29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

197. mál, aðstöðugjald

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var eins og komið væri við hjartað í hæstv. fjmrh. þegar vegið var að svindli innflutningsverslunarinnar. Hann upplýsir okkur um að þessi mál séu til meðferðar út af kaffibaunasvindli, það er nýjasta afrekið, það sé til meðferðar hjá dómstólum. En það er ekki nýtt. Níu mál, sem skattrannsóknastjóri hefur sent frá sér, liggja fyrir óafgreidd og bíða dómstólameðferðar. Þar er um að ræða mál sem m.a. eru talin upp á bls. 42 í þskj. 427, sem var dreift á borð þm. áðan, till. til þál. um rannsókn á innflutningsversluninni. Þannig er bersýnilega ekki nóg að þessi mál séu rannsökuð. Það verður auðvitað að tryggja að þeim sé fylgt eftir í dómstólakerfinu. Reynslan er sú að dómstólakerfið er seinvirkt þegar kemur að málum af þessum toga og þar virðist lítil trygging vera fyrir því að tekið sé á málunum með eðlilegum hætti. Hér er komið að kvikunni í fjármálakerfi þessa þjóðfélags og er ekkert nýtt að það spyrjist til þess hvernig farið er með fjármuni á vegum innflutningsverslunarinnar. En hitt er aftur á móti nýtt að hér sitji við völd stjórn eins og sú sem nú situr, sem hefur gefið alla starfsemi þessara aðila í þjóðfélaginu frjálsa, eins og það er kallað, upp á 40–50 milljarða kr. á árinu 1985. Þessir aðilar mega baða sig upp úr peningum og ríkisstj. telur það ekki einasta sjálfsagt, heldur er það stefna hennar að halda þannig á hlutunum.

Atvinnuleit og atvinnumiðlun fatlaðra, fsp. 221. mál (þskj. 265). — Ein umr.