22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vel má vera að í þessu frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla felist einhverjar þær úrbætur sem að gagni megi verða til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. A.m.k. ættu slík lög ekki að spilla fyrir og síst sæti á okkur Kvennalistakonum að fara að berjast gegn slíkum lögum, enda er það ekki ætlunin. Því er hins vegar ekki að neita að við höfum efasemdir um raunverulega gagnsemd þeirra laga, sem hér er ætlunin að setja, og ég hlýt að nota þetta tækifæri til að ræða jafnréttis- og kvenfrelsismál á breiðum grundvelli.

Eins og segir í aths. við frv. er það að stofni til byggt á tillögum endurskoðunarnefndar sem skipuð var í apríl 1981 af fyrrverandi félmrh. Þær tillögur lagði hæstv. fyrrv. félmrh. Svavar Gestsson raunar fram sem frv. á síðasta þingi og þá voru þessi frv. rædd samhliða. Í þeim umr. tók hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir þátt og skýrði afstöðu okkar Kvennalistakvenna til beggja frv. og einstakra greina þeirra. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka lið fyrir lið allar þær skýringar, en vísa til 24. og 25. heftis Alþingistíðinda 1983–1984.

Eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði í umr. um þetta stjfrv. á síðasta þingi þykir okkur það harla bitlaust og ólíklegt til að breyta nokkru til hins betra. Í rauninni fjalla allar greinar þessa frv. um svo sjálfsagða hluti að furðulegt má telja að við skulum telja okkur þurfa að setja um þá lög nú á árinu 1984, eins og ákvæði um sömu kjör fyrir sambærileg störf, að óheimilt sé að mismuna eftir kynferði o.s.frv. Það sýnir auðvitað að ástandið er ekki eins og á verður kosið. En það sem bitastæðast var í tillögum endurskoðunarnefndarinnar og hefði getað fært málið til betri vegar, að okkar dómi, hefur verið fellt niður. Þarna var einkum um að ræða bein ákvæði um að sérstaklega skuli bæta hag kvenna og ákvæði um breytta sönnunarbyrði.

En þótt hitt frv., sem algerlega byggist á tillögum endurskoðunarnefndarinnar og hefur verið lagt fram hér í dag, sé að okkar dómi snöggt um bitastæðara og líklegra til að stuðla að bættum hag kvenna samræmist það ekki hugmyndum Kvennalistans um jafnrétti og kvenfrelsi frekar en það stjfrv. sem við erum nú að fjalla um þar eð þau ganga bæði augljóslega út frá þeirri grundvallarhugsun að jafnréttisbarátta kvenna hljóti að miðast við það að ganga í störf karla og að konur þurfi að klífa upp verkefna- og virðingarstigann til að ná því þrepi þar sem karlar standa, sem að sjálfsögðu er þá talið talsvert fyrir ofan kvennapallinn. M.ö.o.: konur hljóti að stefna að því að fá að vera eins og karlar og taka þátt í þjóðfélaginu á forsendum karla. Er þetta það jafnrétti sem við viljum stefna að?

Svar okkar, sem styðjum og túlkum stefnu Kvennalistans, er nei. Við höfum lagt til hliðar hugmyndir um jafnrétti sem fela í sér rétt kvenna til að fá að vera eins og karlar. Við setjum á oddinn hugmyndir um kvenfrelsi sem fela í sér rétt kvenna til að vera metnar á eigin forsendum til jafns á við karla. Við höfum ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því að störf séu flokkuð í sérstök kvenna- og karlastörf. Okkur finnst það í hæsta máta eðlilegt. Konur eru mótaðar af kynhlutverki sínu, því hlutverki að ala börn og annast. Það er því ofureðlilegt að þær leiti fremur í þau störf sem gjarnan eru kölluð kvennastörf, þ.e. þjónustustörf af ýmsu tagi, störf sem lúta að umönnun og uppeldi. Hið óeðlilega og óæskilega er hins vegar hvernig þjóðfélagið metur þessi störf. Það er þar sem meinið liggur. Auðvitað er einnig sjálfsagt að hvetja konur til að hasla sér völl innan hefðbundinna karlagreina ef hugur þeirra stendur til þess. Í því er hið eina sanna frelsi fólgið að hver og einn, karl eða kona, geti valið sér starfsvettvang og lífsferil eftir löngun, viti og vilja, óháð kynferði og efnahag. En það er hart til þess að vita að störf skuli vera vanmetin og lítils virt fyrir þá sök eina að konur gegna þeim frekar en karlar. Því getum við tæpast breytt með lögum. Að því verður að vinna með samningum og starfsmati, nema hv. alþm. séu til þess búnir að samþykkja lög þess efnis að allar starfsstéttir sem að meiri hluta eru skipaðar konum skuli hækka í launum sem svarar tveimur launaflokkum eða meira eftir atvikum. Sú leið er vissulega freistandi, en sennilega ekki alls kostar heppileg.

