30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

213. mál, virðisaukaskattur

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Það segir kannske sína sögu um hve mikið og flókið mál er á ferðinni að það var í höfuðatriðum tilbúið á síðasta þingi. Nú er fyrra misseri þessa þings lokið, kominn 30. janúar, og það er þá fyrst sem mælt er fyrir frv. Ég held að það sé ákaflega mikil bjartsýni að ætla að það þurfi u.þ.b. ár eða jafnvel ekki nema 8–9 mánuði til undirbúnings, eins og hæstv. fjmrh. taldi að væri kannske lágmarkstími, að þetta geti verið tilbúið um næstu áramót. Svo mörg atriði eru það sem hér koma til álita og svo margt er enn þá óljóst í sambandi við almenna skattastefnu hér á landi að ég held að það verði ekki með öllu slitið úr samhengi við hana. Ég fagna því þó að þetta frv. er komið fram og mjög ítarleg grg. og ákaflega skýr og efnismikil framsöguræða sem hæstv. fjmrh. flutti með frv.

En það eru nokkur atriði sem ég vildi strax í upphafi vekja athygli á. Þetta mál fer að sjálfsögðu til nefndar og verður vafalaust rætt ítarlega bæði þar og í þingflokkum. En það eru nokkur atriði sem ég held að við þurfum að hafa í huga nú þegar. Það er í fyrsta lagi upphæðin. Þarna er gert ráð fyrir 21% skatti. Hæstv. fjmrh. sagði að þetta mundi þýða sömu eða svipaða upphæð og söluskatturinn skilar nú. Ég vil aðeins spyrjast fyrir um það hvort þetta sé raunhæft, hvort ekki sé raunverulega um hærri skatttöku að ræða með þessu frv. heldur en með söluskattinum eins og nú er.

Í öðru lagi vildi ég nefna, og á það hefur þegar verið minnst, verð á matvælum. Það eru þá fyrst og fremst innlendu matvælin sem ég vildi spyrja um. Er gert ráð fyrir því að hækkun landbúnaðarvara verði mætt með auknum niðurgreiðslum eða með hækkuðum fjölskyldubótum? Eða í þriðja lagi með svo verulegum undanþágum að í raun og veru verði farið inn á sama kerfi og með söluskattinn?

Þá vil ég einnig vekja athygli á því sem hæstv. fjmrh. sagði og kemur fram í grg. frv., að þetta muni þýða allmiklu meiri innheimtukostnað heldur en nú viðgengst við innheimtu söluskattsins. Hvað er gert ráð fyrir að þessi innheimtukostnaður sé miklu meiri en nú er og hve mörgum þarf að bæta við þá innheimtu?

Það er rétt að vegna þess hve innflutningur er stór liður í efnahagslífi Íslendinga er innheimta virðisaukaskatts af innflutningi á mjög mörgum vörum tiltölulega auðveld. Eins styrkir þetta að sjálfsögðu útflutninginn. En ég held að við eigum samt sem áður að reyna að gera okkur grein fyrir því að það hefur ekki gengið of vel með söluskattsinnheimtuna. Og það er ekki bara vegna hinna fjölmörgu undanþága heldur einnig vegna þess að starfsfólk hefur vantað til að innheimta hann. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er ætlunin að bæta mörgum við í þessu starfi og hvaða upphæðir, hvaða kostnaðarauki er þarna á ferðinni?

Ég held að öll atriði þessa skatts verði tekin til rækilegrar umfjöllunar hér í vetur. Ég vil þó leggja áherslu á að málinu verði ekki flýtt um of, heldur kannað mjög vandlega og farið mjög rækilega í saumana á þessu, eins og ég sagði í upphafi, og í samræmi við almenna skattastefnu í landinu.