29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

144. mál, innlendur lyfjaiðnaður

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Meðflm. mínir þar eru Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Ragnar Arnalds. Með leyfi herra forseta vil ég lesa till.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd til þess að kanna helstu möguleika á eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Heilbrrh. skipar formann nefndarinnar.

Nefndin skal kanna aukningu á framleiðslu lyfjaforma úr erlendum hráefnum, sem gætu komið í stað erlendra sérlyfja, með það að markmiði að lækka lyfjakostnað. Enn fremur skal nefndin kanna aukningu á framleiðslu „náttúrumeðala“, þar með talinna lyfjaforma sem í eru vítamín og steinefni, úr erlendum hráefnum.

Einnig skal nefndin kanna þá möguleika, sem eru hér á landi, til þess að framleiða hráefni til lyfjagerðar úr innlendum eða erlendum frumhráefnum.“

Að undanförnu hafa farið fram allmiklar umræður í þjóðfélaginu um nauðsyn þess að efla nýjar atvinnugreinar og við höfum heyrt hér frásagnir og yfirlýsingar um stofnun nýs sjóðs, svonefnds Þróunarsjóðs, sem hafa mun undir höndum um 500 millj. kr. til úthlutunar til nýrra þróunarverkefna til þess að örva, efla og auka atvinnustarfsemi í landinu. Allt er þetta mjög góðra gjalda vert. Þar hefur ýmis iðnaður verið nefndur, svo sem örtölvuiðnaður, líftækniiðnaður og annað slíkt.

Ekki skal ég lasta það að lagt sé út á nýjar brautir, svo sem í þessum tveimur greinum svo dæmi séu tekin, og undirbúinn jarðvegurinn í þeim efnum svo að þessar megi verða öflugar atvinnugreinar er fram líða stundir. En það er greinilegt að allmörg ár munu líða þar til uppbygging hefur farið fram svo að arðgjöf verði orðin nokkur. En þegar menn velta fyrir sér hvernig byggja má upp íslenskt atvinnulíf á nýjan hátt ættum við að mínu viti einnig að líta okkur nær og gefa gaum að því á hvern hátt við getum byggt betur upp þann iðnað sem þegar hefur náð fótfestu í landinu, þar sem fyrir hendi er innlend þekking og undirstaðan hefur þegar verið lögð og fjármagn er þegar nokkurt fyrir hendi.

Dæmigerð iðngrein í þessum efnum er innlendur lyfjaiðnaður. Hann gegnir þegar allþýðingarmiklu hlutverki á sínu sviði þó svo að hann framleiði enn ekki nema brot af þeim lyfjum sem landsmenn nota. Það liggur beint við að efla þessa iðngrein þannig að hún verði fær um að framleiða miklu stærri hluta af lyfjanotkun landsmanna, bæði með það fyrir augum að lækka lyfjaverðið og einnig að skapa við þetta atvinnu sem af sjálfu sér mundi leiða.

Hér á eftir mun ég m.a. vitna í upplýsingar frá dr. Vilhjálmi Skúlasyni prófessor sem birtist í grg. með þessari till.

Frá upphafi lyfjagerðar hér á landi og til skamms tíma hefur framleiðsla lyfjaforma ýmissa eingöngu farið fram í lyfjabúðum. Með þeim öru breytingum, sem orðið hafa á rannsóknum og þróun nýrra lyfja og lyfjaforma á síðustu áratugum, og ekki síður þeim vaxandi kröfum sem gerðar eru til lyfja, hefur þessi framleiðsla nú flust úr lyfjabúðunum að miklu leyti yfir í lyfjaverksmiðjur.

Hér á landi hefur þessi breyting einkum átt sér stað á síðustu einum til tveimur áratugum. Er nú svo komið að nokkur fjöldi innlendra sérlyfja er skráður í sérlyfjaskrá, en framleiðsla lyfjaforma úr erlendum hráefnum hér á landi leiðir til mikillar verðmætaaukningar. Hún á einnig að geta leitt til lækkaðs lyfjaverðs hér á landi ef rétt er á málum haldið þar sem kynningar- og rannsóknarkostnaður ætti að vera mun lægri hér á landi en erlendis en þar er hann talinn nema allt að 30%. Er þó gengið út frá álitlegum hagnaði, eða allt að 10% af heildarkostnaði.