Úrræði stjórnvalda felast því miður einkum í því að reyna að beina konum inn í hefðbundnar karlagreinar, eins og hæstv. félmrh. lýsti í framsöguræðu sinni, en ekki að því að hefja hefðbundin kvennastörf til vegs og virðingar og hærri launa. Við þurfum fyrst og fremst hugarfarsbyltingu og við þurfum stóraukna hlutdeild kvenna í verkalýðsbaráttu og stjórnunarstörfum. Og þá erum við komin í hring því slík störf standa konum ekki beinlínis opin. Þessu mótmæla menn sjálfsagt kröftuglega, sérstaklega karlmenn, og halda því blákali fram að konum séu allir vegir opnir og færir sem þær hafi vit og vilja til að þræða. Satt er það að vissu marki. En hverjir setja leikreglurnar og hverra forsendur eru til viðmiðunar?

Mig langar til að biðja hv. þm. að velta því aðeins fyrir sér hvers vegna konur láta svo lítið að sér kveða í þjóðfélagi nútímans, nú þegar þeim eru sagðir allir vegir opnir og færir. Hvers vegna eru konur svo tregar að koma fram á opinberum vettvangi? Hvers vegna tala þær ekki á fundum? Hvers vegna eru svo fáar konur í áhrifastöðum í þjóðfélaginu? Hvers vegna eru konur einkum í uppáhellingar- og fjársöfnunarhlutverkunum í blönduðum félögum meðan karlarnir standa í sviðsljósinu? Hvers vegna eru konur almennt aðeins skrautblóm á þeim fríðu listum karlmanna sem kjósendur velja í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og til forustu í félögum? Hvers vegna er verkstjórinn í frystihúsinu karlmaður meðan konur vinna að snyrtingu og pökkun, forstjóri fyrirtækisins karlmaður en ritarinn kona, skólastjórinn karlmaður en flestir kennaranna konur? Svona mætti endalaust telja. Karlmaðurinn stjórnar. Konan felur sig á bak við hann, þorir ekki að opna munn á fundum, a.m.k. ekki ef karlmenn eru of margir í nánd, og sættir sig við lægra sett störf, óæðri starfsheiti og lægri laun.

Stendur konan svona langt að baki karlmanninum hvað snertir hæfileika og gáfnafar? Spyrjum foreldra og kennara. Á nokkur von á að þeir segi strákana frá upphafi hæfileikameiri og duglegri í hvers konar námi en stelpurnar? Ég á satt að segja frekar von á því gagnstæða, ekki vegna þess að stelpur séu almennt greindari og hæfileikameiri en strákar, heldur taka þær yfirleitt fyrr út þroska sinn og nýta þannig oft betur námshæfileika sína en karlkyns jafnaldrar þeirra, t.d. í barnaskóla.

Mamma, hvað gerist með stráka? spurði lítil athugul stúlka nýlega. Hún fullyrti að strákarnir í bekknum hennar væru óttalega kærulausir og eiginlega bara vitlausir, gleymdu heimaverkefnum, væru latir og skilningslausir. En hún hafði grun um að þeir ættu nú þrátt fyrir allt eftir að spjara sig, verða lærðir menn, verkstjórar, forstjórar, jafnvel alþm. En hvers vegna þeir frekar en stelpurnar? Mamma, hvað gerist með stráka? spurði hún.

Já, hvað gerist með stráka og hvað gerist með stelpur? Hvað ætli svo sem gerist annað en það að umhverfið hefur sín áhrif. Verkaskiptingin á heimilunum og í þjóðfélaginu síast inn í huga þeirra og mótar viðhorfin. Stúlkan sannfærist um að hjónabandið sé hennar æðsta markmið og námsstrit og sjálfvalið starf ekkert annað en þrjóska. Hún er búin að koma auga á alla þröskuldana. sagt er: Konur hafa sömu möguleika til náms. Þær geta stundað læknisfræði, lögfræði, verkfræði, guðfræði. Vel á minnst: Muna menn hve stutt er um liðið síðan deilt var um rétt kvenna til prestsstarfa hér á landi? — Þær geta farið í Sjómannaskólann, vélskóla og bændaskóla ef þeim býður svo við að horfa. Þannig lítur það út á pappírnum og alimargar leggja ótrauðar í hann. En konur þurfa sannarlega að vera haldnar ótvíræðum og brennandi áhuga til að leggja út í langt nám. Þær vita nefnilega mætavel að þegar þær giftast og stofna heimili, sem flestar gera og vilja sannarlega gera, gerbreytis þeirra aðstaða og það er alls ekki gefið að þær geti notað menntun sína þegar út í hjónaband er komið.

