29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér hefur verið allnokkuð um það rætt hvort staða sjávarútvegs sé betri nú en hún var fyrir t.d. einu til tveimur árum síðan. Ég hika ekki við að segja að hún hefur skánað. Rekstrarafkoma flotans er þrátt fyrir allt heldur skárri en hún var og rekstrarafkoma fiskvinnslunnar er heldur skárri. Þessi afkoma er þó alls ekki viðunandi. En við þurfum einnig að hafa það í huga, þó að ég vilji ekki gera lítið úr ábyrgð stjórnvalda, að það er mjög hættulegt að einblína á þann þátt málsins eins og mér fannst t.d. koma fram í máli hv. þm. Karvels Pálmasonar.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að við eigum í vaxandi samkeppni við aðrar þjóðir sem eru að ríkisstyrkja sinn sjávarútveg í miklum mæli og hika ekki við það. T.d. mundi beinn ríkisstyrkur í Noregi samsvara því að á fjárlögum íslenska ríkisins færu milli 4 og 5 milljarðar í beina aðstoð við sjávarútveginn fyrir utan ýmsa óbeina styrki. Við þetta erum við að keppa. Og það kemur vissulega fram á kjörum landsmanna og kjörum þess fólks sem vinnur í þessari atvinnugrein. Við eigum einnig á hættu að vaxandi tollbönd, t.d. í Efnahagsbandalaginu, leggist á okkur. Við eigum það einnig á hættu að Bandaríkjamenn muni auka verulega sínar veiðar, sem gæti orðið til þess að innflutningur á fiski til Bandaríkjanna muni minnka. Það eru ýmsar slíkar utanaðkomandi hættur sem geta reynst okkar þjóðfélagi mjög varasamar, sem að mínu mati er mikilvægast að hafa augun á.

Ég tek undir það með hv. þm. að það er ástæða til að hafa áhyggjur af flótta frá sjávarútveginum og afkomu verkafólks þar. Ég óttast að erfitt verði að bæta kjör þessa fólks nema með vaxandi tæknivæðingu. Þannig hefur farið í ýmsum öðrum ríkjum t.d. í iðnaði þar sem aukin tæknivæðing hefur orðið til þess að bæta kjör fólks í þessum atvinnugreinum, en þá með þeim hætti að miklu færri hafa getað unnið við viðkomandi atvinnugrein. Það er verið að vinna að því og ríkisstj. hefur nýlega beint því sérstaklega til Framkvæmdastofnunar, sem síðan hefur leitað til Iðntæknistofnunar og fleiri aðila, með hvaða hætti við getum nýtt þá miklu tækni sem víða hefur rutt sér til rúms í heiminum, með vélmönnum og öðrum slíkum hætti í sjávarútveginum. Það er mín trú að slík tækni muni fara vaxandi og muni verða til þess að bæta kjör þess fólks sem vinnur í sjávarútveginum, en muni einnig verða til þess að mun færri hafi þar atvinnu, sem er einnig áhyggjuefni.

En að lokum varðandi fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar, þá er það rétt að rækjuveiðar við Ísafjarðardjúp hafa verið stöðvaðar. Það var ekki reiknað með því vegna þess að venjulega hafa seiðin verið gengin út úr djúpinu á þessum tíma. En vegna þeirra sérstöku skilyrða, sem eru við landið, er það mun seinna á ferðinni. Það liggur ekkert fyrir um það að afli rækjusjómanna úr Ísafjarðardjúpi verði neitt minni en gert hefur verið ráð fyrir. Vonandi munu því tekjur þeirra á árinu ekki rýrna.

Það er hins vegar rétt að það var greitt úr Aflatryggingasjóði á sínum tíma. Hins vegar hefur greiðslum þaðan verið algjörlega breytt þannig að nú er greitt út á almennan aflabrest til allra skipa á landinu miðað við afla þeirra og ég hef ekki trú á að þar verði nein breyting á.

Þessi tímabundna stöðvun rækjuveiða við Ísafjarðardjúp getur því vart orðið tilefni til greiðslna úr Aflatryggingarsjóði, a.m.k. á þessu stigi málsins.