29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. bar upp fsp. til mín. Hann skaut að vísu málinu til mín rétt áður en hann fór í ræðustólinn og ég hafði þess vegna aðstöðu til að kanna málið í millitíð og til þess að geta svarað nákvæmlega eins og það mál stendur. Ég hafði gert ráð fyrir því að þessi lánafyrirgreiðsla gæti hafist í gær. Eftir viðræður sem ég átti við þá seðlabankamenn á föstudag hafði ég búist við því. En það er rétt, sem hv. þm. sagði áðan, að það gerðist ekki. Það svar sem mér var gefið í Landsbankanum var að staðið hefði á útreikningi viðmiðunarverðs frá útflytjendum, en það hefði borist til þeirra nú í morgun og í fyrramálið ætti þetta að geta verið komið í lag. Þannig hljóðar það svar sem ég hef við fsp. hv. þm. og ég trúi því að við verðum báðir til þess að athuga það í fyrramálið hvort þetta gengur ekki fram eins og mér var tjáð áðan. Vonast ég til þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm. þannig að viðunandi sé.

Hins vegar var þess getið í leiðinni að með einum eða öðrum hætti hefðu menn verið aðstoðaðir með fjármagni til að sinna því sem nauðsynlegast var á þessum tíma. En auðvitað eiga slíkir hlutir að geta verið komnir í lag þegar nýtt ár byrjar.

Hér var vikið að fiskútflutningi með gámum. Hv. 4. þm. Vesturl. taldi að það væru annmarkar á því að draga frá í kvóta, sérstaklega þegar um væri að ræða línuveiði. Ég get gert grein fyrir því að gerð er krafa til þess að um leið og útflutningsleyfið er gefið sé frá því skýrt hvaðan aflinn sé kominn og þá hvaða veiðarfæri er notað. Ef menn eru reiðubúnir að gefa skýrslur, sem þeir eiga að gera, ætti að vera hægt að koma þessu til skila, hvort heldur það er 10% frádráttur eða 5% .

Eins er það í sambandi við greiðslu til stofnfjársjóða. Gerð er krafa til þess að verð sé gefið upp, verðathugun fari fram á mörkuðum og það gangi sömu boðleið og undir öðrum kringumstæðum þegar um erlendar sölur er að ræða.

Þessar umr. hafa spunnist út af orðum hv. 6. landsk. þm. varðandi atvinnuástand á Suðurnesjum. Þar eru vissulega erfiðleikar. Útgerðin á í erfiðleikum, ekki bara þar heldur víðar. Ég geri ekki ráð fyrir að menn hafi átt von á því eftir góð aflaverðmætisár, eins og 1982 þegar útgerðin var rekin með miklum halla, að á einu ári væri hægt að kippa slíku í lag, en það er sjálfsagt að stuðla að því, hver sem betur getur. Þegar um er að ræða erfiðleika um margra ára skeið, sem birtast í hallarekstri útgerðar, verður þeim vart kippt í lag á stuttum tíma, en sennilega er þó árið 1984 betra þegar til samanburðarins kemur þó það sé auðvitað ekki nærri nógu gott og þurfi að gera miklu betur til þess að vel eigi að vera.

Fyrir rúmri viku áttum við þm. Reykn. fundi með sveitarstjórnum á Suðurnesjum til að fjalla um vandamál þeirra. Þar kom vissulega fram ýmislegt af því sem hv. 6. landsk. þm. vék að áðan. Menn gerðu þó misjafnlega mikið úr erfiðleikunum eftir því hvar það var og töldu að innan skamms yrði á þessu breyting. Ég efast ekkert um að við erum sem slíkir, þm. kjördæmisins, reiðubúnir hvar svo sem við erum að starfi að gera það sem í okkar valdi stendur til að vinna að því að úr þessu megi bæta með einum eða öðrum hætti.

Hv. 6. landsk. þm. vék að Framkvæmdastofnun og fjársvelti sem hann benti á að hefði verið fyrir nokkuð löngu að vísu, ef ég man rétt á árunum 1973–1975, þegar samþykkt var í Framkvæmdastofnun að ekki væri heimilt að lána til fiskverkunarstöðva í sjávarútvegi á ákveðnu svæði landsins. Menn fengu því áorkað að þessu var breytt og ýmislegt hefur þó frá þeirri stofnun komið sem létt hefur undir og lagfært þegar illa hefur árað.

Ég vildi láta það koma hér fram að þess sem þarna er að gerast eru þm. kjördæmisins sér mjög vel meðvitandi og þeir fengu á þessum viðræðufundum upplýsingar sem þeir vinna úr hver sem betur getur.