Hjónabandið snýr á mjög ólíkan hátt við konunni og karlmanninum. Fyrir karlmanninn sem einstakling er það raunverulega ávinningur. Fyrir konuna þýðir það skerðingu á persónufrelsi. Hjónabandið bindur að vísu karlmanninn við að sjá fjölskyldu sinni farborða, vinna fyrir daglegum þörfum hennar, koma upp húsnæði yfir hana, en það skerðir á engan hátt möguleika hans út á við í þjóðfélaginu. Þvert á móti virðist það fremur styrkja stöðu hans í þjóðfélaginu. Karlmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar, a.m.k. efnahagslega, og kemur fram fyrir hennar hönd í augum samfélagsins. Kona rennur inn í stétt eiginmannsins og víðast hvar erlendis verður hún að bera nafn hans. Hér á landi fær þó konan að halda nafni sínu á pappírnum þótt oftast nær þurfi að bæta við hvers kona hún sé og börnin séu vitanlega kennd við föður sinn hvort sem þau þekkja hann eða ekki. Konan fylgir manninum þangað sem starf hans kallar hann. Heimilisfesta fjölskyldunnar fer eftir vinnustað hans. Hann er skrifaður fyrir símanum, húsinu, bílnum og yfirleitt öllum eignum fjölskyldunnar hvað sem líður öðru hjali um sameign. Karlmenn eru hátt tryggðir hjá líftryggingarfélögum meðan fáum dettur í hug að konan sé þess virði. Er svo sem að undra þótt konan týni talsverðu af sjálfstraustinu við þessar aðstæður? Og svo eru það blessuð börnin. Líffræðilegt hlutverk konunnar í viðhaldi mannkynsins hefur löngum verið notað gegn henni. Ef nokkuð væri ætti konan að njóta sérstakra hlunninda og virðingar fyrir að ganga með og ala upp börn. Hún hefur þó ekki farið fram á annað en að mega halda áfram að vera sjálfstæður einstaklingur, enda þótt hún sé orðin móðir. Og til að girða fyrir hugsanlegan misskilning vil ég taka það skýrt fram að ég tel þetta stórkostlegt hlutverk sem konunni er falið. Við góðar aðstæður foreldra er ekki hægt að hugsa sér neitt undursamlegra en barnsfæðingu.

En nú er konum mismunað bæði í atvinnulífinu og á heimilum einmitt vegna þessa. Í mörgum starfsgreinum þýðir það vinnutap og þar með launamissi í langan tíma ef konan verður barnshafandi og í mörgum starfsgreinum finnst þeim sem ráða ekki koma til greina að treysta konum fyrir ábyrgðarstöðum eða hleypa þeim inn í of háa launaflokka vegna þess möguleika að þær gætu orðið barnshafandi eða vegna þess að þær eiga börn sem gætu orðið veik. En hvers vegna þarf þjóðfélagið að refsa konunni fyrir móðurhlutverkið? Hvers vegna fær konan eins og hnefahögg í andlitið við hverja barnsfæðingu: Jæja kerli mín, nú ert þú ekki lengur einstaklingur með sjálfstæðar skoðanir og vilja. Þú ert orðin móðir og það er þitt einkamál. Nú átt þú að fórna öllu fyrir barnið þitt. Þú skalt ekki dirfast að reyna að pota þér áfram í samfélaginu okkar, sem tekur engar barnakerlingar með í reikninginn, eða eyða tíma og orku í félagsmálastörf. Þú getur í hæsta lagi leyft þér að vinna á skrifstofu eða í fiski hálfan daginn, þ.e. þegar barnið þitt er orðið nógu stórt, og það er alveg nóg fyrir þig að skreppa á kvenfélagsfund einu sinni í mánuði.

