29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

223. mál, reglugerð um endursöluíbúðir

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin.

Það er ljóst að lagasmíðinni hefur verið verulega ábótavant. Þegar lögin voru sett á síðasta ári, þá var, trúi ég, komið fram í maímánuð og lagt á það ofurkapp af hæstv. félmrh. að lokið yrði við að samþykkja lögin hér á Alþingi svo að unnt yrði að gefa út nauðsynlegar reglugerðir. Aftur og aftur tók hæstv. ráðh. fram að nauðsynlegt væri að koma þessum reglugerðum út, það væri hagsmunamál og kappsmál húsbyggjenda og húseigenda o.s.frv. Núna er liðinn langur tími. Það er liðinn júní og júlí og það er liðið allt árið 1984 og komið fram á árið 1985 og enn þá hefur ekki tekist að ganga úr skugga um hvort hægt er að framkvæma lögin. Húsnæðismálastjórn er að velta fyrir sér hvort lögin eru framkvæmanleg og hún hefur ekki komist að niðurstöðu um það enn þá, eins og hæstv. félmrh. viðurkenndi áðan. Í rauninni hygg ég að það orki mjög tvímælis að sú reglugerð sem hæstv. ráðh. hefur gefið út sé í samræmi við lögin í einu og öllu, en ég tek það hins vegar fram sem mína skoðun að ég tel að sú útreikningsregla sem er í reglugerðinni sé betri en sú vitlausa regla sem ráðh. lagði til að Alþingi samþykkti og þingið samþykkti hér á s.l. ári. Reglugerðin er því að mínu mati til bóta, jafnvel þó að hún sé ekki í einu og öllu í samræmi við þann bókstaf sem ráðh. þvældi í gegnum þingið á s.l. vori.