22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér er á dagskrá, 48. mál, þskj. 48, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var fyrst lagt fyrir Alþingi á 106. löggjafarþingi s.l. vor en hlaut ekki afgreiðslu. Frv. er nú endurflutt óbreytt. Það var tvívegis tekið til umr. hér á þingi, í fyrra skiptið 25. apríl og í síðara skiptið þann 30. apríl s.l. Í bæði skiptin urðu miklar umr. um frv. og einstakar greinar þess. Ég tel því ekki nauðsynlegt að þessu sinni að fylgja frv. úr hlaði með ítarlegri ræðu og læt nægja að rifja upp það helsta sem þá kom fram. Að öðru leyti vísa ég til framsöguræðu minnar s.l. vor og umræðna um málið.

Gagnrýni andstæðinga frv. beindist fyrst og fremst að 1., 2., 3. og 4. gr. laganna svo og 14. og 15. grein. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þessa gagnrýni. Hvað viðvíkur 1. grein þá hefur það verið gagnrýnt að ekki skuli tekið upp í þá grein ákvæði um svonefnda „jákvæða mismunun“ sem t.d. fjallaði um það að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði að koma á jafnrétti kynjanna. Á þingi s.l. vor lýsti ég yfir andstöðu minni við ákvæði sem þetta. Ég er enn þá sömu skoðunar. Ég tel það óeðlilegt að í lögum, sem fjalla um jafnrétti kynjanna, sé hlutur annars kynsins gerður meiri en hins. Í jafnréttislögum, svo og öðrum lögum, eiga bæði kynin að sitja við sama borð. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að bæta stöðu kvenna, en ég tel að það verði ekki gert á þann hátt sem talsmenn jákvæðrar mismununar vilja. Í þessu sambandi bind ég meiri vonir við 2. gr., en þar er kveðið á um að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar. Ég vil vekja sérstaka athygli á orðinu „stjórnvaldsaðgerðir“ sem ekki er í núgildandi lögum. Þetta orðalag felur í sér ákveðnar kvaðir á Alþingi, ríkisstjórn og sveitarstjórnir í þessum efnum. Við þetta má bæta orðum hv. 3. landsk. þm. sem hann lét falla í umr. 30. apríl s.l. og ég get tekið undir. Hv. þm. komst þannig að orði með leyfi forseta:

„Annað er það að trúlegt er að fræðsla sé mun notadrýgri til þess að knýja fram þá hugarfarsbyltingu sem er nauðsynlegur jarðvegur fyrir jafnrétti kvenna og karla.“

Ég vil vekja athygli á því að í frv. er einmitt tekið á fræðsluhliðinni í 10. gr., en þar stendur með leyfi forseta:

„Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal veita fræðslu um jafnréttismál. Kennslutæki og kennslubækur, sem þar eru notuð, skulu vera þannig úr garði gerð, að kynjum sé ekki mismunað.

Við náms- og starfsfræðslu í skólum skal leitast við að breyta hinu hefðbundna starfs- og námsvali kvenna og karla til samræmis við tilgang laga þessara. Menntmrn. ber ábyrgð á framkvæmd þessa ákvæðis í samráði við Jafnréttisráð.“

Sú grein sem ég bind mestar vonir við í frv. og tel veigamesta skrefið í áttina að því markmiði að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum er 15. gr. Skv. henni er hlutverk Jafnréttisráðs aukið. Dæmi um þetta er að finna í 2. tölul. 15. gr., en þar er kveðið á um það að hlutverk Jafnréttisráðs sé að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna að framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Þessi grein tengist 22. gr. frv. en í henni er fjallað um það að félmrh. skuli leggja fyrir ríkisstj. framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn. Þar skuli kveðið á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til þess að ná fram jafnrétti kynjanna. Enn fremur að við gerð þessarar áætlunar skuli höfð hliðsjón af áætlun Jafnréttisráðs sem getið er í 15. gr.

Ég er þeirrar skoðunar að ofangreind ákvæði færi okkur nær því takmarki að koma á jafnrétti kynjanna en ákvæði sem fela í sér mismunun kynjanna, jafnvel þótt slíkt sé kallað jákvæð mismunun.

3. og 4. gr. frv. hafa verið gagnrýndar vegna þess að í þær vanti skýringar á ýmsum hugtökum. Ég vil benda á að ég tel fullnægjandi að þær orðskýringar sem um er að ræða er að finna í aths. með frv.

