11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Alþingi kemur nú saman við óvenjulegar og válegar aðstæður. Ólga og upplausn ríkir í íslensku þjóðfélagi. Stórir hópar fólks una ekki lengur hlutskipti sínu og þeim sultarkjörum sem ríkisstj. skammtar þeim og mótmæla svo undir tekur í þjóðfélaginu. Verkfall opinberra starfsmanna hefur nú staðið í rúma viku, verkfall bókagerðarmanna í fjórar vikur og hvergi er lausn í sjónmáli.

Hæstv. fjmrh., viðsemjandi opinberra starfsmanna fyrir hönd ríkisins, lætur hafa eftir sér hverja yfirlýsinguna á fætur annarri, sem ekki er hægt að skilja nema á einn veg, þann veg að opinberir starfsmenn séu helstu óvinir lands og þjóðar, virði ekki lög og reglur og hyggist rústa íslenskt lýðræði. Sá hinn sami fjmrh. greiðir hins vegar ekki opinberum starfsmönnum laun sín, eins og lög gera ráð fyrir, og hindrar að lögreglan geti sinnt skyldustörfum sínum og rannsakað meint lögbrot, svo sem henni er skylt að gera samkvæmt lögum.

Þegar hæstv. fjmrh. sleppir hleypur hæstv. menntmrh. í skarðið og tekur fram að ekkert tiltökumál sé þótt lög séu brotin hér í þessu landi, þar sem alltaf sé verið að brjóta lög hvort sem er. Sú spurning — (Menntmrh.: Hvenær var þetta?) Í Ríkisútvarpinu, hæstv. ráðh. (Menntmrh.: Ég hef ekki sagt fyrri hluta setningarinnar.) Hæstv. ráðh. sagði, ef ég man rétt, að — (Menntmrh.: Það er ekki rétt munað.) Þá sendir kannske hæstv. ráðh. mér afrit af fréttum Ríkisútvarpsins sem hún væntanlega hefur í fórum sínum. Sú spurning sem nú brennur í huga flestra landsmanna er þessi: Til hvers eru lög ef ekki skiptir meginmáli að þau séu haldin? Til hvers er verið að hafa þá löggjafarsamkomu sem hér situr, þrískiptingu valds og lýðræðisskipulags, ef lögin skipta engu máli? Og hvers megnugt er íslenskt lýðræði ef handhafar framkvæmdavaldsins hlíta ekki grundvallarreglum laga og réttar? Þetta eru þær spurningar sem nú brenna mönnum í huga.

Svo sannarlega hriktir í stoðum lýðveldisins. En það er ekki fólkið í landinu, opinberir starfsmenn eða aðrir sem vega að lýðræðinu, heldur eru það stjórnvöld sjálf sem það gera með þessari framkomu sinni.

Þetta eru válegir tímar og á þessum válegu tímum heyrist oft hrópað: Frelsi, frelsi. Slíkt er ekki nýtt í mannkynssögunni. Slík hróp hafa iðulega heyrst á ögurstundum og örlög þjóða verið ráðin með þeim skilningi sem lagður er í grundvallarhugmyndir af þessu tagi. Og við spyrjum: Hvaða frelsi, frelsi hvers til að gera hvað, frelsi hvers gagnvart hverjum? Frelsi er ekki til án ábyrgðar, frelsi án ábyrgðar er ekkert frelsi heldur ofbeldi. Ofbeldi er frelsi frumskógarins þar sem hinn sterkasti hefur frelsi til að koma fram við aðra á hvern þann máta sem hann kýs á grundvelli krafta sinna.

