiðina inn á þessar nýju framtíðarbrautir, sem á að þjálfa fólkið sem á að vinna í þessum nýju atvinnufyrirtækjum, hátækniatvinnufyrirtækjum eins og Pólnum á Ísafirði, svo notuð séu orð hæstv. forsrh. úr umræðum í vor, þessi stétt sem á að varða þennan veg skuli vera orðin einhver lægst launaða stétt landsins. Hagsmunum framtíðarinnar væri miklu betur borgið þannig, að kennarastörf væru eftirsótt og að stjórnendur skóla gætu valið úr starfsfólki í staðinn fyrir að horfa á eftir því flýja kennarastörfin hvert á fætur öðru.

Eins og ég sagði áðan er hrun þessara stofnana, sem við höfum byggt upp á undanförnum áratugum, hugsanlega yfirvofandi. Kannske er það lokatakmark þessara nýju valdhafa Sjálfstfl. vegna þess að ef ég man rétt stendur í erlendum fræðibókum, sem eru skrifaðar af fyrirmyndum þeirra, að velferðarkerfi ali á aumingjaskap, menn leggist í leti og einstaklingurinn fái ekki notið sín. En mitt í þessu öllu, og það er kannske huggun hanni gegn, hafa augu fjöldamargra almennra borgara opnast fyrir því á undanförnum tveimur vikum að Sjálfstfl. stendur fyrir því að brjóta þessar stofnanir niður leynt og ljóst. Það hefur sem sé gerst að menn eru farnir að sjá þennan flokk í réttu ljósi, ekki síst þegar Morgunblaðsins nýtur ekki lengur við til að halda uppi leiktjöldunum. Sjálfstfl. er nefnilega þessa dagana ótíndur sjálfgræðisflokkur, eins og einn af núverandi foringjum hans, borgarstjórinn Davíð Oddsson, kallaði hann forðum — sjálfgræðisflokkurinn!

Að auki hefur Sjálfstfl. með framkomu sinni við opinbera starfsmenn vegið að þeim hluta lífsgæðanna sem kannske er mikilvægastur, sem er sjálfsvirðing einstaklingsins. Það er vegið að sjálfsvirðingu einstaklingsins þegar samfélagið neitar að viðurkenna framlag hans til launa á þann eina hátt og með þeim einu mælistikum sem eru tiltækar, en það eru aðstaða og laun. Og það er ekki orðið gott hlutskipti Sjálfstfl., sem hefur talið sig bera velferð einstaklingsins fyrir brjósti, að ganga svo gegn hans helgustu véum, sjálfsvirðingunni, vissunni um að vera metinn að verðleikum af umhverfi sínu og samfélagi.

En Sjálfstfl. hefur gert fleira sem stefnir gegn fornum venjum hans og fornum hefðum og þá ætla ég að snúa máli mínu aðeins að frjálsu útvarpi. Í málflutningi sínum til að verja nýju útvarpsstöðvarnar hafa ráðh. Sjálfstfl. sumir hverjir látið hafa eftir sér skoðanir sem valda því að nú fer skelfingarhrollur niður um bakið á löghlýðnum kjósendum flokksins og öðrum borgurum þessa lands — kjósendum flokksins sem höfðu ætíð talið að flokkurinn styddi það að framfylgt væri lögum og reglum. Þær fregnir sem okkur hafa borist síðastar ítreka að það er ekki einu sinni svo. Ef marka má fregnir af stofnfundi Félags um útvarpsrekstur í gærkvöldi hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að hann fagnaði lögbrotum útvarpsmannanna sem hann sagði að storkuðu kerfinu. Hæstv. fjmrh. hefur sérstakt lag á því að nefna hlutina skrýtnum nöfnum. Nú heitir það að storka kerfinu að brjóta landslög. Það er kannske skýringin á slælegri framgöngu gegn augljósum skattsvikum undanfarinna ára að valdhafar líti þannig á að skattsvikarar séu þá að storka kerfinu. Kannske voru Stigahlíðarbraskararnir í sumar bara að storka kerfinu.

Nú er mér kerfið ekki kært, en ég vil að breytingar á því náist fram með siðuðum hætti og sama sinnis eru þeir fjölmörgu sjálfstæðismenn sem hafa á undanförnum dögum sagt sig úr flokknum. Og ef við ætlum að fara að kalla lögbrotamenn storkara eða eitthvað þess háttar erum við komin inn á áður óþekktar brautir.