Ef við lítum á stöðu þessa iðnaðar í dag, sem mjög lítill gaumur hefur raunverulega verið gefinn í allri umræðu, þá mun láta nærri að miðað við verðgildi nemi innlendur lyfjaiðnaður nú nær 25% af heildarlyfjanotkun landsmanna, eða um 200–250 millj. kr. á núverandi verðlagi. Svo að dæmi sé tekið voru framleiddar hér á landi árið 1983 53 millj. ýmiss konar lyfjataflna og um 200 tonn af öðrum lyfjum. Við höfum nú yfir að ráða nær 25% lyfjamarkaðarins í innlendri framleiðslu. Það er ekki óraunhæft, eftir því sem sérfræðingar telja, að þetta hlutfall gæti numið 50–60% af heildarverðmæti lyfja þegar fram líða stundir.

Einnig er hægt að gera ráð fyrir að hérlendis mætti framleiða lyf til útflutnings, einkum ef leitað yrði eftir mörkuðum þar sem lyfjaviðskipti og upplýsingar um gæði lyfja gætu byggst á gagnkvæmu trúnaðartrausti. Eru þá fyrst og fremst höfð í huga lönd sem ekki hafa öflugu lyfjaeftirliti á að skipa, ýmis þróunarlönd sem reynslan hefur sýnt að treysta Norðurlöndunum betur í þessum efnum en ýmsum öðrum þróuðum ríkjum þar sem gróðahagsmunirnir hafa setið um of í fyrirrúmi. Eru nokkur dæmi slíks alþekkt en ég hirði ekki um að rekja þau hér.

Það er í sjálfu sér af mörgu að taka. En eitt af því sem fjallað er um í þessari þáltill. og rétt er að vekja athygli á er framleiðsla svonefndra „náttúrumeðala“. Á síðustu áratugum hefur mjög vaxið viðleitni til þess að stunda svokallaðar „sjálflækningar“. Hér er um að ræða ýmis lyf sem hægt er að afla án lyfseðils, eins og vítamín margs konar, svo og lyf sem hafa verið kölluð á íslensku „náttúrumeðul“. Í þessum lyfjaformum eru venjulega mismunandi blöndur af vítamínum, steinefnum og svonefndum „drógum“, en það eru jurta- eða dýrahlutar sem í eru lyf. Þessi lyfjanotkun hefur rutt sér mjög til rúms á undanförnum árum. Fjölbreytni þessara „meðala“ er mjög mikil og láta mun nærri að fjöldi þeirra vörutegunda úr þessum flokki, sem heimilt er að selja hér á landi, sé um 500.

Smásöluverðmæti þessara „meðala“ á s.l. ári var áætlað um 35 millj. kr. og var um 1/20 af verðmæti allra lyfja sem þá voru notuð í landinu. Þetta er rakin leið því hér er um að ræða efni sem eru að allmiklum hluta til innlend.

Í þessu samhengi má einnig minna á að sú tækni, sem notuð er til framleiðslu lyfjaforma, gæti einnig nýst til framleiðslu á formum sem gætu hentað vel til þess að flytja matvæli á sem ódýrastan og hentugastan hátt um langan veg, t.d. til þróunarlanda. Er þá hjálparstarfið í Eþíópíu ofarlega í hugum manna. Má nefna sem dæmi framleiðslu próteintaflna úr fiskimjöli eða lýsi í matarlímshylkjum sem hvort tveggja eru innlend hráefni. Með þessum hætti væri að öllum líkindum hægt að lækka flutningskostnað og einnig væri á auðveldan hátt hægt að haga samsetningu þessarar vöru í samræmi við mismunandi þarfir neytenda þar eð einingaframleiðsla er það sem m.a. einkennir framleiðslu lyfjaforma.

Þar að auki má minna á þriðja þáttinn, framleiðslu hér á landi á dýralyfjum. Það er mikið notað af þeim hér, svo mikið landbúnaðarland sem Ísland enn er, og dýralyf er einnig hægt að framleiða hérlendis í auknum mæli úr erlendum hráefnum. Má þar nefna sem dæmi ormalyf, sermi og bóluefni handa sauðfé sem skipta miklu máli fyrir landbúnaðinn.

