30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

Fundarsókn þingmanna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fyrst bera af mér það sem hv. 4. þm. Reykv. sagði að ég hefði gert, að ég hefði látið að því liggja að þm. væru að vanrækja sín störf. Það sem ég lét að liggja er að mér sýnist að þeir geti ekki sinnt samtímis því starfi að vera á þingi erlendis og innanlands. Því valda samgöngur og fjarlægðir. Ég vil vekja athygli á 34. gr. þingskapa, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er þm. að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Heimilt er forseta að veita þm. brottveruleyfi, þó eigi lengur en tvær nætur að nauðsynjalausu, nema deildin samþykki.“

Þessi þingsköp hafa aldrei gert ráð fyrir þeim möguleika að þm. gætu verið erlendis allt að viku án þess að kalla inn varamann. Ég vil vekja á því athygli að það fer enginn ráðh. af landi brott án þess að þurfa að afhenda sitt vald að fullu til einhvers annars sem er eftir í landinu. Að sjálfsögðu skiptir það engu máli hvort forseti Nd. eða forseti Sþ. er erlendis. Valdið er hér heima hjá þeim sem eftir eru og hafa verið kosnir til þeirra starfa. Það þýðir ekki að skjóta sér á bak við það að vegna fjarveru þessara manna geti forsetar ekki sest niður og rætt málin.

Ég tel það alveg ófært að gera ráð fyrir því að hægt sé að standa eðlilega að þingfundum og nefndarstörfum ef rúmlega 1/4 þingmanna er fjarverandi. Mér finnst að forsetar þingsins verði að setjast niður og ganga frá því máli í eitt skipti fyrir öll hvenær þeir telja að kalla beri inn varamann ef þm. fara utan. Hér hafa sumir kallað inn varamenn, aðrir ekki. Það virðist vera geðþóttaákvörðun þm. E.t.v. fer það eftir því hvort þeim líkar vel við sinn varamann, ég veit það ekki. En það er hætt við því að lengi sé hægt að finna sér erindi til útlanda. Þess vegna finnst mér að það hljóti að vera tími til kominn að forsetar þingsins gangi frá því í sínum samþykktum og þyrfti að koma því inn í þingsköp Alþingis hvenær beri að kalla inn varamann undir slíkum kringumstæðum.