Ég hef farið örfáum orðum um það sem ég kalla aðgerðaleysi ríkisvaldsins í samningamálum. Eins og ég talaði um í byrjun hefur þar ekkert verið lagt fram. Ég hef talað um það sem ég tel að sé lítilsvirðing ríkisstj. á starfsemi fólksins í BSRB. Ég hef talað um það sem ég tel að sé raunveruleg hætta á því að það verði óbætanlegt eða illbætanlegt tjón á velferðarstofnunum í þessu landi sem hefur verið margra áratuga samvinna um að byggja upp. Og ég hef harmað brotthvarf Sjálfstfl. frá virðingu fyrir einstaklingum og lögum. Nú ætla ég aðeins að víkja að samningunum.

Aðdragandi þessara samninga var á ýmsan hátt nokkuð sígildur. Fyrir nokkrum vikum voru birtar áætlanatölur frá Þjóðhagsstofnun um t.d. afkomu sjávarútvegs. Þessar tölur voru svo mikilli óvissu háðar og þær voru byggðar á svo misvísandi tölum að jafnvel höfundar þeirra buðu vara á því að á þeim væri tekið mark. En samt eru þessar tölur notaðar til að draga kjarkinn úr öllum launþegum, hvort sem þeir eru í sjávarútvegi eða BSRB eða hvar á landinu sem þeir eru. Launþegar allir áttu að taka þetta til sín, að það væri ekkert til skiptanna.

Næst komu svo hótanir um launasviptingu í október. Helsti sérfræðingur og líklega aðalsmiður viðkomandi laga, Benedikt Sigurjónsson, taldi aðgerðir stjórnarinnar ólöglegar. Ýmsir aðrir lögfræðingar voru í miklum vafa um lögmæti þess að greiða fólki ekki laun í október, en samt ákvað ríkisstj. að greiða ekki laun, jafnvel þótt þessi vafi léki á. Ýmsir hefðu nú haldið að í ljósi þess vafa hefði ríkisstj. talið réttast að láta starfsfólk sitt njóta þess að vel grundaður vafi léki á því að stjórnin væri að fara að lögum. Ýmsar aðrar stjórnir hefðu kannske látið starfsfólk sitt njóta þess vafa. Ekki þessi stjórn. Hún var í kúrekaleik. Hún var að ógna fólki og þetta var einn liðurinn.

Það er nú einna helst á hæstv. forsrh. að skilja að hann hafi svolítið samviskubit af þessu. A.m.k. tók hann dýrmætan tíma hér áðan til þess að taka af allan vafa um að þetta væri náttúrlega á ábyrgð fjmrh. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson lýsti: þegar gripið er til lögskýringa um fjölskipað stjórnvald vita menn hvað er á ferðinni. — Þetta var um launasviptinguna.

Til viðbótar við þetta kemur núna bersýnilegt aðgerðaleysi ríkisvaldsins sem á sjöunda degi verkfalls leggur fram almenna algjörlega gagnslausa umræðupunkta sem eins og ég sagði í byrjun hefðu verið gagnslausir fyrir sex vikum.

En það er ýmislegt annað á ferðinni. Á meðan þessi leiksýning fer fram er líka leiksýning í öðrum leiktækjasölum Sjálfstfl. Í einum þeirra situr Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri VSÍ — líklega í reykfylltu bakherbergi — og býður lagabreytingar. Hann er t.d. búinn að bjóða breytingar á skattalögum. Það hefur að vísu ekki komið fram hver hafi gefið honum umboð til þess að bjóða þessar lagabreytingar. Kannske hefur hann víðtækara umboð til lagabreytinga. Kannske hefur hann boðið hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að hækka hámarkshraðann á Reykjanesbrautinni. Kannske nær þetta umboð til lagabreytinga til fleiri stjórnenda Vinnuveitendasambandsins. Ætli Davíð Scheving Thorsteinsson bjóði okkur ekki bráðum upp á lagabreytingar sem leyfa bjór á Íslandi? Það væri auðveldari leið en að reyna að koma bjórnum fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni.