Það hefur verið mikil tíska á síðustu misserum að ræða um hina gífurlega miklu og björtu möguleika sem lífefnaiðnaðurinn er talinn eiga fyrir höndum hér á landi. En það vill gleymast að á sviði lyfjaiðnaðarins fer raunverulega fram í dag þó nokkur lífefnaiðnaður. Það er þess vegna full ástæða til að gefa honum meiri gaum og skjóta undir hann styrkari stoðum. Í umræðunum um lífefnaiðnaðinn hafa ýmsir gerhvatar eða lífhvatar, öðru nafni ensímar, verið nefndir í því sambandi, svo sem heparín og insúlín, sem hvort tveggja eru mjög mikilvæg lyf. Ýmsir gerhvatar eru notaðir sem lyf og auk þess hafa þeir mikið notagildi í framleiðslu og rannsóknum. Einnig má búast við að notkun heparíns fari fremur vaxandi en minnkandi, svo dæmi sé nefnt. En einnig er nauðsynlegt að líta á lífefnavinnslu í víðara samhengi, þar sem athugað yrði með verðmæti í þörungum sem vaxa við strendur landsins, úr galli fiska og sláturdýra, og ræktun verðmætra lyfjajurta í gróðurhúsum, auk þeirra innlendu hráefna sem áður var minnst á.

Ég hef þegar minnst á framleiðslu lyfjaforma úr erlendum hráefnum, en á henni byggist innlend lyfjaframleiðsla í dag. Sú verðmætaaukning annars vegar og gjaldeyrissparnaður hins vegar, sem þessi framleiðsla hefur í för með sér, fer mjög vaxandi.

Þá má nefna fjórða þáttinn að lokum, lyfjaframleiðslu eingöngu úr innlendum hráefnum sem er hér á byrjunarstigi. Þar eru ýmsir möguleikar fyrir hendi til að skapa verðmæt efnasambönd. Hér verður þá jafnframt að stunda þróunarvinnu og hún byggist m.a. á því að finna nýja möguleika á notkun efnasambanda og þar með ákveðið verðgildi. Þau frumhráefni sem hér á landi koma einkum til greina til lyfjagerðar eru fiskafurðir og landbúnaðarafurðir. Það er kannske ekki úr vegi að taka eitt dæmi þessu til áréttingar.

Mjólkurvinnsla er mikil hér á landi og hefur tekið stórstígum framförum á síðustu áratugum svo sem kunnugt er. Þessi vinnsla hefur í aðalatriðum verið framleiðsla rjóma, smjörs, skyrs og osta og skal ekki fjölyrt um það. Það er hægt að beita efnafræðilegum aðferðum til þess að vinna og breyta þeim fjölmörgu verðmætu efnasamböndum sem eru í mjólk og gera þau enn þá verðmætari.

Þegar fitan hefur verið skilin frá mjólkinni verður undanrennan eftir, en í henni er m.a. allt að 3% af próteinefni, kaseíni, og allt að 4,5% af sykri, sem kallaður er mjólkursykur. Kaseíni er hægt að breyta í efni sem tyrósín nefnist, sem er verðmæt amínósýra, en úr henni er hægt að framleiða levódópa með tveimur mismunandi aðferðum. Levódópa er eitt mikilvægasta lyf sem völ er á gegn Parkinsonssjúkdómi, en talið er að hann hrjái u.þ.b. 1% þeirra einstaklinga sem komnir eru yfir 50 ára aldur. Þetta eru aðeins lítil dæmi.

Úr mjólkursykrinum má vinna glúkósu. Þar kemur fram sorbítól, sem unnt er að breyta með örverufræðilegri aðferð, þ.e. lífefnafræðilegri aðferð, í ascorbínsýru eða c-vítamín, en allir vita hve mikið hún er notuð í lyfja- og matvælaiðnaði.

Hér eru því ýmsir möguleikar fyrir hendi þegar við ræðum um innlendan lyfjaiðnað. Það er góðra gjalda vert að ræða um nýjar iðngreinar og efla þær á allan hátt, ekki síst með þróunarsjóði eins og ég nefndi í upphafi máls míns. En við skulum þó ekki síður leggja hér á brattann um stuðning við þær iðngreinar sem þegar eru til í landinu. Þar er menntað starfsfólk fyrir hendi, eins og á sviði lyfjaiðnaðarins. Þar höfum við innlend hráefni sem vinna má í mun meira mæli. Takmarkið er að lækka verulega verð lyfja ef þau eru framleidd hér innanlands. Umræður um lyfjaverð hafa oft farið fram hér á þingi á undanförnum misserum. Það er nú æðihátt og full ástæða til þess að ná þar fram verulegum lækkunum. Þetta er ein áhrifaríkasta leiðin í því efni.

Að svo mæltu legg ég til að þessari þáltill. verði að umr. lokinni vísað til allshn.