30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

210. mál, selveiðar við Ísland

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. um selveiðar við Ísland er endurflutt á þessu þingi af sjútvrh. Fram til þessa höfum við haft í íslenskum lögum aðeins fá og mjög fátækleg ákvæði um selveiðar, m.a. í lax- og silungsveiðilögunum. Það er því vissulega orðið tímabært að hér verði sett heildarlöggjöf um selveiðar við Ísland. En hvers vegna er það? Það er vegna þess að hér erum við að fást við mál sem er miklum mun stærra en menn hafa almennt áttað sig á. Hér erum við að fást við mál sem í sjálfu sér er mjög alvarlegt.

Ég vil minna á það við þessa umr. að á síðasta þingi beindi ég fsp. til sjútvrh. þar sem ég spurðist fyrir um það hvert væri að bestu manna yfirsýn það tjón sem ætla mætti að stafaði af hringormi í fiski við Ísland. Í upplýsingum, sem voru byggðar á áliti færustu sérfræðinga í þessum efnum, kom fram sú viðurhlutamikla og uggvænlega staðreynd að tjónið, sem hringormur í fiski veldur íslenskum sjávarútvegi, er áættað að jafngildi á ári hverju hvorki meira né minna en aflaverðmæti a.m.k. 20 togara okkar allt árið, eða fjórðungs togaraflotans. Hér er um mjög alvarlega og uggvænlega staðreynd að ræða.

Við höfum átt í miklum erfiðleikum Íslendingar í okkar sjávarútvegi á síðustu árum. Það kom glögglega fram hér í gær í umr. utan dagskrár þar sem á það var réttilega bent hve alvarlegt ástandið væri orðið í sjávarútveginum og hvílíkt atvinnuleysi hefði af þeim sökum skapast í sjávarplássum víða um land, ekki síst á suðurnesjum. Menn ræddu hér í gær utan dagskrár á fundi í Sþ. um ýmsar leiðir og ýmsar úrbætur sem hugsanlegar væru í þessu efni. Þar er róðurinn þungur og þungt fyrir fæti. Á sama tíma gerist það síðustu árin að á íslenskan sjávarútveg er lögð sú þunga byrði sem við getum raunar kallað hringormaskatt, jafngildi aflaverðmætis 20 togara. Menn sjá það í hendi sér hvílíkar hagsbætur mætti fá fram ef unnt væri að draga úr þessu mikla tjóni þannig að íslenskur sjávarútvegur yrði ekki árlega fyrir þeim áföllum sem stafa frá lífkerfi náttúrunnar á þessu sviði. Þess vegna ber að fagna því að nú er í bígerð að setja heildarlöggjöf um stjórnun mála á þessum vettvangi. Vitanlega verður á grundvelli þeirrar löggjafar eitt meginmarkmiðið að koma í veg fyrir að þessi óheillaþróun haldi áfram svo að íslenskur sjávarútvegur megi þó njóta einhverra meiri hagsbóta en hann hefur notið á þessu sviði.

Það atriði frv. sem aðallega hefur verið til umr. hér að þessu sinni er það ákvæði 3. gr. að sjútvn. skuli hafa samráð við ýmsa aðila um selveiðar. Það hefur verið gagnrýnt að hér skuli ekki starfa sérstök ráðgjafarnefnd. Ég get nú ekki séð að það skipti í sjálfu sér ýkja miklu máli hvort við tölum hér um ráðgjafarnefnd eða um samráð við ákveðna aðila. Meginatriðið er eins og segir nú í 3. gr.sjútvrn. skal hafa samráð við ýmsa hagsmunaaðila um stjórn og skipulagningu selveiða, eftir því sem við á hverju sinni. Hér er fyrst talið Náttúruverndarráð. Er það vel vegna þess að vitanlega verðum við jafnan að ganga hér fram með fullri gát. Engum dettur í hug að þetta frv. sé samið og verði væntanlega samþykkt hér til þess að útrýma selastofninum við Ísland, en á því sjónarmiði þótti mér örla í umr. um þessi mál hér á þingi á síðasta ári. Það er vitanlega ekki ætlunin. Ætlunin er að sjá svo um að gætt verði fyllstu náttúruverndar- og vísindasjónarmiða við selveiðar. Þess vegna er það vel að það skal hafa samráð við Náttúruverndarráð um hvernig staðið er að selveiðum við Ísland. Þar að auki Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands.

