31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Þegar þessi þáltill. var til umr. fyrir jólaleyfi þm. gafst mjög lítill tími til umr. um þetta mál. Hafði ég ekki lokið umfjöllun minni um þetta frv. þegar ég að ósk forseta varð að fresta ræðu minni. Ég gat því ekki lokið við að koma á framfæri þeim athugasemdum sem ég hef við þessa þáltill. Þar sem langur tími er liðinn verður ekki hjá því komist að draga saman í nokkrum orðum helstu atriðin sem fram höfðu komið í máli mínu áður, þegar mér var gert að fresta ræðu minni, enda nauðsynlegt með tilliti til þeirra athugasemda sem ég hafði ekki lokið við að koma á framfæri úr þessum ræðustól.

Þegar Alþingi ákvað að skipa nefnd til þess að gera tillögur um fyrirkomulag og framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins, en það var ákveðið með bráðabirgðaákvæði þegar lögin um málefni fatlaðra voru samþykkt á Alþingi vorið 1983, þá var ástæðan einkum sú að ýmsar athugasemdir höfðu komið fram í umsögnum frá umsagnaraðilum þegar þetta mál var til umfjöllunar á Alþingi. Og niðurstaðan varð sú hér á Alþingi að málið þyrfti frekari skoðunar við áður en endanleg afstaða væri tekin til fyrirkomulags og framtíðarskipunar Greiningarstöðvar ríkisins.

Athugasemdir mínar beinast nú að því að ekki hafi verið tekið á þeim atriðum sem ýmsir töldu óljós á sínum tíma, og þær forsendur sem ýmsir alþm. töldu að þá vantaði til að hægt væri að taka afstöðu í þessu máli liggja enn ekki fyrir og er ekki að finna í þessari þáltill.

Þær athugasemdir sem ég hef sett fram í þessu máli byggjast ekki á andstöðu við málið. Þvert á móti tel ég brýnt að allra leiða verði leitað til þess að koma á greiningar- og ráðgjafarstarfsemi fyrir fötluð og þroskaheft börn í viðunandi og stærra húsnæði og að greiningar- og ráðgjafarþjónustu verði komið á einnig úti á landsbyggðinni. Athugasemdir mínar voru settar fram til þess .að fyrirbyggja að ýmislegt það komi fram á síðari stigum þessa máls sem gæti orðið til þess að tefja að framkvæmdir geti hafist.

Í máli mínu hér fyrir jól kom fram athugasemd við 1. tölul. þáltill. sem gerir ráð fyrir að félmrn. og menntmrn. eigi í sameiningu að beita sér fyrir athugun á því að greiningardeildinni í Kjarvalshúsi við Sæbraut á Seltjarnarnesi yrði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, þ.e. fyrsta áfanga í þróun þeirrar stofnunar. Ég rakti þar forsögu þessa máls sem rökstuðning fyrir því hve óheppilegt er að fela það umsjón beggja ráðuneyta að hafa þetta mál með höndum. Ég skal ekki rekja það mál frekar en það er ljóst, og vísa ég til ummæla minna fyrir jól þegar þáltill. þessi var til umr., að mikil togstreita hefur verið milli félmrn. og menntmrn. um það hvort rn. ætti að hafa með yfirstjórn þessara mála að gera og hver bæri ábyrgð á þessu máli. Þessi ágreiningur hefur orðið til þess að draga mjög á langinn og tefja alla framkvæmd, og var raunar ekki úr því máli leyst fyrr en með samþykkt laga um málefni fatlaðra, sem samþykkt voru á Alþingi 1983, þar sem tekið var af skarið um það að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins ætti að heyra undir félmrn. Ágreiningurinn snerist ekki bara um það hvort rn. ætti að hafa yfirstjórnina með höndum, heldur einnig hvernig ráðgjafar- og greiningarstarfsemi fyrir þroskahefta og fatlaða skyldi yfirleitt háttað hér á landi. Kom sá ágreiningur mjög skýrt í ljós við umfjöllun félmn. um þetta mál og vísa ég í því sambandi til nál. félmn. sem fram kom við 2. umr. málsins í hv. Nd. Ég tel því að verið sé að stíga skref til baka inn í fortíðina, þegar blanda á aftur menntmrn. inn í þetta mál, og verði í þessari þáltill. að taka af skarið um það undir hvort rn. greiningar- og ráðgjafardeildin eigi að heyra þar til framtíðarhúsnæði fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur verið reist. Ég tel að taka verði af allan vafa um það í þessari þáltill., með vísan til 16. gr. laga um málefni fatlaðra, að þegar í stað verði yfirstjórn þessara mála flutt til félmrn., eins og lög gera ráð fyrir, og ekki eigi að bíða þar til fullbúið verði framtíðarhúsnæði fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Á þskj. 397 hef ég ásamt hv. þm. Helga Seljan leyft mér að flytja brtt. við þessa þáltill., en 1. tölul. þeirrar brtt. fjallar einmitt um það að athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi við Sæbraut á Seltjarnarnesi verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, þ.e. 1. áfanga í þróun þeirrar stofnunar, sem verði undir yfirstjórn félmrn. Með þessum hætti yrði tekinn af allur vafi í þessu efni á meðan ekki er fullbúið framtíðarhúsnæði fyrir greiningarstöðina, en ekki verði blandað báðum rn. í það mál. Vænti ég að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar muni einnig hafa til umfjöllunar þessa brtt. og taka afstöðu til hennar.

