29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

130. mál, auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 134 um auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands. Með leyfi forseta hljóðar hún svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að efla og hraða rannsóknum á landgrunni Íslands, innan jafnt sem utan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar, með sérstöku tilliti til auðlinda sem þar kunna að finnast.“

Þessi till. var flutt á síðasta þingi en hlaut þar ekki endanlega afgreiðslu og því er hún endurflutt nú.

Í umr. sem fóru hér fram áðan gat hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, þess að allmikið skorti á að til væru frá hendi Landmælinga og annarra aðila nægilega ítarleg kort af Íslandi. Það má hins vegar segja að við höfum nánast engin kort og ákaflega takmarkaða vitneskju um þær víðu lendur sem liggja utan landsins sjálfs, þ.e. innan 200 s ómílna lögsögu Íslands. Það svæði hefur verið hluti af Íslandi frá því að lög nr. 41/1979 voru sett og raunar hafsvæðið allt frá því að reglugerð var sett um 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi 1975.

En við vitum sáralítið um þetta svæði. Það er nánast ókannað og ónumið af okkar hálfu. Hér er þó ekki um neitt smáræðis svæði að ræða heldur ákaflega víðlend lönd. Landgrunnið umhverfis Ísland út að mörkum 200 sjómílna efnahagslögsögunnar er hvorki meira né minna en 753 þús. km3 að stærð eða sjö sinnum stærra en landið sjálft. Það er um þetta svæði sem þessi till. fjallar. Þar er fram tekið að hin mesta nauðsyn sé á því að við hefjum kannanir og rannsóknir á þessu svæði. Nánast engar slíkar kannanir hafa farið fram þar hingað til svo unnt sé að komast að því hvaða verðmæti, hvaða auðlindir þar kann að vera að finna.

Tilgangur þessarar þáltill. er tvíþættur. Í fyrsta lagi að kanna svæðið með tilliti til þess að skv. hafréttarsáttmálanum, sem undirritaður var í des. 1982, eiga ríki veraldar ekki aðeins tilkall til hafsbotnsins eða landgrunnsins út að 200 sjómílna mörkunum, heldur í ýmsum tilvikum, þegar viss jarðfræðileg skilyrði eru fyrir hendi, verulega langt út fyrir þessi mörk, jafnvel út að 350 sjómílna mörkunum. En til þess að svo megi verða, til þess að ríki geti haldið fram þeim rétti sínum út að 350 sjómílna mörkunum verður það að leggja fram ítarlegan jarðfræðilegan rökstuðning sem hlýtur að byggjast á vísindarannsóknum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Íslendingar hafa haft í huga að afla sér réttinda utan 200 sjómílnanna, fyrst og fremst í suðausturátt. Hér á hinu háa Alþingi hafa verið gerðar samþykktir í þá veru, þ.e. um réttindi Íslendinga til hafsbotnssvæðanna suður að hinu svokallaða Rockall-svæði. Réttindi ríkja utan við 200 sjómílurnar, allt að 350 sjómílna mörkunum, byggjast á því að hér sé um jarðfræðilegt framhald landsins að ræða og slíkar kröfur byggjast einnig á öðrum jarðfræðilegum þáttum landgrunns og hafsbotns. Af þessum sökum er því hin mesta nauðsyn á því að aflað sé sem gleggstrar vitneskju um landgrunnið á hafsbotninum umhverfis Ísland svo unnt sé að styðja kröfur um landgrunnsréttindi utan 200 sjómílna markanna, en þar er fyrst og fremst um að ræða svæðið í suðausturátt eins og ég sagði áðan.

Hér er þar að auki um grundvallarrannsóknir að ræða sem hverri þjóð er nauðsynlegt að framkvæma, og þá ekki síst Íslendingum sem hér eiga verulegra hagsmuna að gæta. Slíkar rannsóknir á íslenska landgrunninu hafa til þessa aðeins átt sér stað í mjög takmörkuðum mæli. Það er því nauðsyn á því að gerð verði rannsóknaráætlun til nokkurra ára þar sem fjallað verði um öflun aukinnar almennrar grundvallarþekkingar á landgrunninu og hafsbotninum umhverfis landið, jafnt utan 200 sjómílna markanna sem innan þeirra. Er eðlilegt að leitað verði samvinnu við erlendar vísindastofnanir um slíkar rannsóknir, en alþjóðasamvinna á þessum vettvangi hefur farið mjög vaxandi hin síðari ár eins og menn þekkja.

