30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Flm. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál á þskj. 428 kom nokkuð til umr. í gær við utandagskrárumræður og þurfti enginn að verða undrandi.

Ég vil í upphafi vekja athygli á í hverju þær breytingar eru fólgnar, sem eru á þessu þskj., á lögunum frá 1979. Nú er að vísu mjög deilt um hvað sé hráefnisskortur. Nýfallinn er dómur í Hæstarétti fiskvinnslufólki í óhag þó að það mál hafi hins vegar unnist í undirrétti. En þarna er verið að leggja til að ef fólk er sent í launalaust starfshlé megi slíkt launalaust starfshlé aldrei standa lengur en samtals 160 stundir á hverju tólf mánaða tímabili miðað við fullt starf og að hámarki 80 stundir samfellt ef um hráefnisskort er að ræða, enda sé óheimilt að segja starfsmönnum upp störfum meðan svo er ástatt.

Það kemur skýrt fram í grg. og er nú á allra vitorði að fiskverkunarfólk eitt býr við þann skerta rétt, gagnstætt því sem gildir um aðra launþega, að því má segja upp eða taka af launum með viku fyrirvara hvort sem starfsaldur þeirra eru þrír mánuðir eða þrjátíu ár. En til þess að reyna að teygja sig frekar er ekki öllu fiskverkunarfólki tryggður sami réttur, það eru þessir 160 tímar og það skuli ekki vera nema 80 tímar sem séu samfelldir. Á þann hátt eru settar frekari skorður við beitingu þessarar heimildar, sem er í lögum, en þó það rúmar að atvinnurekendur geta firrt sig launagreiðslum þegar um ófyrirséð atvik er að ræða og þá þann tíma sem ætti að vera nægilegur til þess að gera viðhlítandi ráðstafanir ef um fyrirsjáanlega rekstrarstöðvun væri að ræða. Það er reynt að setja þarna takmörk, hversu langan tíma á ári, 160 klst., og hversu langan tíma í senn, 80 klst.

Jafnframt er bent á það í grg. að um 70% af skráðu atvinnuleysi á s.l. ári var hjá fiskvinnslufólki eða í störfum tengdum fiskvinnslu. Jafnframt er bent á að starfsfólk við fiskvinnslu, sem er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, býr við mikið öryggisleysi umfram aðra þjóðfélagsþegna sem veldur því að fólk sækir úr þessari atvinnugrein, jafnvel þótt það hafi margra ára starfsreynslu að baki. Slíkt hlýtur að bitna á atvinnugreininni og gæðum framleiðslunnar. Það hljóta því að vera hagsmunir þjóðarbúsins í heild að bæta úr þessu ófremdarástandi og til þess er þetta frv. flutt, segir í grg.

Nú vil ég spyrja: Hvað mundu menn segja ef það væri hægt að segja ágætu bankafólki, ágætu fólki í Stjórnarráði Íslands og svo mætti lengi telja, með 10, 20, 30 ára starfsreynslu, upp með viku fyrirvara ef atvinnurekandi teldi ekki næga vinnu fyrir hendi? Í lögunum frá 1958, sem voru fyrstu lög þess efnis, var undanskilið fiskverkunarfólk og verkamenn í hafnarvinnu. Verkamenn í hafnarvinnu í Reykjavík brutu þessi lög af sér með því að semja við viðkomandi skipaafgreiðslur, að vísu í góðu samkomulagi, um að slíkt væri hin mesta óhæfa. síðan hefur þetta verið tekið upp annars staðar, á Akureyri, í Hafnarfirði og sjálfsagt víðar. Þó að þetta sé líka ákvæði um hafnarverkamenn í lögunum frá 1979 er það ekki framkvæmt, heldur hafa hafnarverkamenn samið þessi lagaákvæði af sér með samningum.

