29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

197. mál, aðstöðugjald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem komu fram hjá hv. 3. þm. Reykv., -ég má segja að hann hafi gefið í skyn að ríkisstj. væri að hylma yfir eða jafnvel að hjálpa ákveðnum innflytjendum, sem selja sínar innfluttu matvörur 200 og eitthvað milljónum dýrari en þær þurfa að vera, skildist mér, — vil ég upplýsa að skattrannsóknastjóri hefur verið með það mál, sem hv. þm. vitnaði til, í rannsókn og hefur upplýst það sem hægt er að upplýsa á þessari stundu og málið heldur áfram. En ég vil draga í efa að meðferð þessa fyrirtækis á þessum vöruflokki og verðlagningu á honum hafi breyst sérstaklega í tíð þessarar ríkisstj. Mér finnst það kurteisi af okkar hálfu, sem hér höfum fullt málfrelsi án þess að hægt sé að gera okkur ábyrga fyrir orðum okkar út á við, að við bíðum þangað til dómstólar hafa fjallað um þau mál sem eru í rannsókn. En ríkisstj. er fullvel kunnugt um málið.