29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

62. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 62 hef ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur borið fram till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að sjá til þess að í kjarasamningum ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja verði starfsreynsla við ólaunuð heimilisstörf, hafi þau verið aðalstarf starfsmanns, framvegis metin á sama hátt og starfsreynsla hjá opinberum aðilum við ákvörðun um aldurshækkanir starfsmanna. Jafnframt verði tryggt að þeir starfsmenn, sem nú falla undir kjarasamning ríkisins og BSRB, njóti þessa réttar sé hann þeim ekki þegar tryggður.“

Í grg. með till. segir, með leyfi forseta:

„Tillagan miðar að því að hið opinbera sem atvinnurekandi meti til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf sem unnin eru launalaust á heimilum landsins. Hún felur í sér að þeir sem hafa haft ólaunuð heimilisstörf að aðalstarfi njóti sama réttar til starfsaldurshækkana og þeir sem fengið hafa starfsreynslu sína við launuð störf hjá hinu opinbera ráðist þeir sem heimilisstörf hafa stundað til launaðra starfa hjá ríki eða sveitarfélögum. Tillagan tekur einnig til þeirra opinberra starfsmanna sem rétt ættu til starfsaldurshækkana skv. till. en hafa ekki þegar notið fullra starfsaldurshækkana.

Í aðalkjarasamningi ríkisins og BSRB eru nú ákvæði um starfsaldurshækkanir á þann veg að til fulls starfsaldurs teljist sá tími sem starfsmaður hefur tekið laun skv. launakerfi opinberra starfsmanna og unnið hjú ríki, sveitarfélögum og stofnunum sem styrktar eru af almannafé. Það er einnig ljóst af samningum að ráðist húsmóðir án starfsreynslu til starfa hjá hinu opinbera tekur það hana fimm ár að ná þriðja launaþrepi þess launaflokks sem hún tekur laun skv. nema hún sé 32 ára eða eldri þegar hún hefur störf hjá hinu opinbera.

Tillagan miðar að því að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að hið opinbera meti jafngilda starfsreynslu við ólaunuð heimilisstörf og þá reynslu sem störf á vegum hins opinbera veita til starfsaldurshækkana. Í till. er því gert ráð fyrir að hið opinbera viðurkenni starfsreynslu við heimilisstörf án tillits til eðlis þess starfs sem unnið er hjá hinu opinbera. Það skal einnig tekið fram að starfsmaður telst hafa heimilisstörf sem aðalstarf á meðan hún eða hann gegnir ekki hálfu starfi eða meira úti á vinnumarkaðinum.

Í heimilisstörfum felst margvísleg reynsla sem ekki nýtist síður við launuð störf en almenn reynsla fengin á vinnumarkaðinum. Má þar nefna þætti eins og frumkvæði, sjálfstæði, ábyrgð og meðferð fjármuna, en það eru þeir þættir í launuðum störfum sem einna hæst eru metnir til launa á vinnumarkaðinum. Í annan stað sæta þeir sem inna af hendi ólaunuð heimilisstörf stórlega skertum ævitekjum miðað við þá sem geta óhindrað gegnt launuðum störfum falla starfsævi sína. Í þessu er m.a. fólgin efnahagsleg mismunun kynjanna, en í langflestum tilvikum eru ólaunuð heimilisstörf unnin af konum. Það kemur þó vitaskuld ekki í veg fyrir að karlar, sem sinna ólaunuðum heimilisstörfum sem aðalstarfi, njóti þeirra réttinda sem tillagan kveður á um.