En þá er spurningin: Höfum við efni á því að halda svona á málum? Ég skýrði frá því í gær að það væri algjör grundvallarmisskilningur að halda að hér væri um eitthvert aukavinnuafl að ræða. Ég hef bent á það, eins og kemur fram í ályktun Verkamannasambands Íslands, að 75% af vinnuafli í fiskvinnslu eru konur. Megnið af þessum konum hefur heimili, eru giftar eða í sambúð, eiga börn, og þetta er uppistaðan í vinnuafli í íslenskum fiskiðnaði. Ef vinna þessara kvenna, eins og ég var að skýra frá í gær, væri ekki til staðar mundi hrynja niður íslenskur fiskiðnaður og þjóðartekjur dragast saman sem því næmi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ég benti líka á að Ísland hefði þá sérstöðu að yfir 70 og nær 75% giftra kvenna ynnu utan heimilis. Það er, eins og ég tók fram áðan, algjör misskilningur að þarna sé um eitthvert reitingsvinnuafl að ræða af og til. Þetta er undirstaðan, ásamt sjómönnum, að grunnframleiðslu þjóðarinnar. Og því í ósköpunum að hafa þetta fólk réttindasnauðasta fólk á íslenskum vinnumarkaði? Fyrir því eru ekki nokkur minnstu rök.

Það verður örugglega sagt að fiskverkun sé nú stopul og svipull sé sjávarafli og þetta sé háð veðri og vindum. Þegar lög voru sett á 1958 um mánaðaruppsagnarfrest var þetta fólk undanskilið. Það náðist ekki meirihluti í þeirri ríkisstj. og atvinnustig kannske annað 1958. Það náðust samningar um kauptryggingu fyrir fiskverkunarfólk, að það yrði að segja því upp með viku fyrirvara, 1974, en áður mátti tilkynna því að kvöldi: Við látum ykkur vita þegar það verður vinna næst. — Það gilti jafnt um 20, 30 ára starfsaldur í viðkomandi grein. 1979 urðu nokkur átök þegar frv. til 1. um uppsagnarfrest og laun vegna sjúkdóms- og slysaforfalla var flutt af þáv. ríkisstj. Þá var nokkur ágreiningur í ríkisstj. og þessum ákvæðum um fólk í fiskiðnaði fékkst ekki breytt vegna andstöðu sumra ráðh.

Ég vil segja að þetta fólk, sem er að meginhluta konur, vinnur ákaflega langan vinnudag. Hluta af árinu er vinnutíminn 10, 12 og upp í 14 tímar. Það er bókstaflega ætlast til þess að það leggi þessa vinnu á sig til þess að bjarga verðmætum. Og yfir vetrartímann er iðulega unnið yfir helgar. Ég hélt að meginþorrinn af þessu fólki legði það á sig til að bjarga verðmætum. En þegar það kemur að því að einhver skortur verður á hráefni er þetta fólk sent heim kauplaust.

Nú skyldi einhver halda að þarna væri ekki um gífurlegan fjölda að ræða. Það er áætlað að árið 1982 hafi verið unnin í fiskvinnslu u.þ.b. 9600 til 9800 ársverk. En þarna koma mikið fleiri einstaklingar til en tæp 10 000. Þarna eru margar konur sem vinna hálfan daginn. Einnig er þarna skólafólk sem vinnur að sumarlagi. Ég býst við að það megi áætla að þeir sem vinna í þessari grein að einhverjum hluta séu um 12–15 þús., en það mætti segja mér að um 8–9 þús. ynnu að staðaldri. Hvernig er það þjóðfélag sem býður þessu fólki kjör, sem það gerir kröfur til og markaðir standa og falla með, ásamt sjómönnum, vinni það störf sín vel? Það er krafist af því eftir-, nætur- og helgidagavinnu þegar þarf á að halda og slái þetta fólk slöku við hrynja útflutningsmarkaðir líka vegna gæða. Þetta er fólkið sem er undanþegið einföldustu réttindum um atvinnuöryggi. Ég held að hver sá sem hugsi um þessi mál viðurkenni að slíkt misrétti getur ekki gengið.