Þannig er nú löggjafarvaldið orðið. Þó ég sé maður valddreifingar vildi ég ekki dreifa því svo mjög eins og mér sýnist það hafa dreifst á undanförnum vikum. Það þarf að breyta skattalögum. Um það eru allir sammála. Núverandi skattalög eru einhver helsta og stærsta undirrót ójafnaðar í íslensku þjóðfélagi. En það á ekki að gerast á þennan hátt. Verslunar- og þjónustufyrirtæki munu samkv. öllum ræðumönnum í dag og samkv. gögnum sem hafa verið gefin út áður græða meira en nokkru sinni fyrr. Þessi fyrirtæki eiga sjálf að greiða mannsæmandi laun. Vinnuveitendasambandið á ekki að losa þessi fyrirtæki undan launagreiðslum með því að bjóða skattalækkanir. Það þarf hins vegar að breyta skattalögum, eins og ég sagði áðan, sem eru ein aðaluppspretta óréttlætis á landinu, en um það á að koma frumkvæði frá þinginu.

Það þarf líka að koma frumkvæði frá þinginu í húsnæðismálum vegna þess að húsnæði varðar ekki aðeins húsaskjól. Húsnæði varðar líkamlegt heilbrigði fólks, húsnæði varðar andlegt heilbrigði fólks, það varðar sjálfsvirðingu einstaklinga og hamingju heimila og þessi mál á Alþingi að fjalla um. Einhver stærsta vanræksla núverandi valdhafa, þings og stjórnar, er að hafa algerlega brugðist þeirri skyldu að tryggja lágmarksjöfnuð þegnanna með aðgerðum í húsnæðis-, trygginga- og skattamálum. Það er orðin djúp gjá á milli lífskjara þeirra kynslóða sem byggðu húsnæði fyrir 1975 og hinna sem byggðu húsnæði eftir 1975. Og það er djúp gjá á milli lífskjara þeirra sem gefa öll sín laun upp til skatts og hinna sem ekki gera það. Þetta eru staðreyndir sem þetta þing verður að horfast í augu við. Þennan ójöfnuð m.a. á ríkisvaldið að uppræta. Það er verksvið þess í sambandi við varðveislu lífskjara. Á slíkum grunni jafnaðar væri þess einhver von að launasamningar, bæði fyrir opinbera starfsmenn og aðra, gætu náð fram réttlæti og yrðu viðunandi hvað fjöldann varðar. Þetta á þingið að fást við, þetta á þingið að eiga frumkvæði um, en ekki taka við minnisblöðum frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Þingið á að gera eigin ráðstafanir til að ná jöfnuði og eyða fátækt og gæta þess um leið að hamla ekki þannig framtaki einstaklinga og auka skrifræði og miðstýringu að til vansa horfi. Þetta ætti að vera verðugt verkefni þess á næstu vikum.

Nú hef ég gert grein fyrir mínum skoðunum varðandi hlut Alþingis í jöfnun lífskjara og ætla þá að ræða nokkra vitnisburði sem ég hef aflað um frammistöðu og starfsemi ríkisstj. Það er æði fróðlegur lestur.

Okkur er öllum minnisstætt þegar útgerðarmenn á Austurlandi sigldu í land í sumar. Það var mjög greinileg yfirlýsing um álit þeirra á stjórn efnahagsmála. Okkur eru í öðru lagi minnisstæðar niðurstöður samanburðarkannana sem voru birtar á launakjörum á Vesturlöndum í sumar þar sem laun á Íslandi voru með þeim allægstu á Vesturlöndum. Í þriðja lagi eru okkur líka minnisstæð orð sem Kristján Ragnarsson hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna hafði um aðgerðir ríkisstj. í sumar þegar hún rembdist eins og rjúpan við staurinn við að gera efnahagsráðstafanir. Í fjórða lagi eru okkur minnisstæðir ýmsir punktar úr ræðum Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra frá ársfundi bankans í vor þar sem hann lýsti því yfir að ekkert hefði verið höggvið að rótum íslenskrar efnahagsóáranar. Í fimmta lagi gleymir enginn yfirlýsingum sem hv. þm. Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstfl., gaf á frægum fundi á Seltjarnarnesi um að þessi ríkisstj. ætti allt eftir ógert. Í sjötta lagi gleymir enginn sem las grein sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skrifaði í Morgunblaðið snemma sumars um ýmislegt í sambandi við Samband ísl. samvinnufélaga. Í sjöunda lagi eru mönnum í fersku minni viðbrögð þingbróður hans, Guðmundar H. Garðarssonar formanns fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Í áttunda lagi er sá vitnisburður sem er kannske einna bestur. Það er braskið í sumar þegar hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Þorsteinn Pálsson börðu saman óskalista um hvað þeir raunverulega óskuðu að þeir hefðu verið að gera fyrsta eina og hálfa starfsár stjórnarinnar þó að listinn væri um það sem þeir ætluðu að gera næsta starfsárið. Ég held að af öllum þessum vitnisburðum sé þessi bestur um það hvað raunverulega var óunnið af því sem þessi ríkisstj. þóttist allan tímann ætla að gera. Í níunda lagi er nýjastur sá vitnisburður sem kom fram í yfirlýsingu beggja hæstv. forsrh. áðan um að verðbólguholskefla mundi skella yfir land og þjóð ef fólk fengi mannsæmandi laun. Hvað þýðir það m.ö.o.? Það þýðir það að ekkert hefur breyst. Engu hefur verið breytt í ríkiskerfinu. Engu hefur verið breytt í íslensku efnahagslífi svo að það megni að taka á sig bætt lífskjör. Þetta er líka yfirlýsing um að öllum launahækkunum, hversu litlar sem þær væru, yrði velt áfram út í verðlagið. Ekki er þetta nú beinlínis traust til valdastéttarinnar í Sjálfstfl., kaupmannanna og iðnrekendanna, sem vel geta boðið hærri laun. Verslun og þjónusta getur svo sannarlega boðið hærri laun en hún gerir núna.

