29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

223. mál, reglugerð um endursöluíbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Til að svara fsp. á þskj. 271 frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv. les ég hér grg. frá Húsnæðisstofnun ríkisins dags. 28. jan. s.l. :

1. Hve margar endursöluíbúðir í verkamannabústöðum bíða nú mats á íbúðaverði? Svarið er: Engar íbúðir í verkamannabústöðum bíða nú eftir útreikningi á innkaupsverði.

2. Hvenær verður gefin út reglugerð um verðlagningu endursöluíbúða? Reglugerð um verðlagningu félagslegra íbúða, þ.e. um útreikninga á innkaupsverði, var gefin út 14. des. s.l. og er hún nr. 467 í stjórnartíðindum.

Varðandi þá viðbótarspurningu sem hv. þm. lagði hér fram um það hvort mundi þurfa lagabreytingu í sambandi við þennan kafla í hinum nýju lögum, þá liggur það ekki endanlega fyrir. Endanleg gerð reglugerðar um nýju lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60 er núna á lokastigi og það kemur í ljós sennilega að liðinni þessari viku — síðasti fundur um þetta verður n.k. fimmtudag — hvort Húsnæðisstofnunin telur að breyta þurfi einhverju í lögum í sambandi við þetta mál eða ekki. Ég get ekki gefið annað svar um það á þessari stundu, en ég mun að sjálfsögðu láta þingheim vita hvort um slíkt verði að ræða. Þó eru allar líkur til þess að til þess þurfi ekki að koma og hægt sé að leysa málið með viðbótarreglugerðinni sem er núna um það bil að sjá dagsins ljós.