Þetta sem ég var nú að nefna: upplýsingar og alhliða þekkingu á íslenska landgrunninu, og raunar einnig á svæðinu utan við 200 mílurnar, er fyrra markmið þessarar þáltill.

Hér er um nauðsynlegan og óhjákvæmilegan fróðleik að ræða sem verður að vera til staðar ef unnt á að vera á nokkurn hátt að undirbyggja þær kröfur sem fram hafa komið, m.a. í ályktunum Alþingis, í þessu efni. Ella verður þeim fleygt til hliðar eins og laufblöðum á haustdegi, ef þær eru ekki rökstuddar á sæmilegan máta. Það ber að leggja slíkar kröfur ekki aðeins fyrir hlutaðeigandi ríki heldur einnig fyrir svokallaða landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um þær. Það er á grundvelli rökstuðnings sem hún gefur álit sitt og kveður upp úrskurði sína.

Síðara markmið þessarar þáltill. víkur að hinum beinu efnahagslegu gæðum sem finnast kunna í íslenska landgrunninu. Þar er bent á nauðsyn þess að hefja sem allra fyrst rannsóknir á landgrunninu með vinnslu auðlindanna, sem þar kunna að finnast, fyrir augum. Það má segja að þessi liður sé að því leytinu til praktískari en sá fyrri, sem víkur meira að fræðilegu hliðinni.

Það er nauðsynlegt að ganga úr skugga um það sem fyrst hvaða auðlindir kunna að finnast á þessu svæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft. Eins og menn vita hafa slíkar rannsóknir verið af ákaflega skornum skammti. Þar hefur fyrst og fremst hamlað skortur á fjármagni og tækjakosti. Einn helsti áfanginn var könnun sem bandaríska fyrirtækið Western Geophysical Co. of America gerði á setlögum fyrir norðan Ísland árið 1978. Um þessar rannsóknir og aðrar gaf iðnrh. Alþingi skýrslu 10. janúar 1980. Þarna fóru fram mælingar og kannanir á landgrunninu út af Norðurlandi. Þar var þá mæld þykkt setlaga og er þetta eina umfangsmikla könnunin, sem fram hefur farið, en hún tók að vísu til takmarkaðs svæðis.

Mæld var þykkt setlaga á sjávarbotninum norðan við landið á fjórum mælilínum. Miðlínan út frá landinu reyndist einna áhugaverðust með tilliti til setlaga. Í niðurstöðu þessara rannsókna kemur fram setlagalægð út af Eyjafirði og Skjálfanda um 200 km löng og með hámarksþykkt setlaga sem var um 4000 metrar. En tilvist setlaga er vísbending um að um olíu og jarðgas geti verið að ræða. Ástæða er þó til að undirstrika að það er vitanlega engin sönnun, þó setlög finnist, að um þessi verðmætu jarðefni sé þar að ræða. Sjávardýpi er þarna hins vegar hvergi meira en 400 metrar.

Þessar rannsóknir voru taldar lofa allgóðu. Hér var um miklu þykkari setlög að ræða en menn höfðu haft hugmynd um áður að væru þarna fyrir hendi.

framhaldi af þessu starfi hins erlenda félags skilaði nefndin, sem um þessi mál fjallaði, iðnrh. tillögum um umfangsmikla þriggja ára rannsóknaráætlun á setlögum umhverfis Ísland. Þær voru umfangsmestar á hinum svokallaða Skjálfandadal, því svæði sem ég var að nefna, en einnig var þar um að ræða frumrannsókn á suðurhluta Jan Mayen-hryggjar.

Það fékkst ekki nema mjög takmörkuð fjárveiting skv. fjárlögum, 20 millj. gkr., og þessi fjárveiting náði ekki til þess að framkvæma nein meiri háttar áform. En í þessu sambandi er þó ástæða til að geta þess að rannsóknir fóru aftur fram á Skjálfandasvæðinu 1981 að tilstuðlan nefndar þar sem Orkustofnun var framkvæmdaraðili, jarðfræðirannsóknir í Flatey, á Flateyjardal og við Húsavík. Þessar athuganir bentu til þess að líkur væru á að setlögin, sem einna þykkust eru úti fyrir mynni Eyjafjarðar en ná austur á Skjálfandasvæðið, væru einnig undir Flatey. Þessar rannsóknir gáfu til kynna að skynsamlegt kynni að vera að bora í Flatey til þess að kanna nánar undirstöðu eyjarinnar og þau setlög sem þar væri að finna.