Það hefur tekið mannkynið milljónir ára að þróast frá frelsisskilningi frumskógarins til þess skilnings sem allt lýðræði byggir á, þess skilnings að frelsi er ekki til án ábyrgðar, að öllum réttindum fylgja skyldur. Þannig skiljum við konur það frelsi sem við erum að berjast fyrir konum til handa. En hvað gerist á Íslandi árið 1984, í fornu lýðræðisríki sem um aldir hefur státað af því að skilja á milli frelsis og ofbeldis í stjórnskipan sinni? Hópur manna tekur sér frelsi frumskógarins og í skjóli krafta sinna, fjármagns og valdaítaka í íslensku samfélagi hlítir ekki landslögum. Og það sem alvarlegast er er að gæslumenn lýðræðisins, íslenskir ráðherrar, sinna ekki skyldum sínum, þeim skyldum sem fylgja réttindum þeirra, valdinu. Þeir láta þetta ofbeldi átölulaust og gott betur en það, afsaka það jafnvel líka. Hvar er þá komið frelsinu, því frelsi sem stjórnarskrá lýðveldisins byggir á? Það er ekki lengur virt, það skal víkja fyrir frelsi frumskógarins, fyrir ofbeldinu sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., kallaði æðra lögmál hér áðan.

Samkvæmt landslögum hefur Ríkisútvarpið ótvíræðan einkarétt á útvarpsútsendingum hér á landi. Þeir sem brjóta á þessum rétti brjóta því landslög. Einkaréttur Ríkisútvarpsins, sem er eign allrar þjóðarinnar, er ekki til kominn til þess að tryggja rétt fárra á kostnað fjöldans, eins og margir virðast halda, þ. á m. hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., kallaði æðra réttur Ríkisútvarpsins til kominn til að tryggja frelsi allra, hvers einasta mannsbarns á Íslandi, til að koma skoðunum sínum, vitneskju og viðhorfum á framfæri, eins og 3. gr. útvarpslaganna kveður á um. Svokallað frjálst útvarp er því öfugmæli. Það er ofbeldisútvarp, það er útvarp sem tryggir rétt þess sterkari, þess sem hefur aðstöðu og á peninga til að koma skoðunum sínum á framfæri án tillits til hvað aðrir hafa að segja. Slíkt útvarp hefur engar skyldur, aðeins réttindi, réttindi til að útvarpa. Þetta hefur áþreifanlega sannast á þeim fréttaflutningi og því efni sem að undanförnu hefur verið útvarpað í bága við landslög, m.a. úr herbergjum valdaaðila hér í þessu þjóðfélagi. Og ekki er nóg með að núverandi valdhafar leggi blessun sína yfir þetta fyrirkomulag á upplýsingamiðlun til landsmanna og hyggist koma því á með lögum, heldur leggja þeir einnig blessun sína yfir þau lögbrot sem framin hafa verið í útvarpsmálum undanfarið. Það hafa þeir gert ýmist með því að láta þessi lögbrot átölulaus og ekki hafst að til að þau verði stöðvuð, eða með því að koma fram og tala í þessar lögbrotsstöðvar, eins og t.d. hæstv. forsrh. hefur gert.

Hugmyndir ráðh. um lýðræði og frelsi, lög og lögbrot virðast því vera heldur betur á reiki og ekki að undra þótt landslýður hrökkvi við og sé uggandi um hag sinn og afkomu lands og þjóðar þessa dagana. Almenningur hélt og það réttilega að ekki mætti brjóta lög. Og almenningur er nú samkvæmt lögum þessarar ríkisstjórnar búinn að taka á sig meiri kjaraskerðingar en lengi hafa þekkst hér á landi. Hugmyndir ríkisstj. um frelsi í kjaramálum eru dálítið aðrar en í útvarpsmálum. Í kjaramálum eru mönnum skömmtuð laun með lögum og ekki spurt um frelsi, t.d. frelsi til að hafa fyrir nauðsynjum með því að vinna fulla vinnu, sem enginn þarf þó að draga í efa að hverjum og einum ber samkvæmt grundvallarhugmyndum lýðræðisins um frelsi. Í þessum efnum, ef það skyldi vefjast fyrir einhverjum, felst ábyrgðin í vinnunni, í vinnuframlagi hvers og eins og frelsið í því að geta lifað af ávöxtum vinnunnar. Allir eiga heimtingu á því að geta lifað af vinnu sinni. En slíkt frelsi hafa ekki allir á Íslandi í dag, enda er nú svo komið að stórir hópar fólks hafa lagt niður vinnu löglega, ég endurtek löglega, og reyna að semja um laun sem hægt er að lifa af. Og hvað gerist þá? Hæstv. fjmrh., sem lætur allra handanna lögbrot óátalin, ætlar af göflum að ganga yfir löglegu verkfalli opinberra starfsmanna og reynir að knýja þá til að fresta löglegum aðgerðum með þeim bolabrögðum að fella sáttatillögu ríkissáttasemjara í vinnudeilu BSRB og ríkisins. Hér eru á ferðinni vinnubrögð sem eiga lítið skylt við lýðræði eða lýðfrelsi. Hér er á ferðinni tilraun til hrokafullrar valdbeitingar. Þessum vinnubrögðum svo og afskiptum fjmrh. af lögbrotsmálum undanfarna daga mótmæli ég hér með fyrir hönd Samtaka um kvennalista.

