22.10.1984
Efri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

63. mál, fjarvistarréttur foreldra

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til l. um fjarvistarrétt foreldra vegna veikinda barna. Það er meginefni þessa frv. að lögbundið verði að foreldri sé heimilt að ráðstafa allt að einni viku af áunnum rétti sínum til fjarvistar vegna veikinda til að vera frá vinnu vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, en það skilyrði er sett í 2. gr. að annarri umönnun verði ekki við komið. Í þessum veikindaforföllum greiðast starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni verðskrá, ef um það er að ræða.

Forsaga þessa máls er sú að í tengslum við kjarasamninga opinberra starfsmanna haustið 1982 var samþykkt að veita félagsmönnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna heimild af því tagi sem hér er gerð till. um að verði almenn regla á vinnumarkaðinum. Skv. þeirri heimild mega þeir nota hluta af veikindaleyfi sínu til að vera frá vinnu vegna veikinda barna. Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem ákvæði af þessu tagi kom inn í samninga, vegna þess að árið áður hafði verið fallist á sams konar ákvæði í samningum ríkisins við starfsmannafélagið Sókn.

Ekki þarf að orðlengja það að krafa af þessu tagi hefur lengi verið á dagskrá hjá verkalýðshreyfingunni, enda eru heimildir af þessu tagi í gildi víða um lönd og víðast hvar þykja það orðið sjálfsögð réttindi að foreldrar, sem ekki fá annarri umönnun við komið, geti notað hluta af sínum veikindadögum til að sinna veikum börnum. Þetta hefur sem sagt verið krafa aðildarsamtaka Alþýðusambands Íslands um árabil. Hins vegar hefur þessi réttur ekki náðst fram í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og þess vegna er það nú gert að till. að Alþingi taki af skarið um að allir sitji við sama borð í þessu efni og eigi þennan rétt.

En þegar rétturinn er nefndur þá er kannske eðlilegt að velta fyrir sér hverjir eigi réttinn. Að sjálfsögðu er ekki hægt að skylda atvinnurekendur til þess að veita rétt af þessu tagi ef um mjög lauslegt vinnusamband er að ræða og viðkomandi starfsmaður hefur ekki verið hjá atvinnurekanda nema kannske fáa daga eða í mjög skamman tíma. Það þykir því eðlilegt að miða við nokkuð fast vinnusamband í þessu sambandi. Í 1. gr. frv. er gengið út frá því að þeir eigi réttinn skv. þessum lögum sem rétt eiga til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla skv. ráðningarsamningi eða skv. lögum nr. 19 1. maí 1979. Skv. þeim lögum ná þessi réttindi til þeirra sem eru í fastri vinnu, þ.e. hafa ákveðinn uppsagnarfrest eða hafa verið hjá sama atvinnurekanda í a.m.k. eitt ár, sbr. lög nr. 19 1. maí 1979, eins og ég nefndi áðan. En þar er eitt vinnuár skilgreint sem a.m.k. 1550 vinnustundir á seinustu 12 mánuðum.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið meira um þetta frv. Ég lít svo á að hér sé um sanngirnis- og réttlætismál að ræða. Stór hluti vinnumarkaðarins nýtur þessa réttar í dag. Réttindi af þessu tagi eru viðurkennd víða um lönd, en félagsmenn Alþýðusambands Íslands hafa enn ekki fengið þennan rétt viðurkenndan. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt, úr því að atvinnurekendur hafa tregðast við og tregðast enn við að fallast á þessi sjálfsögðu réttindi, að Alþingi taki þar af skarið og samþykki þennan rétt foreldrum til handa á hinum almenna vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. þessu vísað til hv. félmn.