30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

Fundarsókn þingmanna

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þar sem ég gegni nú störfum sem formaður þingflokks Sjálfstfl. — ég er þrautavaraformaður þess þingflokks — þykir mér rétt að gera stutta athugasemd vegna þess að hér hafa tveir hv. þm. stigið í ræðustól í dag og með réttu vakið athygli á því að margir þm. eru fjarverandi. Af ræðum þeirra mátti skilja svo að hér væri um óeðlileg forföll að ræða og þm. væru að vanrækja sín skyldustörf með því að vera fjarverandi. Nú vita báðir hv. þm. betur. Það er vitað að vegna undirbúnings Norðurlandaráðsþings, sem á að halda hér í Reykjavík um mánaðamótin febrúar-mars, eru allmargir nefndafundir nú á þess vegum. Við getum alveg deilt um gagnsemi Norðurlandaráðs og ég er alveg tilbúinn að taka upp umr. um það hér einhvern tíma, en Alþingi Íslendinga tekur þátt í þeirri stofnun og allmargir þm. úr öllum flokkum eru á nefndafundum í tengslum við þetta væntanlega Norðurlandaráðsþing.

Það hittist enn fremur svo á að þing Evrópuráðsins, sem Alþingi Íslendinga er einnig aðili að, heldur þingfundi nú þessa daga. Ég býst við að það sé frekar sjaldgæft að þessar tvær alþjóðastofnanir, sem Alþingi Íslendinga er aðili að, haldi fundi samtímis. Þeir hv. þm. sem eru fjarverandi, þ. á m. bæði hæstv. forseti Sþ. og hæstv. forseti þessarar deildar, formenn þingflokka og fleiri, eru staddir á öðru hvoru þessara þinga.

Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi fram þannig að þessi umr. skilji það ekki eftir í hugum þeirra sem á hlýða að þm. séu að drýgja einhverjar vanrækslusyndir með því að vera ekki á þingfundum hér í dag og reyndar mestalla þessa viku.