29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

Umræður utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma þannig að það skapi að nokkru leyti þörf til þess að halda kvöldfund.

Það sem kom mér fyrst og fremst til þess að biðja um orðið var sú yfirlýsing hæstv. ráðh. að hægt væri að draga úr eða mundi verða dregið úr útflutningi gámafisks með því að skerða um 10% kvóta þess skips sem þann afla fiskaði. Stór hluti af þeim fiski sem fluttur er út með gámum er ekki fluttur beint með skipi, heldur frá þeim fiskvinnslustöðvum sem viðkomandi skip leggur upp hjá. Möguleiki til þess að flokka fiskinn fyrir þetta skip eða hitt er undir mörgum kringumstæðum ekki fyrir hendi í fiskvinnslustöðvunum. Þar af leiðandi eru ansi litlar líkur fyrir því að hægt verði að fylgja því út í ystu æsar að viðkomandi skip verði skert í kvóta vegna gámafisks.

Hins vegar kemur einkennilegt dæmi upp í sambandi við gámafiskinn nú á fyrstu mánuðum ársins, þ.e. í sambandi við þann línuafla sem fluttur verður út með gámum og hefur verið fluttur út undanfarið. Eins og hv. þm. er kunnugt um er helmingur aflans undanþeginn kvóta. Hvernig á þá að reikna frádráttinn með hliðsjón af þeim afla sem frá línubátunum kemur? Á það að vera 5% frádráttur eða hvað? Ég tel að það verði mjög erfitt að beita þessu ákvæði gagnvart skipum almennt og þar af leiðandi sé þetta ákvæði í reglugerðinni frekar léttvægt.

Í öðru lagi kom ég hér upp af því að hæstv. viðskrh. kom hér í salinn til að spyrja hann um það — það tengist ákveðið því máli sem hér er verið að ræða utan dagskrár — hvernig á því standi að ekki hafa verið leyfð afurðalán út á framleiðslu þessa árs. Eftir þeim upplýsingum sem ég fékk í dag mun ekki vera frá því gengið þannig að það verði næstu daga. Það er gefið undir fótinn með að slíkt muni eiga sér stað um mánaðamót, en eins hefur verið á málum haldið síðustu vikur. Það hefur verið gefið undir fótinn með að þetta verði á morgun, þetta verði eftir helgi o.s.frv. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. viðskrh. hver stjórni þessum vinnubrögðum. Það gefur auga leið að þegar viðkomandi frystihús getur ekki veðsett afurðir sínar dregur úr vilja þess til að hefja framleiðslu. Það eru miklar líkur fyrir því að vissir aðilar hafi ekki hafið framleiðslu, frystihús hér í Reykjavík og víðar, vegna þessara ákvarðana bankayfirvalda í landinu. Ég veit ekki til þess að slíkt hafi nokkurn tíma komið fyrir áður, að ekki hafi verið hægt að veðsetja vöru um leið og hún hefur verið framleidd, hvort sem það hefur verið á öðrum degi eftir áramót eða einhvern tíma síðar.

Nokkur orð um innflutning á fólki. Ég tek undir það að ekki er gott þegar um atvinnuleysi er að ræða á einum stað að flytja inn fólk á öðrum. En þróunin í landinu er á þann veg að fólk er að flytjast á milli landshluta. Það er ekki eingöngu það að fyrirtækin á viðkomandi stöðum þurfi að halda hráefninu heima, eins og hæstv. ráðh. benti á, heldur er einnig búið þannig að fiskvinnslufólki og sjávarútvegi að fólk er að gefast upp á þessum atvinnuvegi. Á stöðum vítt um landið er fólksfækkun yfirvofandi. Til þess að standa undir svipaðri framleiðslu í frystihúsum þar er engin leið til önnur en að flytja inn fólk. Ríkisstj. hefur búið þannig að þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar að fólk er að flýja. Er nema eðlilegt að fólk sé að flýja þegar þannig er búið að þessum atvinnuvegi eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason lýsti hér áðan, þ.e. fólkið getur staðið frammi fyrir því að verða atvinnulaust mánuðum saman án þess að hafa neina tryggingu fyrir því hvenær atvinna býðst aftur?

Hæstv. ráðh. tók dræmt í frv. Guðmundar J. Guðmundssonar um að tryggja fiskvinnslufólki ákveðin kaupréttindi frá atvinnufyrirtækjum, sagði að það væri ekki heppilegasta leiðin sem fyrir hendi væri. Þetta er einmitt sú kenning sem haldið hefur verið fram í hvert skipti sem leitað hefur verið slíks réttar fyrir vinnandi fólk á Íslandi. Það var nákvæmlega sama kenningin og haldið var fram þegar leitað var réttar til kauptryggingar á skipum. Það var sagt að vafasamt væri að leggja slíkt á útgerðina. Menn hlytu eins og áður að búa við fiskaflahlutinn. Kauptrygging væri of mikið álag á útgerðina sjálfa.

Ég held að ég fjölyrði ekki frekar um þetta, en ég árétta fsp. mína til hæstv. viðskrh., af hverju þannig sé á málum haldið að enn séu ekki veitt afurðalán út á framleiðslu sjávarafurða.