Við umr. hér á Alþingi í vor kom fram gagnrýni á það ákvæði 13. gr. sem fjallar um fjármögnun á starfsemi Jafnréttisráðs. T.d. vildi hv. 3. þm. Reykv. orða þetta þannig: Kostnaður við Jafnréttisráð greiðist úr ríkissjóði og skal áætlað nægilegt fé á fjárlögum hvers árs til að Jafnréttisráð geti sinnt þeim verkefnum sem því er falið í lögum þessum. Í frv. er þetta orðað þannig að kostnaður við Jafnréttisráð greiðist úr ríkissjóði. Á þessu tvennu er munur á orðanna hljóðan en ekki innihaldi. Í báðum tilvikum er það fjárveitingavaldið, þ.e. Alþingi, sem hefur síðasta orðið um fjárveitingu til Jafnréttisráðs og í báðum tilvikum veltur það á áhuga og mati Alþingis á umfangi starfsemi Jafnréttisráðs hversu háa fjárveitingu ráðið fær til starfsemi sinnar. Ég skil þess vegna ekki þessa gagnrýni hv. þm.

Í umr. í vor urðu nokkrir þm. langorðir um þá skipan sem höfð er á réttarfari í frv. Sumir gagnrýndu það að ekki væru í frv. ákvæði sem legðu þá skyldu á herðar atvinnurekanda að hann sýndi fram á með verulegum líkum að ekki hafi verið um að ræða mismunun eftir kynferði. M.ö.o., þeir vildu hafa í frv. ákvæði um öfuga sönnunarbyrði, sem þýðir að einstaklingurinn þurfi að sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum. Eins og ég gat um í umr. 25. apríl s.l. þá eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði undantekning frá meginreglu íslensks réttar og hv. 2. þm. Reykv. benti á að til slíkrar undantekningar væri einungis gripið þegar upplýsa þyrfti stærstu glæpamál þjóðarinnar. Ég er sömu skoðunar og hv. þm. að það er varhugavert að reglur um öfuga sönnunarbyrði verði víða í íslenskum lögum.

Herra forseti. Frá því að stjórnarfrumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var lagt fyrir 106. löggjafarþing Alþingis hefur verið unnið að ýmsum þáttum jafnréttismála í félmrn. T.d. tók rn. þátt í fundi í Helsingfors þann 14. sept. s.l. sem haldinn var á vegum Norrænu jafnréttisnefndarinnar. Markmið fundarins var að fjalla um undirbúning verkefnis sem taki til Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Tilgangur verkefnisins er að leita leiða til að brjóta niður hinn kynskipta vinnumarkað. Þessu til skýringar má benda á að undanfarna tvo áratugi hefur barátta kvenna fyrir jafnrétti beinst fyrst og fremst að því að öðlast raunverulegt jafnrétti á við karla á vinnumarkaði. Í þessu felst að hafa sömu tækifæri til stöðuhækkana og karlmenn og fá sömu laun og aðra greiðslu fyrir sömu störf, þ.e. að konur fái sömu yfirborganir og hlunnindi sem karlmenn.

Barátta kvenna til að ná þessum markmiðum hefur ekki skilað nægilegum árangri. Konum hefur reynst erfitt að fá stöðuhækkanir og raunverulegur launamismunur hefur í sumum starfsgreinum verið mikill. Ýmsir hafa orðið til þess að setja fram athugasemdir til að skýra þennan mun. Þannig hefur verið bent á að menntun kvenna er almennt skemmri en karla. Einnig að þær velji sér tiltölulega fáar námsgreinar, t.d. kennslu, hjúkrun o.s.frv. Þessi atriði geri það að verkum að konur leiti vinnu í mjög fáum starfsgreinum, svonefndum kvennastarfsgreinum. Staðreynd málsins virðist vera sú að kvennastarfsgreinar hafa dregist aftur úr öðrum greinum hvað varðar kaup og kjör. Það hefur leitt til þess að þeir fáu karlmenn sem hafa starfað í þessum greinum hafa annaðhvort verið yfirborgaðir — og þetta hefur m.a. verið orsökin fyrir launamisréttinu — eða flúið í aðrar starfsgreinar sem hafa greitt betra kaup. Á þennan hátt hefur hringurinn lokast og afleiðingin er það sem kallað er kynskiptur vinnumarkaður.