Hér er gert ráð fyrir því að um náið samstarf rn. sé að ræða við þær stofnanir og samtök sem ég nefndi og talin eru upp í 3. gr. Í því felst að leitað yrði álits og umsagnar sérfræðinga eða skipaðra fulltrúa þessara aðila um skipulag, stjórnun og meiri háttar ákvarðanir allar varðandi selveiðarnar. Færi það eftir eðli máls hverju sinni til hverra væri leitað. Þetta kemur skýrt fram í aths. frv. við 3. gr., þannig að enginn þarf að velkjast í vafa um það að við framkvæmd selveiða verður vitanlega leitað álits náttúruverndarmanna og þess gætt að hafa jafnan að leiðarljósi vísindalegar niðurstöður um viðhald selastofnanna við Ísland hverju sinni. Með þessari grein á að vera vel fyrir málum séð. Og þar skiptir í rauninni sáralitlu hvort við köllum þetta ráðgjafarnefnd úr því að hér er lögbundin skylda til samráðs. Það er meginatriðið.

Síðan er það annað mál að við þurfum að leggja meira fé í það og leggja á það meiri áherslu að rannsaka vísindalega vöxt, viðgang og lifnaðarhætti selastofnanna við Ísland svo að við vitum hverju sinni hvernig ástandið er þar, hvað stofninn þolir miklar veiðar hverju sinni og hver viðkoman er.

Ég vil aðeins minna á það að veiðimyndin í selveiðum hefur gjörbreyst á síðustu árum. Allt fram til 1977 var selveiðin við Ísland að meðaltali 6500–7500 dýr árlega. Síðan gerist það að saman fara duttlungar tískunnar og ábendingar náttúruverndarmanna, að mörgu leyti mjög réttmætar, frægra leikkvenna úti á meginlandi Evrópu og annarra aðila sem mikið er tekið eftir í fjölmiðlum. Mikill áróður hófst skyndilega gegn selveiðum. En hann beindist náttúrlega ekki gegn selveiðum við Ísland, ég undirstrika það, heldur gegn kópadrápi á grimmúðlegan máta á íshjara við Kanada og Noregsstrendur. Afleiðingin varð sú að eftirspurn eftir selskinnum hríðféll og selaafurðir urðu nánast verðlausar. selkjötið er nánast ósöluhæf vara. Að vísu getur það breyst með vaxandi loðdýrarækt í landinu en verð á selskinnum hefur verið í lágmarki. Afleiðingin er sú að undanfarin ár hefur veiðin ekki verið nema um helmingur eða tæplega það af því sem áður var, eða u.þ.b. 3000 dýr árlega. Þessi tekjustofn bænda hefur því mjög skerst, en stofninn hefur á hinn bóginn vaxið verulega. Það má því segja að frá náttúruverndarsjónarmiðum sé mjög vel að honum búið einfaldlega vegna þeirra markaðsskilyrða sem ég nefndi.

En síðan kemur hringormadæmið inn í þessa mynd, það gífurlega tjón sem íslenskur sjávarútvegur, ekki síst saltfiskvinnslan, á við að búa. Við höfum m.a. fengið endursenda heilu skipsfarmana frá Portúgal með ærnum tilkostnaði á síðasta ári einmitt vegna hringorma sem ekki höfðu verið fjarlægðir. Hér er því ekki aðeins um náttúruverndarmál að ræða heldur gífurlegt fjárhagsmál og mjög stórt atvinnuspursmál fyrir íslenskan sjávarútveg og það fólk sem vinnur í verstöðvum landsins. Við verðum þess vegna að freista þess að hafa jafnvægi hvað þessa hagsmuni snertir en hafa það þó að leiðarljósi að bæta hér úr hvað varðar hringormapláguna sem svo mjög hefur herjað á síðustu árum vegna fjölgunar selsins.