Í 1. tölul. þáltill. er jafnframt gert ráð fyrir að athugaðir verði möguleikar á kaupum á húsi í næsta nágrenni við Kjarvalshús í því skyni að auka þar greiningar- og ráðgjafarstarfsemi sem fer fram í Kjarvalshúsi nú. Þar sem í lögum um málefni fatlaðra er gert ráð fyrir að menntmrn. skuli þegar í stað gera ráðstafanir til að leigja eða kaupa hentugt bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi athugunar- og greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi verður ekki hjá því komist að spyrja hæstv. félmrh. hvort hér sé gert ráð fyrir viðbótarhúsnæði við það húsnæði sem keypt hefur verið að Sæbraut 2. Um er að ræða að í samræmi við þetta bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðra var á árinu 1983 fest kaup á húseigninni Sæbraut 2 og átti þar með að bæta úr því neyðarástandi sem ríkt hefur og það húsnæði að koma til viðbótar þeirri starfsemi sem verið hefur í athugunar- og greiningardeildinni í Kjarvalshúsi. Áætlað var að hefja starfsemi að Sæbraut 2 árið 1984 eða á s.l. ári og auka þar með þjónustumöguleika greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort kaup á húsi í næsta nágrenni við Kjarvalshús, sem hér er talað um í þáltill., eigi að koma til viðbótar þeirri húseign sem fest var kaup á á árinu 1983 að Sæbraut 2. Ég tel nauðsynlegt að þetta verði upplýst áður en málið fær fullnaðarafgreiðslu.

Ég gerði aths. við það í máli mínu hér fyrir jól og taldi það vafasamt að með þáltill. væri hægt að kveða á um, eins og gert er í 2. tölul., að fjármagni yrði á næstu fimm árum beint að uppbyggingu meðferðarúrræða og greiningar- og ráðgjafarþjónustu í öllum landshlutum samhliða aukningu á starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Það sem ég hef við þetta að athuga er að málið skuli sett fram með þessum hætti í þáltill. vegna þess að með þessum hætti er í raun gengið lengra en lögin segja til um. Hér er verið að binda fjármagn Framkvæmdasjóðs fatlaðra til næstu ára í þessi verkefni, en skv. lögum um málefni fatlaðra er það hlutverk stjórnarnefndar að ráðstafa fé sjóðsins í samræmi við ákvæði 34. gr. þeirra laga að fengnum tillögum svæðisstjórna og umsögnum viðkomandi ráðuneyta. Er það hlutverk stjórnarnefndar og svæðisstjórna að gera framkvæmdaáætlanir um uppbyggingu þjónustu fyrir fatlaða á svæðinu, en með þessum hætti sýnist mér að bundið sé fjármagn til sjóðsins til ákveðinna verkefna á næstu árum.

Ég hef einnig gert aths. við það að ekki skuli vera að finna neitt um það í grg. með þessari þáltill. hver áætlaður er byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, en hæstv. félmrh. gerði því þó nokkur skil í sinni framsöguræðu hér fyrir jól. Það er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að með þessari þáltill. er gert ráð fyrir að Alþingi taki afstöðu til þess að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði fullbúin á næstu fimm árum og hér er um framkvæmd að ræða sem ekki er undir 100 millj. kr. á verðlagi í dag og rekstrarkostnaður vart undir 30 millj.