Vinnumarkaðurinn hefur þannig þróast í átt skiptingar í karla- og kvennastarfsgreinar. Það er gegn þessari þróun sem norræna jafnréttisnefndin í samvinnu við norrænu vinnumarkaðsnefndina vill sporna og leita leiða til að brjóta niður þennan kynskipta vinnumarkað. Fundurinn í Helsingfors var haldinn í því skyni að safna saman hugmyndum um það á hvern hátt þetta væri framkvæmanlegt. Í stuttu máli sagt er hugmyndin sú að eitt svæði eða sveitarfélag í hverju landi um sig taki þátt í þessu samnorræna verkefni. Í þessum sveitarfélögum verði m.a. reyndar aðferðir til að hafa áhrif á starfsval kynjanna. Sérstaklega verður reynt að fá konur til að leggja stund á nám sem síðar leiði til starfs í hefðbundnum karlagreinum. Þetta yrði gert með útgáfu kynningarbæklinga, fundum og annarri upplýsingamiðlun í samvinnu við skóla, sveitarstjórn og aðila vinnumarkaðarins.

Ég vil geta þess hér að félmrn. er reiðubúið til samstarfs um framkvæmd þess hluta verkefnisins sem snertir Ísland við þá innlendu aðila sem framkvæmdin krefst til að tryggja framgang þess. Hér er fyrst og fremst um að ræða Jafnréttisráð. Það er rétt að taka það fram í þessu sambandi að samstarf félmrn. við Jafnréttisráð hefur verið mjög gott og rn. hefur fullan vilja til þess að bæta það samstarf enn frekar og beina því í ákveðinn farveg.

Annað mál sem unnið er að í félmrn. í samvinnu við utanrrn. á sviði jafnréttismála er fullgilding sáttmála um afnám hvers konar misréttis gegn konum, sem var undirritaður fyrir Íslands hönd á kvennaráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 1980. Þann 17. júlí s.l. höfðu 91 ríki undirritað sáttmálann, 51 hafði fullgilt hann og átta ríki gerst aðilar. Ég vænti þess að unnt verði að leggja sáttmálann fyrir Alþingi til fullgildingar fyrir áramót.

Að lokum má geta þess að á vegum félmrn. hefur starfað undirbúningsnefnd fyrir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Nairobi í Kenya á næsta ári. Undirbúningsnefndin lauk í sumar við svör við umfangsmiklum spurningalista frá Sameinuðu þjóðunum um þróun jafnréttismála á Íslandi. Þessu til viðbótar má minna á könnun sem fram fór á vegum félmrn. á högum einstæðra foreldra. Þótt sú könnun snerti jafnréttismál einungis með óbeinum hætti er ekki úr vegi að undirstrika helstu niðurstöðuna sem hún leiddi í ljós, þ.e. erfiðleika einstæðra foreldra við að fá þak yfir höfuðið. Að hafa starf að vinna og hafa aðgang að mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði eiga að vera sjálfsögð mannréttindi í velferðarþjóðfélagi okkar.

Það sem er athyglisvert við skýrslu þessarar nefndar, sem var rækilega kynnt s.l. sumar og m.a. send öllum hv. þm., og ég get bætt því við að ég sat ásamt hv. heilbrmrh. fund hjá Félagi einstæðra foreldra sem var um margt fróðlegur, það sem er athyglisvert við þá könnun sem var gerð og unnin af félagsvísindadeild Háskóla Íslands er að í úrtakinu sem þessi könnun náði til, rúmlega 600 einstaklinga, voru 93% konur en aðeins 6% karlar. Þetta sýnir í raun hvernig þessi þáttur í okkar þjóðfélagsmynd er samsettur. Og það er vissulega fróðlegt að út úr þessari könnun skuli koma þrjú atriði fyrst og fremst, sem allt þetta fólk leggur áherslu á: það eru í fyrsta lagi húsnæðismál, í öðru lagi menntamál og í þriðja lagi framfærslumál barna.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi kynnt sér skýrsluna um þessa könnun og það er von mín að framhald á þessari skýrslu verði meira starf og að á vegum rn. verði knúið á um leiðréttingu á ýmsum þáttum sem augljóst er að verður að leiðrétta í málefnum þessa fólks.

Herra forseti. Viðhorfum fólks og afstöðu til manna og málefna verður ekki breytt með þvingunum eða lögum sem stríða gegn réttlætisvitund þorra þjóðfélagsþegna. slíkar aðgerðir og þess háttar lög hafa einungis áhrif í þveröfuga átt við það sem til er ætlast. Ég tel að frv. til l. um jafnan rétt kvenna og karla, sem hér liggur fyrir, sé vel til þess fallið að sætta ólík sjónarmið, sem uppi eru, og nái það fram að ganga færir það okkur tvímælalaust fram á veginn. En auðvitað er það framkvæmdin sem skiptir meginmáli og þá sérstaklega hvernig búið er að Jafnréttisráði. Þar hefur Alþingi síðasta orðið eins og í öllum málum sem varða fjármál þessa lands.

Herra forseti. Ég leyfi mér að óska þess að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.