22.10.1984
Efri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

63. mál, fjarvistarréttur foreldra

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. er lagt hér fram. Það er reyndar í annað skipti, það var lagt hér fram í fyrra líka. Ég styð þetta frv. þar sem það eykur jöfnuð á milli manna og aðstöðu. Það er ekki tilviljun að starfsmannafélagið Sókn varð fyrst til þess að fá þetta inn í samninga því að þetta skiptir mestu máli fyrir konur. En ég vil samt gera nokkrar athugasemdir við þetta frv. Í stað þess að hafa í 2. gr. allt að einni viku árlega mundi ég telja hyggilegra að hafa sjö vinnudaga vegna þess að þetta er teygjanlegt orðalag og getur þýtt fimm vinnudaga, allt að einni viku. Vinnuvika er í reynd fimm vinnudagar. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þess að við fengum þessu breytt í samningum úti á landi þar sem við rákum augun í það á sínum tíma að þetta væri hægt að túlka á tvo vegu.

Annað stórt atriði er að þessi lagaheimild nái einnig til fólks sem vinnur hlutastörf. Eins og okkur ætti öllum að vera ljóst er meginástæða fyrir því að konur sækjast eftir hálfum stöðum sú að þær annast barnauppeldi. Er því mjög brýnt að það starfsfólk sem vinnur hlutastörf fái hlutfallslega sama rétt. Þetta eru þær tvær meginathugasemdir sem ég hef við þetta frv. að gera eins og það liggur hér fyrir, enda er tekið fram að eitt vinnuár sé hér skilgreint sem a.m.k. 1550 vinnustundir á seinustu 12 mánuðum. Það gerir þess vegna þeim sem stunda hálfa vinnu ókleift að sækja þennan rétt.