Að vísu virtist mjög óljóst hve há fjárhæð muni fara í rekstrarkostnað, en í grg. með þáltill. segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur ekki grundvöll fyrir því á þessu stigi að meta fjölda stöðugilda meðal hinna ýmsu starfsstétta. Tími og reynsla verða að skera úr um fjölda starfsmanna við stofnunina.“

Er það auðvitað slæmt að nefndin skuli ekki á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga treysta sér til að meta starfsmannafjölda eða rekstrarkostnað. Ef miðað er við fyrri áætlanir um rekstrarkostnað frá árinu 1982 er hann ekki undir 30 millj., eins og ég áður sagði.

Í grg. með þáltill. kemur einnig fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Enda þótt Framkvæmdasjóður fatlaðra verði ekki skertur á næsta ári og sjóðurinn fái þann fjárstyrk sem honum ber skv. lögum um málefni fatlaðra er greinilegt að hann verður ekki fær um að leggja fram nema hluta þess fjármagns sem þarf til að reisa Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins ásamt öðrum mikilvægum framkvæmdum í þágu fatlaðra sem hann nauðsynlega þarf að annast.

Fjármagn til þessarar framkvæmdar þarf því að koma að verulegu leyti af fjárlögum og tryggja verður að nægilegt fjármagn verði tiltækt þegar í upphafi byggingartímabilsins, þannig að unnt verði að reisa húsið á tveim árum eins og lögð hefur verið áhersla á hér að framan.“

Nú er nokkuð ljóst, nema breyting verði á fjárlagaafgreiðslu, að sjóðurinn var skertur um 85 millj. kr., en hér segir í grg. að jafnvel þótt hann verði ekki skertur geti sjóðurinn aðeins fjármagnað hluta framkvæmda. Gera verður ráð fyrir að hæstv. félmrh., sem leggur fram þáltill., sé sammála því áliti nefndarinnar að fjármagna þurfi framkvæmdir vegna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins að verulegu leyti á fjárlögum, og mótmæli hann því ekki við þessa umr. verður að líta á að það sé einnig hans álit í þessu máli. Mér þætti því eðlilegt að bætt yrði við 4. liðnum þar sem kæmi fram skýrt og greinilega það álit Alþingis að fjármagn til framkvæmda við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins komi á fjárlögum á byggingartímanum, en ekki úr Framkvæmdasjóðnum. Hef ég ásamt hv. þm. Helga Seljan flutt brtt. þess efnis, sem er 2. tölul. brtt. á þskj. 397, að fé skuli veitt til þessa verkefnis á fjárlögum á næstu fimm árum, í fyrsta sinn árið 1986.

Það mætti fara mörgum orðum um þær skerðingar sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur þurft að sæta á undanförnum árum og hafa Landssamtökin Þroskahjálp til að mynda áætlað að skerðingin sé á bilinu 2–300 millj. kr. Í bréfi frá Öryrkjabandalagi Íslands, dags. 28. nóv., er gert ráð fyrir að skerðingin á milli áranna 1984 og 1985 sé um það bil 85 millj. kr. Það er því ljóst að ef Alþingi er reiðubúið að fallast á þessa þáltill. með þeim hætti sem hér er lagt til og með þeim framkvæmdahraða sem þar kemur fram verður það um leið að vera tilbúið að leggja fram það fjármagn sem til þarf til að standa við þessa áætlun. Ég tel því að brýnt sé að slík viljayfirlýsing komi fram af hálfu Alþingis um fjármögnun um leið og þessi þáltill. er samþykkt og að 4. liðnum verði bætt við, till. þess efnis að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði fjármögnuð á sérstökum lið á fjárlögum þegar að framkvæmdum kemur.

Nokkrar efasemdir komu fram á Alþingi 1983, ekki síst í félmn. sem fjallaði um þessi mál, sem lutu að stærð þess húsnæðis sem gert var ráð fyrir undir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þegar félmn. fjallaði um þessi mál lágu fyrir teikningar af húsnæðinu. Margir töldu að um óeðlilega stóra og dýra byggingu væri að ræða og ef ráðist væri í slíkar framkvæmdir mundu þær koma niður á uppbyggingu á þjónustu fyrir fatlaða á öllum sviðum. Einnig var gagnrýnt að ekki var hægt að áfangaskipta þessari byggingu.