Ekki liggja fyrir neinar tölur sem sýna fram á hversu þjóðhagslega mikilvæg heimilisstörf eru. Fæstum blandast þó hugur um að heimilisstörf eru ekki síður mikilvæg en önnur störf sem unnin eru í þjóðfélaginu. Till. er því réttlætismál og gefur tilefni til að sýna í verki, þó í litlu sé, að ríkið meti í raun einhvers þjóðhagslegt mikilvægi ólaunaðs vinnuframlags kvenna.“

Virðulegi forseti. Kjaramál opinberra starfsmanna voru ofarlega á baugi á s.l. hausti. Í þeim kjarasamningum, sem BSRB og ríkið gerðu þá, náðist því miður ekki leiðrétting á því kynbundna launamisrétti sem viðgengst í þessum hópi launafólks rétt eins og annars staðar á vinnumarkaðinum. Ef við skoðum aðeins skiptingu kvenna og karla í launaflokka hjá hinu opinbera, þá voru í janúar 1983 2429 konur og 1567 karlar í starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þar af voru 2017 konur eða um 90% þeirra í 15. launaflokki eða neðar á meðan aðeins 870 karlar, eða um helmingur karlanna, voru í þessum launaflokkum. Þessar tölur eru framreiknaðar miðað við hell stöðugildi.

Í janúar 1984 voru 1451 kona og 845 karlar í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Þar af voru 1227 konur eða 84% þeirra í 16. launaflokki eða neðar á meðan aðeins 57% karlanna voru í þessum launaflokkum. Konurnar eru sem sagt í miklum meiri hluta í lægstu launaflokkunum og er þessi kynbundna skipting í launaflokka vísast ekki eðlileg miðað við vinnuframlag, starfsreynslu og gildi starfa þeirra sem í hlut eiga. En þótt skiptingin sé ekki eðlileg á hún sér skýringar. Vil ég hér aðeins nefna tvær meginskýringar þótt fleiri megi tína til.

Í fyrsta lagi eru þau störf sem konurnar inna af hendi, svo sem fósturstörf og matseld svo að dæmi séu tekin, metin lægra til launa en störf karlanna og því skipa konurnar lægri launaflokkana. Á síðasta þingi var flutt frv. til l. um endurmat á störfum láglaunahópa, sem tekur beint á þessum þætti málsins. Frv. fékk ekki afgreiðslu fyrir þinglausnir. Þetta frv. hefur nú verið endurflutt á þessu þingi og tel ég ákaflega brýnt að það nái fram að ganga sem fyrst svo að hægt verði að taka á starfsendurmatsmálum í heild sinni eins og eðlilegast er.

þáltill. sem ég er hér að mæla fyrir tekur ekki til starfsendurmats í heild, en tengist því þó þar sem í henni er lagt til að heimilisstörf verði metin sem störf og að þeir sem þau inna af hendi fái þau metin sem starfsreynslu ef viðkomandi ræður sig til starfa hjá hinu opinbera.

Önnur meginskýring þess að konur skipa í miklum meiri hluta lægstu launaflokkana hjá hinu opinbera jafnt sem annars staðar er sú, að starfsævi kvenna úti á vinnumarkaðinum er að jafnaði styttri en karla þar sem þær eru venjulega bundnar börnum og heimilishaldi einhvern hluta ævinnar og geta ekki sinnt störfum úti á vinnumarkaðinum í jafnmiklum mæli og karlar. Af þessu leiðir að starfsaldur þeirra á vinnumarkaðinum er styttri en karla og launin því einnig lægri þess vegna. Jafnframt þýðir þetta að konur geta síður beitt sér úti á vinnumarkaðinum og unnið sig upp í launum þótt hugur standi til. Á þessum þætti málsins tekur sú þáltill. sem ég er hér að mæla fyrir beint þar sem í henni felst að sá tími ævinnar sem konur verja fyrst og fremst til heimilisstarfa nýtist þeim til starfsaldurshækkana ef þær ráða sig til starfa hjá hinu opinbera. Starfsævi þeirra í heild er þá metin, en ekki aðeins sá hluti hennar sem þær verja í launuðum störfum úti á vinnumarkaðinum. Till. er því í rauninni tvíþætt. Annars vegar felur hún í sér að heimilisstörfin séu metin eins og hvert annað starf. Hins vegar að starfsævi þeirra sem um ræðir sé metin í heild, en ekki aðeins hluti hennar eins og nú er.

