31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er um bæði viðamikið mál að ræða og þýðingarmikið fyrir alla framþróun þessa málaflokks, sem blessunarlega hefur hlotið nokkurn forgang í seinni tíð, en fyrst og síðast legg ég áherslu á að hér má ekki rasa í neinu um ráð fram. Vandleg umfjöllun áður um þetta mál er að vísu staðreynd, en engu að síður þarf að mörgu að huga.

Hv. 2. landsk. þm. hefur komið inn á ýmis þau atriði sem ég vildi gera að mínum og óþarft að fara út í langar endurtekningar. Hún hefur sömuleiðis gert glögga grein fyrir brtt. okkar við þessa grein svo sem hún hljóðar nú og vík ég því aðeins lítillega að því.

Við hv. 2. landsk. þm. unnum saman að þessu máli á viðkvæmu stigi þess og mörg voru þau álitamál er þar komu upp og hv. þm. taldi hér upp áðan og fjarri því að allir væru þar á einu máli af þeim sem þekkja gleggst og best til. Inn í þessar umræður blandaðist margt, sérfræðilegur ágreiningur, spurningar um eðli og umfang slíkrar stöðvar og meðferðarþáttinn þá alveg sér í lagi, en ekki síður var um fjárhagsdæmið rætt því að augljóslega er hér um að ræða verkefni sem er ofviða þeim sjóði sem fjármagna á allar framkvæmdir í þessum málaflokki og alveg sér í lagi nú þegar framlög eru stórlega skert. Að því lýtur einmitt 2. gr. þessarar þáltill. þó að þar vanti sérstaka áherðingu um beint framlag á fjárlögum.

Ekki skal farið út í það að rekja forsögu hér, enda þegar verið gert að miklu. En hitt vil ég taka skýrt fram, að svo sjálfsögð og brýn þjónusta sem þarna á að fara fram, og ég hef aldrei verið í vafa um þá nauðsyn, þá hef ég verið með vissar efasemdir um meðferð málsins, ýmsa þætti þess, dreg m.a. ekkert úr því að nokkurrar einstefnu hafi gætt og hugmyndir svifið fullhátt um stærð og umfang. Ég sé t.d. að inn í þáltill. er sett ákvæði um að byggt skuli eftir fyrirliggjandi ákveðinni teikningu. Án þess að fara út í efnisatriði þar, sem vissulega eru þó ærin, þykir mér einsýnt að í þál. verði ekki kveðið á um slíkt með svo afgerandi hætti.

Skal þá að helstu áhersluatriðum vikið.

Í fyrsta lagi ber að leggja áherslu á sem besta greiningu sem allra fyrst, sem allra víðast, sem allra nákvæmasta og öruggasta. Þetta er í raun meginatriðið sem allt annað kemur svo í rökréttu framhaldi af. Á þessu meginatriði er till. byggð. Þarna hefur, eins og um hefur verið getið, verið unnið hið ágætasta starf af þeim sem við ófullnægjandi aðstæður hafa búið, en bætt það upp með einlægni, kunnáttu og samviskusemi, lagt sig fram af ærnum dugnaði, og þess ber að geta sem gert er vel, segir þar. Frumgreining sem fyrst og sem nákvæmust, svo að unnt sé að komast að hvers konar fötlun á frumstigi, eðli hennar og umfangi, er brýnust alls og þar koma margir að, ekki bara hér á þessu svæði heldur um land allt, og reynir á lækna, ljósmæður og hjúkrunarlið hvarvetna að sem best takist til og vökul athyglin sé ætíð í fyrirrúmi. Á þessu hefur allt of oft verið alvarlegur misbrestur og aðeins hin allra augljósasta fötlun oft og tíðum verið greind. En greining án tengsla við meðferð og þjálfun er auðvitað tilgangslaus ef eitthvað er að. Einmitt þar hafa skoðanir verið nokkuð skiptar varðandi greiningarstöðina, þ.e. í hve ríkum mæli hún á að annast meðferðarþáttinn eða hvort tilvísun og samvinna við meðferðaraðila ætti að vera aðalreglan. Á þetta get ég ekki lagt beinan dóm, enda erfitt að draga skýr mörk á milli og vitanlega ræðst þetta af því hversu góðar meðferðar- og þjálfunarstöðvar eru til staðar, en þar hefur öllu þokað til rétts vegar.

Mínar efasemdir um stærð og starfsemi þessarar stöðvar eru ekki hvað síst bundnar þessu. Þar er að landsbyggðinni komið. Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að nefna það að rétt rúmur áratugur er liðinn frá því að till. okkar Karvels Pálmasonar og Vilhjálms Hjálmarssonar um vistheimili fyrir vangefna eystra og vestra var vísað frá hér á Alþingi sem óraunhæfum möguleika og stutt sérfræðilegum mótrökum. Nú eru þar risin myndarleg heimili, sambýli tekið til starfa eystra og þaðan veitt þjónusta um þessi svæði, ómetanleg þjónusta og aðstoð. Nú ætti ekki að vera andstaða við þær hugmyndir að skapa sem besta aðstöðu á hverju þjónustusvæði til greiningar og meðferðar þó að ákveðin aðalstjórn og meginmiðstöð, m.a. vegna allra erfiðari tilfella, verði að sjálfsögðu hér í Reykjavík. Þó eru aðeins níu ár síðan till. sem við fluttum hér á Alþingi úr öllum flokkum um heildarlöggjöf þar sem höfuðáhersla var á þetta lögð, aðeins níu ár síðan þeirri till. var lítill gaumur gefinn og hún ekki afgreidd. Viðhorfsbreytingin er því vissulega mikil og hennar sér jafnt stað í hugarfari, í löggjöf og í framkvæmd og athöfn allri.

