30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

210. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um selveiðar við Ísland, en frv. þetta var flutt á síðasta þingi. Um það var fjallað í sjútvn. Nd. og n. skilaði nál. og fóru fram verulegar umr. um þetta mál, bæði við 1. umr. þess og 2. umr. Ég tel ekki ástæðu til að ég fari að endurtaka það sem þá kom fram og vil vísa til framsögu minnar á síðasta þingi, en vænti þess að sjútvn. taki þetta mál til umfjöllunar á ný og það takist að setja lög um selveiðar við Ísland.

Það er afar brýnt að koma slíkum lögum á og bæta stjórnun þessara veiða. Það má um það deila með hvaða hætti það skuli gert. En ég vísa til þess sem ég sagði um málið á síðasta þingi og vil leggja það til að málinu verði vísað til 2, umr. og hv. sjútvn.

Hjörleifur Guttormsson: Herra forseti. Hæstv. ráðh. mælir hér, öðru sinni að ég hygg, fyrir frv. til laga um selveiðar við Ísland og eins og hann gat um var þetta mál nokkuð til umr. á síðasta þingi og komu þá fram sterkar athugasemdir við þetta frv. frá þingmönnum í þessari hv. deild. Ég get út af fyrir sig vísað til þess sem þá kom fram, m.a. af minni hálfu, um þetta mál, en einnig til ítarlegs álits sem hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson flutti sem minnihlutaaðili í sjútvn. Þar komu fram mörg veigamikil rök gegn þessu frv., rök sem aðallega hafa komið frá þeim sem láta sér annt um náttúruverndarmál og vefengja vissa þætti sem tengjast þessu frv. Ég tel þó rétt nú við 1. umr. að vekja athygli hv. sjútvn. á ályktun Náttúruverndarþings, sem haldið var vorið 1984, varðandi þetta frv. Með leyfi forseta vil ég vitna til álits þingsins um setningu laga um selveiðar:

„5. Náttúruverndarþing 1984 telur núverandi ástand í selveiðum algerlega óviðunandi og óréttlætanlegt að leyfa útgerð á sel með skotvopnum hvar sem er, svo sem á friðlýstum svæðum og látrum. Náttúruverndarþing telur því aðkallandi að hraðað verði setningu laga um selveiðar hér við land. Varðandi frv. það sem lagt hefur verið fram á Alþingi leggur þingið eindregið til að 3. gr. frv. verði breytt. Hún hljóðar í frv. svo:

Sjútvrn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórn og skipulagningu selveiða, eftir því sem við á hverju sinni: Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands.“

Lagt er til að 3. gr. verði orðuð svo og er þetta orðalag í samræmi við það sem hin stjórnskipaða nefnd er samdi frv., lagði til:

Til aðstoðar sjútvrn. um stjórn og skipulagningu selveiða skipar ráðh. nefnd til tveggja ára í senn og skal hún skipuð fimm mönnum. Skal einn nm. skipaður samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Fiskifélags Íslands, en einn án tilnefningar. Ráðh. skipar formann nefndarinnar úr hópi þessara fimm manna.

Tillagna nefndarinnar skal leitað vegna setningar reglna og annarra ákvarðana er varða selveiðar og ber nefndinni að gera tillögur til sjútvrn. um hvað eina er hún telur ástæðu til í sambandi við stjórn og skipulagningu selveiða.“

Í lok ályktunar Náttúruverndarþings sagði síðan: „Að öðru leyti tekur þingið ekki afstöðu til frv., enda ekki haft tækifæri til að kynna sér það.“

Frv. þetta var, fyrir skömmu hygg ég, fram komið þegar þingið var haldið og alla vega ekki, og þó kann það nú að vera missagt hjá mér, en í öllu falli var frv. ekki sérstaklega kynnt fyrir Náttúruverndarþingi, en Náttúruverndarráð hafði vissulega haft það til athugunar og að ég hygg ályktað um málið.

Þetta er veigamikið ágreiningsefni, sem þarna er á ferðinni, og ég hvet mjög eindregið til þess að fallist verði á það sjónarmið sem fram kom hjá nefndinni sem samdi frv. í upphafi og sem Náttúruverndarþing, sem æðsta samkoma varðandi náttúruverndarmálefni í landinu, túlkaði á þessari samkomu sinni, 5. Náttúruverndarþingi 1984.