Það er ljóst að skv. því sem fram kemur í þessari grg. hefur ekki verið tekið á þessu máli af hálfu þeirrar nefndar sem um þetta mál átti að fjalla, en í grg. kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Húsið verður að byggja í einum áfanga og er þá hagkvæmast að byggingarframkvæmdir taki sem skemmstan tíma (tvö ár). Framkvæmdum er ekki hægt að skipta í áfanga þannig að hagkvæmt verði.“

Og síðar í grg. segir:

„Nefndin telur ekki tímabært að gera nákvæma úttekt á stærð þess húsnæðis sem Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þarf á að halda undir starfsemi sína þegar allir þættir hinna nýju laga um málefni fattaðra eru komnir til framkvæmda.“

Og síðar segir:

„Reynist húsnæði of stórt í upphafi má nýta það undir aðra starfsemi í þágu fatlaðra.“

Hér hefur því ekki verið tekið á þessu máli sem skyldi af hálfu nefndarinnar og það er einmitt það mál sem skiptar skoðanir voru uppi um þegar mál þetta var síðast til umr. á Alþingi og ber að harma að ekki komi fram skýrari línur og betri rökstuðningur að því er stærð húsnæðisins varðar.

Í umfjöllun um þetta mál hefur einnig á undanförnum árum komið fram að hætta væri á því að um skörun yrði að ræða í greiningarstöð ríkisins við aðra starfsemi þar sem nú fer fram að hluta til greining á fötluðum og þroskaheftum. Var í því sambandi rætt um Heyrnar- og talmeinastöðina og einnig minnist ég þess að sérstaklega var rætt um göngudeild Kópavogshælis. Um þetta atriði er ekki að finna neitt í þáltill. og vil ég því spyrja hæstv. félmrh. hvort hugmyndin sé að þegar Greiningar- og ráðgjafarstöðin verði fullbúin verði til að mynda starfsemi göngudeildar Kópavogshælis flutt yfir til Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og göngudeild Kópavogshælis þar með lögð niður.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á að ég tel mjög vafasamt að setja fram í grg., eins og fram kemur á bls. 8 og nefndin leggur til, að skilyrða skuli ráðningu forstöðumanns að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins með þeim hætti sem þar er lagt til. Þar kemur fram að nefndin leggur til að eftirfarandi menntun og starfsreynsla verði lögð til grundvallar þegar ráðinn verði forstöðumaður að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins:

1. Háskólamenntun. 2. Þekking á faglegri stjórnun. 3. Þekking á þroskaferli barna og unglinga og þekking á þeim þáttum sem geta haft áhrif á eðlilegan þroskaferil, svo sem sjúkdómum, slysum og erfðabrenglun. 4. Þekking á þörfum fatlaðra einstaklinga, greiningu, endurhæfingu og annarri meðferð. 5. Skilningur og þekking á sálrænum og samfélagslegum þörfum þessara einstaklinga. 6. Þekking og reynsla í þverfaglegri hópvinnu. 7. Reynsla í vísindalegum vinnubrögðum og skipulagningu á vísindaverkefnum. 8. Reynsla í kennslu og kennsluskipulagningu.

Ég tel að ef höfð verður hliðsjón af því sem þarna kemur fram og ég hef hér talið upp muni það útiloka marga frá ráðningu í þessa stöðu sem annars væru hæfir þó að þeir uppfylltu ekki öll þau skilyrði sem hér eru talin upp, enda er í lögunum einungis tekið fram að forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins skuli hafa sérþekkingu á málefnum fatlaðra og skuli hann vera ábyrgur fyrir faglegri starfsemi stofnunarinnar og samskiptum við aðrar stofnanir. Vissulega væri æskilegt að sá sem ráðinn yrði forstöðumaður að Greiningar- og ráðgjafarstöðinni hefði slíka menntun og starfsreynslu til að bera sem hér er upp talin og lögð er til, en þó tel ég mjög hæpið að ráðningin sé skilyrt með þessum hætti, eins og þarna kemur fram, þegar forstöðumaður að þessari stofnun verður ráðinn.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta mál við fyrri umr. og læt lokið máli mínu.