Við sem stofnuðum á sínum tíma samtök úti á landsbyggðinni um þessi mál og síðar landssamtökin Þroskahjálp megum vissulega vera ánægð yfir jákvæðri þróun og samfélagið hefur blessunarlega tekið hér sinn ríkulega þátt í uppbyggingu allri svo að jaðrar við byltingu. Sú uppbygging og þróun mun hins vegar skila sér, ekki bara í velferð þeirra sem njóta heldur einnig í beinum arði fjárhagslega, þegar fram líða stundir. Svo rík nauðsyn sem er á fullkominni stöð til greiningar og tengsla við meðferð, þá má hún aldrei verða neitt ríki í ríkinu, ekkert bákn, þar sem allt þarf að fara í gegn. Ég er ekki að fullyrða að þessi till. sé um það, en ég þekki ákveðnar tilhneigingar í þessa átt og vara við þeim.

Á það vil ég hins vegar leggja megináherslu að greiningar- og ráðgjafarstöð sé fenginn sinn eðlilegi staður í stjórnkerfinu, að félmrn. hafi með þessi mál að gera ótvírætt svo sem vera ber. Að því lýtur brtt. okkar hv. 2. landsk. þm., en skýrt skal tekið fram að áfram hlýtur samstarf allra viðkomandi rn. að vera jafnbrýnt um alla helstu þætti í málefnum fatlaðra.

Í öðru lagi ber að leggja ríkulega áherslu á að starfsfólki stöðvarinnar séu og verði búin sem best skilyrði til síns góða og mikilvæga starfs. Ekki síst er nú nauðsyn áframhaldandi uppbyggingar og viðbótarhúsnæðis hversu svo sem hin nýja stöð verður, því augljóst er að hún á langt í land með að vera tilbúin til notkunar. Því ber að leggja áherslu á síðasta málslið 1. gr. um húsnæði á Seltjarnarnesi og viðbót þar.

Í framsögu hæstv. félmrh. bar nokkuð á góma störf þeirrar stjórnarnefndar sem við hv. 2. landsk. þm. áttum sæti í og kemur það raunar fram í grg. Sem formaður þeirrar stjórnarnefndar mótaði hv. 2. landsk. þm. ásamt okkur meðnm. sínum farsællega þá meginstefnu að sinna verkefnum sem víðast, aðaláherslu á það að færa þjónustuna út til fólksins. Svo er enn gert. En í framhaldi af afstöðu fyrri stjórnarnefndar vildi ég spyrja hæstv. ráðh. nú: Hver er afstaða núverandi stjórnarnefndar um málefni fatlaðra til þessarar till. hér? Liggur fyrir einróma stuðningur við alla liði þessarar till. eða hefur stjórnarnefnd ekki fjallað um till. sem slíka eða gert um hana ályktun?

Eins og ég sagði áðan þarf ég ekki að hafa mörg orð hér um í framhaldi af ítarlegri ræðu hv. 2. landsk. þm. þar sem skoðanir okkar um þessi mál fara um svo marga hluti saman. Þetta er því orðið lengra mál en ég ætlaði, en í raun þyrfti hér allsherjarumr. um framtíðarskipulag þessara mála í anda laganna um málefni fatlaðra. Þar má margt betur fara og betur gera, enda lögin ný og framkvæmd mjög í mótun sem eðlilegt er. En lifandi og vakandi umræða um öll þessi mál er nauðsyn því að góð lög koma aldrei í stað þess, þótt þar sé að finna stoð hinna góðu verka.

Í lokin þetta: Hvað sem líður mismunandi sjónarmiðum um húsaskipun og stærð, um hugsanlega skörun milli greiningar og meðferðar og fleiri atriði sem upp koma ber brýna nauðsyn til þess að koma sem skilvirkustu og skjótvirkustu skipulagi á öll þessi mál undir réttri yfirstjórn þess ráðuneytis sem á að fara með alla heildarstjórn þessara mála í góðu samráði við önnur ráðuneyti og ekki síður samtök þau er láta sig þessi málefni skipta. En fyrst og síðast þarf að tryggja því fólki, sem í framtíðinni á að njóta laganna, framkvæmdanna, njóta viljans í verki, að það fái notið sem fyrst og best aðstoðar og þjónustu sem því ber og sem næst sér um leið. Jafnframt að skapa því ágæta fólki, sem vinnur þessi störf, aðstöðu sem besta, þá vinnuaðstöðu sem öruggast gæti stuðlað að framtíðarheill þeirra einstaklinga sem á þurfa að halda. Þar ber að leita skjótrar en skynsamlegrar lausnar fyrst og fremst.