Þáv. iðnrh., hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, fól síðan Orkustofnun að framkvæma sérstaka rannsóknarborun í Flatey á Skjálfanda sumarið 1982 til þess að kanna hugsanleg setlög. Þar var borað og fengnir borkjarnar. Rannsóknarholan var 554 metra djúp og með þáverandi búnaði var ekki hægt að ná lengra niður. Til þess að ganga úr skugga um tilvist kolvetna í setlögum þar nyrðra þarf þó að bora niður á 200 metra dýpi. En setlögin eru þar 4000 metrar á þykkt. Það má segja að þetta sé að vissu leyti einkennandi fyrir sögu þessara mála á liðnum árum. Það hafa verið gerðar mjög virðingarverðar tilraunir af hálfu stjórnvalda, en bæði fjármagn og tækjakostur hefur verið af svo skornum skammti að við höfum ekki getað gengið úr skugga um hvað þarna er raunverulega að finna. Það er kominn tími til þess að á því verði breyting.

Í þessu sambandi má nefna að gerður var samningur við Norðmenn um kannanir á landgrunninu milli Íslands og Jan Mayen. Þessi samningur var gerður við Norðmenn 1981 og gekk í gildi 2. júní 1982. Samkvæmt honum eiga Norðmenn að framkvæma setlagakannanir á þessu svæði, sem er talið einna líklegasta olíusvæðið, um það bil mitt á milli Jan Mayen og Íslands, og munu sjálfir greiða kostnað af þeim könnunum. Þær munu fara fram í sumar. Og eftir því sem ég best veit er hér um að ræða einu kannanirnar á landgrunninu við Ísland, með tilliti til leitar að hagnýtum jarðefnum, sem nú eru í bígerð.

En það leiðir af sjálfu sér að hér þurfum við að snúa við blaðinu. Meginatriði þessa máls er það að hér verður að verða á breyting og þessum málum verða stjórnvöld að gefa mun meiri gaum en verið hefur hingað til. Er ég þó ekki að lasta það sem hefur verið gert í þessum efnum og ég vék að hér áðan.

Hér á landi starfa fallmargir vísindamenn sem menntun hafa til slíkra rannsókna, en þá hefur skort starfsaðstöðu og rannsóknartæki og fjármagn til starfa á þessu sviði. Þá er og sjálfsagt að hefja nýja og nánari samvinnu við erlenda rannsóknaraðila um auðlindaleit hér við land auk Norðmanna. Þannig var málið 1978 þegar hið bandaríska leitarfyrirtæki fékk heimildina, sem veitt var af þáverandi ríkisstjórn og iðnrh., dr. Gunnari Thoroddsen, að hin erlendu leitarfélög fjármagna sjálf slíka frumleit. Í sjálfu sér þurfum við því ekki að leggja fram fjármagn úr ríkissjóði til slíkrar frumleitar heldur eru það hin erlendu félög sem það gera. Ýmsar umsóknir hafa borist um slíkt. Ég tel það alveg sjálfsagt að verða við slíkum umsóknum, eftir að þær hafa verið rækilega skoðaðar, svo að unnt sé að hefja hér fyrstu aðgerðir án þess að þurfi að koma til sérstakra fjárútláta Íslendinga. Vitanlega er nauðsynlegt, eins og var í leiðangrinum fyrir Norðurlandi 1978, að íslenskir vísindamenn fylgist með málum, séu þátttakendur í þessum leiðöngrum og fái allar þær niðurstöður sem þar finnast. Það er því markmið þessarar þáltill. að hvetja til skjótra aðgerða í þessum mikilvægu málum. Það er full ástæða til þess að kanna sem fyrst hvaða auðlindir þar kunna að leynast. Við vitum það ekki enn. Það má vera að þær séu litlar sem engar. Það má einnig vera að hér sé um að ræða búhnykk sem miklu máli gæti skipt í þeirri erfiðu efnahagsaðstöðu sem þjóðin á í og mun sennilega eiga í nokkur næstu árin.

Eins og sakir standa er hér ekki um að ræða skipulegt starf á þessu sviði þó að hér starfi raunar nefnd, svokölluð landgrunnsnefnd, að þessum efnum undir forustu deildarstjóra Orkustofnunar. En við höfum ekki mótaðar rannsóknaráætlanir. Á þessu þarf að verða breyting og með þessari till. er einmitt hvatt til þess að svo megi verða.

Ég legg til að till. verði að loknum þessum hluta umr. vísað til allshn.