30.01.1985
Efri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það eru örfá orð út af því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði.

Það er rétt að olíufélögin hafa verið gagnrýnd fyrir sína fjárfestingu, fyrir fyrirkomulagið. Stundum hefur gagnrýni líka verið í þá átt að þau séu svo samstíg í öllu að ekki sé nokkur möguleiki á því að laða fram nokkra samkeppni þeirra í milli og þess vegna gildi sú regla að þau komi sér saman um hlutina og svo séu þeir látnir ganga fram.

Það er dálítið erfitt að meta þetta og vega, en þessu frv. er ætlað að ná fram því sjónarmiði að á milli þessara félaga verði þó nokkur samkeppni. Hún á að geta orðið til þess að með hagkvæmni í flutningum, þegar um er að ræða mikil viðskipti, megi bjóða hagkvæmari kjör. Hins vegar er gert ráð fyrir því með flutningsjöfnunarsjóðnum að tryggt sé að sama verð sé skráð um land allt. Það verður þess vegna viðkomandi félags að veita afslátt af því fjármagni sem það ella ætlar sér til rekstrarkostnaðar hjá sjálfu sér.

Verðjöfnunin í dag er ekki ákveðin af viðskrn. Það hefur ekki með neinar ákvarðanatökur að gera í þessum málum. Annars vegar er það Verðlagsráð sem ákveður taxta t.d. flutningaskipanna. Hins vegar er það flutningsjöfnunarsjóður þar sem olíufélögin eru í meiri hluta. Það er hér líka verið að minnka áhrif þeirra. Hér er þremur mönnum ætlað að stjórna tilfærslu á flutningsjöfnun. Einn er frá viðskrn., einn frá olíufélögum og einn frá Verðlagsráði. Þetta hefur frv. fram að færa.

Það hefur verið sama verð um allt land allt frá 1953. Flutningsjöfnuninni er ætlað að tryggja að jafnvel þó að eitt félag selji aðeins olíu og bensín hér á þessu svæði verði verð á olíu og bensíni hér ákveðinn kostnaðarþáttur. Til þess að taka þátt í kostnaðinum við flutninginn út á land jafnar flutningsjöfnunarsjóður þessum fjármunum á milli félaga. Ef annað félagið flytur aðeins út á land koma fjármunir af sölunni héðan inn í flutningsjöfnunarsjóð og renna síðan til hins félagsins til að jafna út þann kostnað sem það hefur haft umfram það að vera með söluna á þessu svæði.

Spurt var hvort ríkisstj. ætlaði að láta þær hækkanir ganga fram sem fyrirhugaðar eru, eins og þm. orðaði það. „Sem beðið hefur verið um“ er nú kannske réttara. Ég get ekki svarað þessu. Það er Verðlagsráð sem tekur ákvörðun um verðið á bensíni og olíu. Það er rétt, sem þm. hér sagði, að síðustu daga hefur heyrst að verðið á olíu fari lækkandi. Það er öllum ljóst að verkfall kolanámumanna í Brettandi hefur orðið til þess að hækka verð á svartolíu. Nú þegar það er að leysast, gæti orðið lækkun á olíuverði. Hann sagði líka að olía og bensín hefðu sífellt verið að hækka. Það varð undantekning á s.l. ári. Þá varð lækkun í eitt skipti. Þegar mikil lækkun varð á erlendum mörkuðum tókst að lækka hér einnig.

Ég skal ekki mikið um það segja, en ég get sagt það hér að mér sýnast tilefnin til hækkunar frá því í nóvember ekki vera ýkjamikil því að það hafa ekki verið fluttir inn dýrari farmar en þeir sem dýrastir voru þá. Að vísu hefur breyting á gjaldmiðli varðandi svartolíu sín áhrif til hækkunar, en sjáum við fram á lækkun á verði svartolíunnar vegna lausnar á kolanámuverkfallinu í Bretlandi getur það haft þau áhrif að engin ástæða sé til að breyta verðinu.

Olíuinnkaupajöfnunarreikningur er nefndur. Þegar breyting verður á verðinu erlendis, en það ekki látið koma fram hér, þá þýðir það það að í raun og veru er verið að selja olíuna og bensínið á of lágu verði og það er þá skrifað á sérstakan reikning hjá olíufélögunum sem hafa það í láni frá viðskiptabönkunum. Það er talið eðlilegt og rétt að þessi reikningur sé ekki það hár að tekið geti lengri tíma en 1–2 mánuði að leiðrétta hann. Það verður að sjálfsögðu og er ævinlega stefnt að því, en eins og stendur nú inniheldur verð á olíu og bensíni ákveðna fjárhæð til niðurgreiðslu á þeirri skuld sem er á innkaupajöfnunarreikningi í dag, hvort heldur það er á bensíni eða á olíu.