Nú veit ég að þessu andmæla margir kröftuglega. Því er stöðugt haldið fram að þetta þjóðfélag standi konum opið upp á gátt. Reyndar er ástandið allt annað en fyrir aðeins nokkrum árum. Það er t.d. ekkert vafamál að mikið var reynt til þess að fá konur í framboð við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Forkólfar stjórnmálaflokkanna gengu á milli kvenna og þrábáðu þær um að bjóða sig fram, enda var þeim ljóst að þeim væri það ávinningur að hafa konur í öruggum sætum. En konurnar treystu sér ekki. Þær treystu sér ekki í slaginn á forsendum karla. Það var fyrst þegar þær réðu ferðinni sjálfar og fengu hvatningu til túlkunar eigin hugmynda að þær treystu sér fleiri en ein og ein. Sama var upp á teningnum við alþingiskosningarnar og vafalaust hefur verið reynt að fá konur til þátttöku í forustu verkalýðsfélaga og fleiri samtaka. En þær treysta sér ekki, jafnvel ekki þær sem hafa yfirunnið vanmetakennd sína gagnvart karlmanninum og langar til að láta að sér kveða, leggja kvennalóð á vogarskálarnar. Hvar liggur þá hundurinn grafinn? Hver leggur stein í götu konunnar? Steinarnir eru fleiri en einn, en sá stærsti er inni á heimili konunnar. Þetta er náttúrlega viðkvæmt mál, en þetta er mín niðurstaða eftir talsverðar vangaveltur. Ég skal reyna að skýra þetta nánar.

Heimilisstjórn og allt sem henni fylgir kemur í hlut konunnar í langflestum tilvikum, hvort sem hún hefur nokkra hæfileika í þessa átt eða ekki. Sem betur fer virðist ungt fólk nú á dögum vera að vakna til vitundar um óréttlætið sem í þessu felst og æ fleiri ungir menn taka þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi án þess að burðast með þá tilfinningu að karlmennsku þeirra sé þar með misboðið. En enn er langt í land að þátttaka karlmanns í heimilisstörfum sé sjálfsagt mál. Það heitir enn að hann sé að hjálpa konunni. Setjum nú svo að það sé einlæg ósk þjóðfélagsins að fá hæfar konur til að standa við hlið karlmannanna utan heimilanna, nýta hæfileika þeirra og menntun á breiðari grundvelli. Hvað getur þjóðfélagið gert í málinu eða kemur því ekkert við hvernig það má verða að konur njóti sín til jafns við karlmenn? Hvað skyldu margir af þeim körlum sem hæst og mest hafa talað um jafnrétti kynjanna vera fúsir til að haga vinnutíma sínum svo að þeir geti sinnt húsverkum og barnagæslu til jafns við eiginkonur sínar? Eru þeir reiðubúnir að vera heima og taka að sér störf konunnar þegar hún þarf næst að fara á fund?

Við vitum öll eða a.m.k. vita konur allar hvernig heimilisstörf eru. Þau eru ekki unnin frá kl. 9–5 og síðan frí það sem eftir er dagsins. Heimilisstörf dreifast yfir allan daginn og fæstar húsmæður geta tekið sér frí til að sinna eigin hugðarefnum nema stund og stund frí á hún ekki fyrr en börnin eru sofnuð rótt á kvöldin. Konur, sem vinna utan heimilis, vinna flestar tvöfalda vinnu því heimilisstörfin eru eftir sem áður þeirra verk og þær eru þar af leiðandi tregar til að taka að sér frekari störf. Þær treysta sér ekki í ábyrgðarstöðurnar vegna þessa og þær treysta sér ekki til að bæta á sig störfum að félagsmálum. Þær hafa ekki tíma til að búa sig undir að tala á fundum og kynna sér málefni sem ræða á. Þær verða sífelli að gjalda þess að þær eru konur og mæður.

Þetta er vitanlega ekki eina skýringin á hlédrægni konunnar og tregðu til að láta raunverulega að sér kveða, en hún vegur áreiðanlega þungt.

Kannske finnst einhverjum ég lýsa fullmikilli sök á hendur karlmönnum. Eiga konurnar ekki sök á þessu sjálfar? Er það ekki þeirra að velta þessum steini úr götu sinni? Jú, það eiga þær sannarlega að gera. Um þetta er ekki hægt að setja nein lög. En málið er viðkvæmt og vandmeðfarið. Verkaskiptingin á heimilunum er rótgróin og ótrúlega margir taka það sem árás á heimilin og heimilisstörfin þegar konur leyfa sér að láta í ljósi að þær langi til að helga starfskrafta sína einhverju öðru. Og innst inni eru konur dauðhræddar við að breyta nokkru og fljótar að skjóta sér á bak við karlmanninn þegar það býðst. Þeim sem hefur verið innprentað frá æsku hvernig konan á að vera og gegn slíku er erfitt að standa.

