29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

Um þingsköp

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Fyrir rúmum tveim mánuðum lagði ég fram á þskj. 203 fsp. til hæstv. landbrh. um fullvinnslu kjötafurða. Fsp. þessi hefur verið á prentaðri dagskrá Sþ. nokkrum sinnum, en aldrei verið tekin fyrir vegna þess að ráðh. hafði ekki tekist að útvega sér þau gögn sem til hefur þurft til þess að geta svarað. Er þá sérstaklega átt við fyrri spurninguna. Ég er nokkuð þolinmóð manneskja og hef beðið róleg á meðan starfsmenn landbrh. hafa verið að telja og vigta kjötskrokka sem fluttir eru frá Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum til Reykjavíkur, en við seinni spurningunni, sem ég tel að ráðh. ætti að geta svarað án þess að hafa fengið niðurstöðutölur um þyngd þess kjöts sem flutt er út úr kjördæmi okkar, vildi ég gjarnan fá svör ef mögulegt er þar sem ég er að fara af þingi.