Núverandi ríkisstj. hefur setið að völdum í 16 mánuði. Á þessum 16 mánuðum hefur henni tekist að ná verðbólgunni niður í tveggja stafa tölu með því að skerða svo almenn laun í landinu að stórir hópar fólks búa nú við krappari kjör en lengi hafa þekkst hér á landi. Á mörgum heimilum, og þá ekki síst þeim þar sem konur eru fyrirvinnur, ríkir nú neyðarástand. Hvað á að gera? Það er ekki nóg að ná verðbólgunni niður. Engin úrræði eru mér sýnileg hjá ríkisstj. En margt er hægt að gera. Það er hægt að semja um krónutöluhækkun á laun í stað prósentuhækkunar, eins og við Kvennalistakonur höfum þráfaldlega bent á, og tryggja þannig töluverða hækkun lægstu launa, sem nú er lífsspursmál fyrir þá sem ekki sjá sér og sínum lengur farborða. Það er hægt að dreifa byrðunum réttlátar með því að skattleggja þá sem í dag maka krókinn og engan speking þarf til að sjá að gera það býsna gott og vel það í skjóli þessarar ríkisstjórnar. Þannig er hægt að afla fjár til félagslegra úrbóta og nýrrar atvinnuuppbyggingar sem tryggir bættar aðstæður landsmanna allra.

Það er einnig hægt að spara ríkisfé og fjárfesta þar á margvíslegan annan máta en nú er gert og afla þannig landsmönnum öllum aukinna tekna. Svo eitthvað sé nefnt má t.d. verja því fé sem nú fer í að byggja Blönduvirkjun fyrir svissneska auðhringinn Alusuisse, eftir nýjustu fréttum í Ríkisútvarpinu að dæma, og þar er ekki um smáar upphæðir að ræða, þessu fé má verja til að byggja upp nýjar atvinnugreinar, byggðar á innlendu hráefni og innlendri þekkingu, á þeim stöðum þar sem atvinna er nú að leggjast niður sökum margvíslegra erfiðleika í sjávarútvegi.

Það má gera ótal margt til að tryggja hag lands og þjóðar. En það er einfaldlega ekki gert. Stefna þessarar ríkisstj. leyfir það ekki. Stefna þessarar ríkisstj. leyfir ekki að jafnt sé látið yfir alla landsmenn ganga í baráttunni við verðbólgudrauginn. Hún leyfir ekki að tryggð sé afkoma og félagslegt öryggi allra landsmanna. Hún leyfir ekki skattlagningu milliliða og annarra sem hagnast á núverandi efnahagsástandi. Hún leyfir ekki að allir landsmenn sitji við sama borð án tillits til kynferðis, aldurs eða hvar þeir búa á landinu. Hún leyfir ekki að nýrra leiða sé leitað í atvinnuuppbyggingu og látið af gamla stóriðjudraumnum sem fyrir löngu síðan er orðinn að martröð. Og núna síðustu dagana virðist hún ekki leyfa, svo óyggjandi sé, að lög séu tvímælalaust haldin í landinu. Slík ríkisstjórnarstefna á ekki rétt á sér.

Í upphafi máls míns ræddi ég um frelsið. Ég ræddi um hvernig skilningur á frelsishugtakinu getur á ögurstund ráðið úrslitum um örlög þjóðar. Slík stund er nú upp runnin fyrir íslenska þjóð.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.