Það kom fram í umr. í gær að ég minntist sérstaklega á konur í þessu sambandi. Ég var að benda á sérstöðu íslenskra kvenna, hvað þær taka drjúgan þátt í íslensku atvinnulífi, og ég var líka að benda á að þegar um uppsagnir er að ræða í lengri eða skemmri tíma bitnar það öðru fremur á konum. Því í ósköpunum, eftir að lög eru sett 1958, eftir að þó er bætt við kauptryggingu með viku uppsagnarfresti 1974 og lögin eru endurbætt 1979, er þetta fólk skilið eftir? Og nú vil ég spyrja hv. þm.: Ætla þeir og þessi hv. deild að láta sér sæma að hafa þetta fólk áfram réttindalausasta fólk sem er á íslenskum vinnumarkaði?

Lítum á annað. Það er stundum talað um og mjög í tísku að tala um framleiðni. Það er nú með þessi nýju fagyrði, eins og framleiðni og framleiðslu, að þau eru ákaflega óljós í hugum margra. En sleppum því. Það væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur af því. En framleiðni og afköst í fiskvinnslu á Íslandi eru með því hæsta sem þekkist í nokkurri íslenskri atvinnugrein. Ef við tökum sem dæmi lögverndaðar iðngreinar ýmsar, þá eru afköst og framleiðni í íslenskum fiskiðnaði meira en helmingi hærri hjá þessu fólki, 75% konum, sem er réttindasnauðast en afkastamest. Hvernig í ósköpunum getur þetta gengið svona lengur?

Það er farið ákaflega gætilega í þetta. Það er heimilað þarna 160 tíma hlé á ári frá vinnu og 80 stundir samfellt. En afleiðingarnar af þessu ástandi eru farnar að segja til sín. Fólk flýr úr þessum starfsgreinum, fólk sem á kost á annarri atvinnu. Kjör fara að vísu versnandi og jafnframt er öryggisleysi. Ýmsir fiskverkendur eru farnir að beita þessum ákvæðum harkalegar. Einn liðurinn í því eru gámaflutningar. Útgerðarmaður segir jafnvel að það sé svo lágt verð á fiski að hann hafi ekki í hyggju að landa fyrst um sinn þó að afli sé ágætur. Þá missir þetta fólk sinn rétt. Það eru á sjötta hundrað manns á Suðurnesjum atvinnulaus, fyrst og fremst í fiskiðnaði, á þriðja hundrað í Hafnarfirði, hátt í 200 á Akranesi, milli 300 og 400 í Reykjavík, hluta af sumrinu eru 80–90 atvinnulausir á Seyðisfirði og svona mætti lengi telja. Ein af orsökunum fyrir því, þar kemur að vísu fleira til, að fólk flyst utan af landsbyggðinni í þessum sjávarplássum, sem framleiða aldeilis ótrúleg gjaldeyrisverðmæti á hvern íbúa, er léleg kjör í fiskvinnslu og öryggisleysi með atvinnu.

Ég skal ekki halda langa tölu, en áskil mér rétt til að grípa inn í umr. ef þær yrðu langar. En ég vil mjög brýna fyrir þm. að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir fella þetta frv. eða vísa því frá, biðja þá umfram allt að láta ekki flokkspólitíska afstöðu ráða. Fiskverkunarfólk er úr öllum flokkum. Þar sem þetta fólk vinnur grunnframleiðslustörf, hefur afköst umfram flestar aðrar atvinnugreinar, er allt undir því komið að það sé þjálfað og kunni vel til verka. Ég bið hv. alþm, að hugsa sig vel um áður en þeir hafna frv. sem hér er flutt. Það skal ég taka undir með hæstv. sjútvrh. að vissulega er atriði að sjávarútvegurinn sem heild hafi sæmilega góða afkomu, þjóðfélagið sem heild getur ekki boðið hluta þegna sinna upp á þetta.

Ég legg þetta mál í hendur deildarinnar fyrir hönd okkar flm. og óska eftir að því verði vísað til hv. félmn., en sú ábyrgð er þung hjá þeim sem ætla að halda áfram að láta þetta fólk búa við skert mannréttindi.