29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

144. mál, innlendur lyfjaiðnaður

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mál þessu lík hafa áður komið til umr. á Alþingi eins og hv. flm. benti reyndar á hér áðan. Þetta mál er vissulega fullrar athygli vert og þarf virkilega að gera átak þar, þó margt hafi verið þar gert til bóta. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Ég tek alveg sérstaklega undir það með hv. flm. að það er nokkru nær okkur að huga að verkefnum af því tagi sem þessi till. fjallar um, þ.e. eflingu lyfjaiðnaðarins og lyfjaframleiðslunnar hér á landi, heldur en þau býsna fjarlægu verkefni sem maður heyrir mest talað um nú, sem eiga svo langt í land í þróun og öllum aðdraganda að við sjáum ekki árangur í þeim fyrr en eftir svona fimm ár, sérstaklega þegar menn eru nú að tala um það sem lausnir. (Gripið fram í.) Fimm til tíu ár, já, er kannske réttara að segja. Þá er auðvitað ólíkt nær okkur í tímanum og af atvinnulegri nauðsyn að huga að þessum þáttum heldur en jafnágætum þáttum og lífefnaiðnaðurinn og rafeindatæknin óneitanlega eru. En við skulum gera okkur grein fyrir því hvað langt er í land að þau skili okkur þeim atvinnutækifærum sem við erum að halda fram alltaf í öðru orðinu að þau muni gera.

Innlend lyfjaframleiðsla hefur átt um of örðugt uppdráttar. Þar hafa ýmis sjónarmið komið inn í. Hún þarf verulegan stuðning, hún þarf verulegan forgang að mínu viti og verulega verndun gegn innflutningi erlendis frá ef hún á verulega að njóta sín.

Ég ætti nú kannske ekki að vera að minna á það sérstaklega, en ég man það þó og er með það hér fyrir framan mig að á Alþingi var samþykkt 10. maí 1981 þál. um eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Þál. er að vísu stutt og fjallar um að fela ríkisstj. að skipa nefnd er fái það hlutverk að vinna að ítarlegum tillögum um eflingu innlends lyfjaiðnaðar. Þetta mun hafa verið í beinu framhaldi af ítarlegri till. til þál. um eflingu innlends lyfjaiðnaðar sem hv. þáv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson flutti ásamt nokkrum flokksbræðrum sínum og var í tíu liðum, en n. mun hafa skorið till. niður í þessa stuttorðu klausu sem ég nefndi hér áðan. Ég veit ekki annað en að nefndin hafi verið skipuð. Nú, það kann að vera að svo sé ekki. Ég veit að öðru leyti ekki um störf hennar og enn síður um árangur. Ég sé að hv. flm. hristir höfuðið og enginn er hér til andsvara frá hæstv. ríkisstj. um það hvort svo muni vera nema hæstv. sjútvrh., en ég efast um að hann hafi hugleitt þessi mál svo mjög eða farið það grannt ofan í þau að hann geti svarað því. En ef svo er ekki er vitanlega full ástæða til áherðingar af þessu tagi.

Ég hef áður talað fyrir þessu máli mjög fyrir daufum eyrum hér á Alþingi. Árið 1976 flutti ég till. til þál. um eflingu innlendrar lyfjaframleiðslu. Hún var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa frv. á þá lund að innlend lyfjaframleiðsla njóti forgangs umfram innflutt lyf sé hún fyllilega samkeppnisfær. Að því leyti sem innlend lyf eru talin jafngóð erlendum verði læknum lögð viss skylda á herðar að nýta þau umfram hin erlendu lyf. Jafnframt verði stuðlað að fjölbreyttari lyfjaframleiðslu en nú er.“

Ég man eftir því að undirtektir voru vægast sagt dræmar og till. fékk ekki afgreiðslu þó að hún væri flutt í tvígang. En ég minni á hana hér vegna þess að það er full ástæða til að hafa þessi mál stöðugt í athugun og stöðugt í gangi. Áhersla á þau er sjálfsögð og áherðing, og mun nú ekki af veita, einkum með tilliti til þess að menn eru að horfa til allt of fjarlægra verkefna í stað þess að einbeita sér að þeim sem liggja kannske beint við og geta vissulega skapað okkur ný atvinnutækifæri og um leið ný verðmæti ef við bara viljum og þorum.