Það skal tekið fram að þótt konur séu mikill meiri hluti þeirra sem stunda heimilisstörf sem aðalstarf, þá ná þau réttindi sem till. kveður á um vitaskuld einnig til þeirra karla sem það gera. Það skal einnig tekið fram að þó að réttindi þau sem till. kveður á um nái aðeins til opinberra starfsmanna, af þeirri einföldu ástæðu að ríkið er viðsemjandi þeirra en ekki annars launafólks, er það von flm. að samþykkt þessarar till. komi einnig til með að koma öðru launafólki til góða, að önnur samtök launafólks geti á grundvelli till., yrði hún samþykkt, samið um sambærileg réttindi sér til handa.

Þess ber einnig að geta að það fyrirkomulag við starfsmat, sem till. kveður á um, hefur sums staðar þegar verið tekið upp að einhverju leyti. T.d. gerði bæjarstjórn Akureyrar eftirfarandi bókun á fundi sínum 20. júní 1984, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn hefur á fundi sínum í gær gert eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að frá og með 19. júní 1984 skuli starfsreynsla heimavinnandi húsmóður í tvö ár eða meira metin til starfsaldurshækkunar í allt að fjögur ár við nýráðningar í Akureyrarbæ. Bæjarstjórn felur kjaranefnd að móta nánari tillögur í þessu máli og leggja fyrir bæjarráð.“

Svo að annað dæmi sé tekið, þá er í gildandi kjarasamningum Kópavogskaupstaðar og Starfsmannafélags Kópavogskaupstaðar svohljóðandi sérákvæði og er það 27. gr. samningsins:

„Starfsmaður, sem haft hefur heimilisstörf sem aðalstarf minnst fjögur ár, fái þau metin til starfsaldurs.“ Þá er þar til að taka að við gerð sérkjarasamnings

Starfsmannafélags ríkisstofnana, sem undirritaður var 8. des. s.l. , var samþykkt að meta til starfsaldurs öll almenn störf, þar með talin heimilisstörf, til starfa sem raðað er í 6.–8. launaflokk. Hér er, eins og í hinum dæmunum sem ég nefndi, kominn vísir að þeirri tilhögun við starfsmat sem þessi þáltill. kveður á um, nema hvað öll dæmin sem ég hef hér nefnt ganga mun skemmra í þá átt að meta heimilisstörf til starfsreynslu en gert er ráð fyrir í till.

Fleiri dæmi um samningsákvæði í þessa veru eru fyrir hendi bæði hjá opinberum starfsmönnum og hjá öðru launafólki. Miðar þessi þáltill. því einnig að því að ákvæði þessi verði samræmd hvað opinbera starfsmenn varðar, færð til sanngjarnara horfs og að allir hópar opinberra starfsmanna njóti þessara réttinda.

Herra forseti. Fæstum blandast hugur um mikilvægi heimilis- og uppeldisstarfa og gildi þeirra fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og fyrir þjóðarbúið í heild. Hér er um störf að ræða sem sennilega verða seint að fullu metin til fjár. Sú verðmætasköpun, sem fram fer á heimilum landsins, er einfaldlega ómetanleg. Að meta heimilisstörf til jafns við önnur störf, hver svo sem þau eru, eins og till. kveður á um er að mínu viti lágmarksmat á heimilisstörfum hverju sinni. Því má heldur ekki gleyma að heimavinnandi fólk sparar ríki og sveitarfélögum ótæpilega fjármuni á ári hverju og einnig þess vegna er það réttlætismál að þessir sömu aðilar meti þessi störf einhvers þegar þetta fólk ræður sig til starfa hjá ríki og bæ.

Að öllu samanlögðu er hér um réttlætismál að ræða, réttlæti í garð þeirra sem eru meðal þeirra réttindaminnstu í þessu þjóðfélagi. Framlagning þessarar till. gefur tilefni til að sýna í verki, þótt í litlu sé, að við metum einhvers það vinnuframlag sem innt er af hendi launalaust á heimilum landsins.

Herra forseti. Að loknum fyrri hluta þessarar umr. óska ég eftir að till. verði vísað til hv. allshn. Sþ.