29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

184. mál, fullvinnsla kjötafurða

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér hér þó að þau segðu mér raunar lítið fram yfir það sem hann áður hefur sagt. Ég hélt að málið hefði e.t.v. verið tekið eitthvað til umr. í rn. sjálfu þannig að það lægju fyrir einhver svör þaðan en ekki eingöngu hans persónulega skoðun á þessu.

Í fyrsta lagi tekur ráðh. fram að það sem skiptir máli séu gæði vörunnar þegar hún kemur á borð neytenda. Ég er sannfærð um að gæði vörunnar þegar hún kemur á borð neytenda verða ekkert lakari þó að varan væri unnin á Selfossi í stað þess að hún sé unnin hér í Reykjavík.

Í öðru lagi var það kostnaðurinn. Þar er eflaust dálítill munur, en það eru ekki sömu rök nú og áður voru þegar þessi vinnsla var sett niður hér í Reykjavík. Við búum við allt annað vegakerfi í dag og eins og ráðh. nefndi sjálfur hafa tækniframfarir í flutningi matvæla orðið til þess að þarna er ekki sá munur sem áður var.

Ég skora á ráðh. að skoða tölur um atvinnuleysi í Suðurlandskjördæmi núna og gera þarna verulegt átak á meðan hann hefur tækifæri til.