Fyrst og fremst á konan að vera góð. Og hvernig er kona góð? Jú, hún tekur því með brosi á vör sem að höndum ber og kvartar ekki. Hún rífst ekki við vinnuveitanda sinn yfir því að hafa ekki sama kaup og karlmaðurinn hinumegin við borðið sem vinnur sömu störf undir finna starfsheiti. Hún ætlast ekki til þess af eiginmanni sínum að hann bæti á sig heimilisstörfum þegar hann kemur þreyttur heim frá vinnu, enda þótt sjálfsagt þyki að hún geri það. Góð kona er líka góð móðir sem fórnar sér fyrir börnin sín, en hendir þeim ekki á barnaheimili eða fer frá þeim á kvöldin til að stússa í félagsmálum. Góð kona stendur að baki karlmanninum og styður hann í sínu framapoti og hún fær vitnisburðinn í eftirmælunum: Hún var börnum sínum góð móðir og bjó manni sínum fagurt og hlýlegt heimili.

Það er erfitt að brjótast út úr þessu munstri og konan er hrædd við það. Hún er hrædd við að troða karlmanninum um tær. Hún er hrædd við að raska þeirri konuímynd sem samfélag mannanna hefur svo lengi búið við. Hún er jafnvel hrædd við að glata eiginmanninum, spilla þroskamöguleikum barna sinna og uppskera fyrirlitningu kynsystra sinna. Við berum öll ábyrgð á ríkjandi ástandi. Spurningin er hvort við viljum breyta því og ef svo er hvernig við viljum breyta því. Í mínum huga er þetta spurning um hugarfarsbreytingu og um hugarfarsbreytingu setjum við ekki lög. En þetta er auðvitað líka spurning um að breyta þannig aðstæðum kvenna að þær hafi frjálsara val um það hvernig þær haga lífi sínu.

Því miður hef ég ekki trú á að þetta frv. til l. um jafna stöðu kvenna og karla breyti neinu í því efni. Mér kemur það fyrir sjónir sem hálfgert sýndarfrv., lagt fram til að friða einhverjar af þeim konum sem eru síkvartandi yfir hlutskipti sínu með réttu eða röngu. Kannske er það ósanngjarnt mat.

Á miklu veltur hvernig til tekst með framkvæmdina. Við eigum t.d. eftir að sjá útfærsluna á 2. gr. ef þetta frv. verður að lögum. Hvaða stjórnvaldsaðgerðir er hér verið að tala um aðrar en fræðslu eins og hæstv. félmrh. nefndi áðan? Ætla stjórnvöld að bjóða með reglugerð að karlar skuli sinna heimilisstörfum og barnauppeldi til jafns við eiginkonur sínar? Fáum dettur það víst í hug. Á kannske að setja reglugerð um fundatíma sem kveður á um það að fundarmenn komist heim í tæka tíð til að elda mat ofan í heimilisfólkið sitt? Þá þyrfti nú aldeilis að breyta starfsháttum t.d. hér á hinu háa Alþingi. Eiga þessar stjórnvaldsaðgerðir kannske að beinast að því að hafa á boðstólum örugga barnagæslu hvar sem hennar er þörf? Má ég þá benda á dagvistarfrv. Kvennalistans sem nú er komið til n. í Ed. Og á e.t.v. að bjóða með reglugerð sérstakt tillit til kvenna sem þurfa að sinna börnum og heimili um lengri eða skemmri tíma, tryggja að þær geti komið aftur til náms, vinnu eða félagsstarfa eftir slík hlé án þess að finnast þær hafa fyrirgert rétti sínum?

Líklegt má telja að frv. þetta verði að lögum. Það verður forvitnilegt að sjá reglugerðina um þessar stjórnvaldsaðgerðir skv. 21. gr. þessa frv. og fjögurra ára framkvæmdaáætlunina sem getið er um í 22. gr. Þar kynnu úrbæturnar að felast ef skynsamlega er haldið á málum.

Eins og þegar er lýst munum við þm. Kvennalista ekki standa gegn þessu frv. þótt við sjáum ekki að það breyti nokkru til eða frá þótt það verði að lögum. Við teljum vænlegra til árangurs að vinna að bættum hag kvenna með því að taka á hinum ýmsu þáttum löggjafarinnar hverjum fyrir sig, eins og fram komin mál Kvennalistans á þingi eru dæmi um.