Þessar yfirlýsingar beggja forsrh. í þessari umr. eru órækur vitnisburður um að ekki treysta þeir því að neinu hafi verið breytt til raunverulegra bóta í íslensku efnahagslífi. Svo bitnar þetta á fólkinu í BSRB. Fólkið í BSRB lítur út eins og óhreinu börnin hennar Evu. Það er búið að skammta öllum og nú er bara gat, eitt gatið enn. Við sáum eitt gat í vor, þá gleymdu menn í fjmrn. að gera ráð fyrir ákveðnum greiðslum og nú er í raun og veru komið fram eitt gatið enn. Það er gatið sem fólkið í BSRB þarf að horfa inn í. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir þeim. Þannig þarf fólkið í BSRB að gjalda athafnaleysis og aumingjaskapar þessarar ríkisstj. — ríkisstjórnar sem hefur ekki tekið á skattsvikum, ríkisstjórnar sem hefur ekki tekið á landbúnaðarmálum eða niðurgreiðslum, ríkisstjórnar sem ekki hefur tekist á við raunverulega endurskipulagningu ríkisbáknsins til þess að ná fram raunverulegum sparnaði. Það er ekki nóg að spara bara bréfaklemmur. Hér er ríkisstj. sem ekkert hefur tekið á sjóðakerfinu og hér er ríkisstj. sem við vitum að mun ekki einu sinni vera þess megnug að framfylgja þeim fyrirheitum, sem hún hefur uppi núna, um endurskoðun á þessu kerfi vegna þess að slík endurskoðun verður vafalaust lítið annað en það að breyta nafnspjöldum á hurðum og raða skrifborðunum á skrifstofunum svolítið öðruvísi.

Fyrir þessa vanrækslu þarf nú fólk að gjalda. Og til að breiða svo yfir vesaldóminn hefur Sjálfstfl. tekið þann kost núna að tala eins og harðir karlar. Formaður flokksins, borgarstjóri flokksins og hæstv. fjmrh. flokksins hafa nú síðustu vikurnar gengið fram eins og kúrekar í villta vestrinu og ætlast greinilega til þess að fólk skjálfi á beinunum þegar þeir skjóta úr byssunum sínum. Í þessari umr. kemur svo hv. þm. Þorsteinn Pálsson eins og nýr Clint Eastwood í íslenskum stjórnmálum og hrósar sér af nokkurra hundraða króna hækkunum á tryggingabótum á sama tíma og hækkanir á læknishjálp, meðulum, tannlæknaaðstoð og t.d. lánum vegna húsnæðiskaupa, bæði húsnæðismálastjórnarlánum og lífeyrissjóðslánum, nema tugum þúsunda á ári fyrir venjulega fjölskyldu. Í sumar var tekin ákvörðun um það einhvers staðar í kerfinu að hækka vexti almennra lífeyrissjóða úr 2% upp í 7%. Það þurfti ekki lýðræði þá. 350% hækkun á þessum vöxtum, sem hún í raun og sannleika er, þýðir fyrir unga fjölskyldu með tvö lífeyrissjóðalán einhvers staðar milli 40 og 50 þús. kr. á ári aukalega. Hvaða gagn er þeim þá í nokkurra hundraða króna sporslum úr einhverjum vasa þessarar ríkisstj.? Ekki neitt.