Starfsemi svokallaðrar hringormanefndar hefur tengst, sem eðlilegt er, umræðu um þetta mál og víða komið fram mjög hörð gagnrýni á það fyrirkomulag sem tekið var upp með skipan hennar og störfum sem hún hefur beitt sér fyrir frá árinu 1979 að telja, en það var í tíð hv. þm. Kjartans Jóhannssonar sem sjútvrh., hv. 3. þm. Reykn., að þessi nefnd var sett á laggirnar sem hefur beitt sér fyrir herferð gegn selastofninum við landið á þann hátt að mjög hefur verið gagnrýnt og þar sem ekki er tekið tillit til fræðilegra niðurstaðna, og raunar allsendis ónógar rannsóknir sem liggja fyrir varðandi selastofnana við landið, þannig að hægt sé að fullyrða með þeim hætti sem gert hefur verið að það samhengi sé til staðar varðandi hringorm í fiski og stærð og fjölda sela við Ísland.

Ég vil líka leyfa mér að nefna hér að frá einum mætum manni hef ég fengið afrit af bréfum sem borist hafa hæstv. sjútvrh. og fleiri aðilum, en það er bóndi í Barðastrandarsýslu, í Miðjanesi, Játvarður Jökull Júlíusson, sem er höfundur þess. Hann sendi hæstv. sjútvrh. bréf um þetta efni 1. okt. 1984 og mér hefur borist frá honum afrit af þessu bréfi þar sem hann fer mjög hörðum gagnrýnisorðum um þetta frv. og telur að með því sé gengið mjög á hlut bænda í landinu að því er varðar selastofninn og hefðbundið tilkall þeirra til selsnytja sem hlunninda. Ég ætla hér ekki, þar sem það er afrit af bréfi til hæstv. ráðh. sem ég hef undir höndum, að fara að vitna til þess, en höfundur þess hefur hins vegar óskað eftir því við mig að bréfi þessu verði komið á framfæri við sjútvn. þingsins og við þeirri ósk mun ég verða. En einnig sendi hann erindi sem þessu fylgdu, m.a. mótmæli frá aðalfundi Búnaðarfélags Reykhólahrepps frá 24. júní 1984 svo og erindi sem hann sendi þm. Vestfjarðakjördæmis um þetta mál 3. maí 1984 og sérstakt erindi, sem lýtur að þessu máli einnig, sent iðnaðardeild Sambandsins 24. júlí 1984. Játvarður Jökull Júlíusson er selveiðum nákunnugur og talar af þekkingu um þessi mál sem hlunnindabóndi og ég tel nauðsynlegt að hv. sjútvn. þessarar deildar fái aðgang að röksemdum hans og fari yfir þær þegar mál þetta verður tekið fyrir á vettvangi n.

Það er einnig að finna af hans hálfu ekki aðeins gagnrýni á ýmis atriði frv. eins og þau liggja fyrir, heldur einnig ábendingar um nokkur atriði sem þurfi að koma fram í nýrri löggjöf um selveiðar við Ísland, atriði sem ekki er að finna í þessu frv. Þannig hygg ég að umsögn hans sé verulegur fengur fyrir sjútvn. þingsins.

Ég tek undir það að full ástæða er til þess að reynt verði að ganga frá nýrri löggjöf um selveiðar við Ísland. Þessi mál eru í slæmu horfi eins og nú er. Hlutur hringormanefndar er ekki góður og utan við eðlilegar reglur um þessi efni, þar sem framkvæmdavaldið hefur tekið sig til og falið þessari nefnd að standa fyrir eyðingu sela þannig að mjög er umdeilt svo að ekki sé meira sagt.

Ég hvet sem sagt til þess, herra forseti, að það verði reynt að skoða þessi mál opnum huga og menn reyni að finna þá skipan þessara mála sem líklegt er að friður megi takast um, jafnframt því sem nauðsynlegt er að efla rannsóknir á selastofnum við Ísland þannig að hægt sé að byggja stjórnun á þessum dýrastofni á sem fyllstri og bestri þekkingu.