29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

224. mál, framlagning frumvarps um umhverfismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir að taka þetta mál upp hér og spyrjast fyrir um hvað líði því að fram verði lagt frv. um þetta mál. Og þá er auðvitað óskaplega gott að heyra það og vert að þakka fyrir það að enn sé nú kominn starfshópur í málið og vissulega mikil gleðitíðindi. En líklega eru liðin ein 13 ár síðan Náttúruverndarráð ályktaði fyrst einróma um að það bæri að sameina yfirstjórn umhverfismála í einu ráðuneyti. Og ósköp er eitthvað þreytulegt að heyra það hér enn, aftur og nú að nýr hópur sé byrjaður að vinna í málinu þegar fullbúið frv. hefur legið fyrir árum saman. Menn tala um að þetta sé óskaplega erfitt og það séu ekki færri en sjö ráðuneyti sem eigi aðild að málinu. Þá lítur það þannig út að þetta sé sjö sinnum erfiðara en venjulegt mál vegna þess að það séu sjö rn. sem öll hafi sína skoðun á málinu. Ég vil taka undir með hv. þm. Gunnari G. Schram að það þýðir ekkert að láta þessi smákóngasjónarmið á öllum þessum sjö stöðum ráða — og sennilega 7x7 því að síðan eiga mismunandi margar stofnanir aðild að málinu undir hverju rn. þannig að listinn er orðinn æðilangur.

Þarna þarf greinilega að höggva á ákveðna hnúta og það er verk okkar alþm., sem eigum að setja lög um þessi efni, að gera það. Til þess að það sé hægt þurfum við auðvitað að fá hingað inn frv. til þess að vinna út frá. Það væri í það minnsta æskilegast. Við fjórir þm. Alþb. höfum lagt fram till. til þál. þar sem fyrsti liðurinn er einmitt að sameina yfirstjórn helstu málaflokka á sviði umhverfisverndar í einu rn. Ég vil minna á þá endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem á að vera einhvers staðar í gangi í kerfinu, sjálfsagt í starfshópi. Vonandi gleymist ekki sameining umhverfismála í þeirri endurskoðun.

Ég vil að síðustu hvetja hæstv. félmrh. eindregið til þess og brýna hann á því að leggja hér fram frv. sem lengi er búið að vera til. Skiptir þá kannske ekki höfuðmáli í hvaða búningi það kemur hingað inn því að það hlýtur að fá hér þinglega meðferð og verða endursent til umsagnar þeirra sömu aðila í mörgum tilfellum sem eru um það að fjalla. En þá kæmist þó einhver hreyfing á málið. Mín ráðlegging til hæstv. félmrh. væri sú að gera þetta frekar fyrr en seinna. Ég teldi óráðlegt í hans sporum að draga það mjög lengi, í það minnsta ef hann vill koma því fram í sinni ráðherratíð.