29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

62. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími Sigfússyni, sem harmaði það hversu fáir þm. sætu hér undir þessum umr. Það hafa verið hér auk þm. Kvennalistans allt frá einum og upp í þrjá þm. mestan hluta umræðunnar og svo ráðherra auk tveggja embættismanna þingsins. En mig langaði í stuttu máli, því að efnisleg umr. hefur áður farið fram af hálfu flm. þessarar till., að lesa fyrir ykkur auglýsingu. Á vinnustöðum hanga oft uppi hnyttilegar og skondnar tilkynningar, yfirlýsingar eða auglýsingar. Oftast er þetta trúlega gert að gamni sínu, en þó ekki síður hygg ég vegna þess, að í þeim leynast sannleikskorn sem skipta máli.

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á auglýsingu sem fest var upp á vegg á vinnustað þar sem ég átti leið um. Þótti mér hún full af slíkum sannleikskornum. Hún hafði að vísu yfirskriftina „Óbirt auglýsing“, en því ætla ég að lesa hana hér að hún lýsir að nokkru því starfi sem hér er lagt til að verði metið til starfsreynslu eins og önnur:

„Óbirt auglýsing.

Starfskraftur óskast til þess að líta eftir fullorðnum manni, börnum og skemmtilegu heimili.

Umsækjandi verður að vera 100% áreiðanlegur, hraustur og fús til að gefa hug og hjarta í starfið. Umsækjandi verður að vera ljúfur, ástríkur, kátur, þolinmóður, hafa tilslökunarhæfileika og mikla kímnigáfu. Góð heilsa og mikið líkamsþol afar æskilegt. Hæfur umsækjandi verður í byrjun starfsferils síns að geta rækt starfið óaðfinnanlega þrátt fyrir truflun á nætursvefni. Skipulagshæfileikar eru nauðsynlegir en ekki samt höfuðatriði. Eðlisþættir eða góðir eiginleikar eru miklu þýðingarmeiri en hæfileikar á sérsviðum.

Vinnutími verður 24 klukkustundir á hverjum sólarhring, 7 daga vikunnar, 52 vikur ársins. Vinnutími styttist með árunum, en ábyrgð og skuldbindingar haldast til dauðadags. Frítími verður óviss. Veikindafrí nánast engin. Engin eftirlaun. Álit eða mannvirðing lítilfjörleg.

Fyrir réttan starfskraft verður umbun stórkostleg, en þó óáþreifanleg. Laun eða þóknun engin.“

Hve margir ykkar, hv. alþm., og ég harma það hversu fáir eru hér inni nú, mundu vilja sækja um slíkt starf ef það yrði auglýst? Og hve margir mundu sætta sig við það að fá ekki slíka reynslu, sem starfið gefur, metna sem starfsreynslu á almennum vinnumarkaði?