30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

Fundarsókn þingmanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég stend nú aðallega upp til að bera af mér þær sakir sem hér voru bornar fram af 4. þm. Reykv. um að ég væri að ásaka þm. fyrir að vanrækja skyldustörf. Það er ómerkilegur útúrsnúningur og ég vísa því til föðurhúsanna.

Ég vissi ekki til þess að þingflokkarnir kysu fleiri en tvo formenn, þ.e. formann og varaformann. Ég vissi ekki af þeirri nýlundu sem hafði verið tekin upp í Sjálfstfl. að kjósa þrautavaraformann. Kannske er það regla sem ætti að taka upp í öðrum þingflokkum. En þá þyrfti að birta skrá yfir þá líka í þingmannatalinu þannig að maður gæti vitað að hverjum ætti að snúa sér varðandi þinghaldið, t.d. í sambandi við mál sem kom hér upp í dag, að iðnrh. óskaði eftir því að flytja hér skýrslu um orkumál og áttu að fara fram umr. um það á morgun að hans ósk. Þegar ég fór að leita að viðmælendum í stjórnarliðinu hafði ég ekki við neinn að tala í forustusveit þingflokka stjórnarliðsins vegna þess að formenn og varaformenn stjórnarflokkanna eru báðir fjarverandi.

Hér eru fjarverandi í dag forseti Sþ., forseti Nd., formaður þingflokks Framsfl., varaformaður þingflokks Framsfl., formaður þingflokks Sjálfstfl., varaformaður þingflokks Sjálfstfl. Þessir menn eru fjarverandi án þess að hafa kallað inn varamenn í sinn stað. Það er ekkert við því að segja þegar menn eru bundnir í skyldustörfum á opinberum vettvangi og kalla inn varamenn. En þessir menn eru fjarverandi án þess að kalla inn varamenn í sinn stað nema varaformaður þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Halldór Blöndal. Að öðru leyti eru stólar þessara þm. auðir. Ég hlýt að mótmæla þessu vegna þess að hér er í raun og veru verið að gera býsna lítið úr þessari samkomu sem heitir Alþingi. Hér er verið að stuðla að slugsi og skipulagsleysi í vinnubrögðum sem er ólíðandi. Ég fer fram á það við hæstv. forseta deildarinnar að hann beiti sér fyrir umr. um það að koma í veg fyrir að svona nokkuð endurtaki sig. Einnig tek ég undir það sem hv. 5. þm. Vestf. benti á að það kann að vera eðlilegt að setja reglur um það hvernig og hvenær varamenn eru kallaðir inn fyrir þm. svo að það sé ekki einvörðungu háð geðþótta einstakra þingmanna heldur einnig verklagi þingsins í heild.

Hitt, hvort þingstörf hafa gengið hér vel eða illa í dag, er svo annað mál. Einhverjir kunna að þakka það fjarveru þeirra góðu starfsfélaga okkar sem eru í burtu, það heyrðist mér reyndar á ágætum manni hér áðan. En ég vil einnig þakka það forseta deildarinnar í dag sem hefur stýrt fundum hennar með miklum skörungsskap. Ég er ekki að kvarta undan stjórn fundarins af hans hendi. Ég endurtek það að ég þakka honum fyrir að hann skuli beita sér fyrir því að kallaður verði saman fundur til að ræða þessa ósvinnu, eins og þessi vinnubrögð hafa verið hér í dag.