31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af bréfi sem hæstv. iðnrh. sendi Kísiliðjunni í skútustaðahreppi og er dagsett í gær, 30. jan. Þar er Kísiliðjunni leyfð taka kísilgúrs af botni Mývatns til 15 ára án skilyrða um hvar taka skuli. Þetta er gert þrátt fyrir skilyrði Náttúruverndarráðs, sbr. bréf dags. 18. des. s.l., þar sem kveðið er á um fimm ára framlengingu og tiltekin ákveðin svæði í nyrsta hluta vatnsins þar sem leyfð er taka kísilgúrs. Ég sagði að með ásettu ráði er kveðið á um fimm ára framlengingu vegna þess að eitt stærsta atriðið í þessu máli fjallar nefnilega um stöðu laga um verndun Mývatns og Laxár frá 1974. Þar er skýrt kveðið á í 3. gr. um að leyfi Náttúruverndarráðs þurfi til framkvæmda eða jarðrasks á þessu svæði. Það er af einstökum atriðum í þessu máli líklega það stærsta. En þetta er líka í raun og veru prófmál um stöðu Náttúruverndarráðs, um styrk laga og reglugerða um náttúruverndarmál og það að það virðist sífellt gerast að þegar stundarhagsmunir og hins vegar langtímahagsmunir náttúruverndar rekast á, þá virðist náttúruverndarsjónarmiðið sífellt verða að hopa.

Ég skal reyna að fara að tilmælum hæstv. forseta um að hafa hér ekki mjög langt mál. En það er óumflýjanlegt að hafa að þessu örlítinn inngang til þess að rifja upp hvað þarna er í húfi vegna þess að það skiptir máli fyrir raunverulegan og eðlilegan skilning á þessu máli. Ef við spyrjum okkur hvað sé í húfi náttúrufarslega í sambandi við Mývatn þá er það fyrst og fremst fjölskrúðugt fuglalíf. Þarna er eitt fjölskrúðugasta og merkilegasta fuglalíf í öllum heimi af vötnum af þessari stærð og gerð. Þarna eru allar íslenskar andartegundir, þarna eru þrjár tegundir anda t.d. sem varla verpa utan þessa vatns. Þarna eru tvær tegundir sem eru hvergi annars staðar í Evrópu. Þarna er þéttasta straumandarvarp á Íslandi svo að dæmi sé tekið. Norðausturland framleiðir jafnmargar endur og öll Skandinavía ef menn vilja taka þann pólinn með í hæðina. Fjöldi og fjölbreytni fuglalífs þarna er einstakt á norðurhveli jarðar. Um þetta er enginn ágreiningur.

Í öðru lagi er vatnið náttúrufarslega mikilvægt vegna fiskstofna sem þarna lifa. Þetta svæði Mývatns og Laxár er sem sagt einstaklega merkilegt náttúrufarslega og að því verður að huga.

Hver er ástæðan fyrir því að þetta er svona merkilegt vatn? Þær eru fyrst og fremst þrjár: Það er næringarríkt, það er mjög breytilegt að gerð og það sem er grundvallaratriði er að það er grunnt, það er yfirleitt á milli 1 og 2 metrar á dýpt. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að þetta þýðir að ljós nær til botns í öllu vatninu og heldur við gróðri og í öðru lagi lifir fuglinn, endurnar sem eru gimsteinn þessa vatns, á því annaðhvort að kafa til botns eftir fæðu eða éta á yfirborði gróður sem vex upp af þessum botni. En ef vatnið dýpkar þá nær ljósið ekki til botns, vöxtur minnkar og það sem verra er: fuglinn nær ekki fæðunni. Þetta sést á því svæði sem þegar hefur verið tekinn gúr úr. Þar sést ekki fugl. Það eru bæði til talningar um þetta og það eru líka sagnir þeirra sem búa á þessu svæði. Það er sem sagt lykilatriði í þessu að vatnið má ekki dýpka. En sé kísilgúrinn tekinn þá dýpkar það óumflýjanlega vegna þess að t.d. í Ytri-Flóa, þar sem tekinn er gúr núna, er þykkt kísilgúrlagsins á bilinu 4 til 9 metrar. Þannig að kísilgúrtakan er fyrst og fremst hvað þetta varðar spurning um dýpkun vatns. Kísilgúrinn gæti þess vegna verið mór eða eitthvað sem á botninum liggur. Það er þessi einstaki ríkidómur þessa náttúrufars sem er í fyrsta lagi svo merkilegur náttúrufræðilega að hann laðar til sín fólk og vísindamenn alls staðar að úr heiminum.

Í öðru lagi er þetta að öðrum stöðum á Íslandi ólöstuðum sá staður sem langsamlega mest aðdráttarafl hefur fyrir ferðamenn á Íslandi. Að því skyldu menn huga ef þeir leiða hugann að þeim atvinnuspursmálum sem þarna eru í veði. Menn hafa gert sér grein fyrir því hversu verðmætt þetta svæði er, Laxá og Mývatn. Það sjáum við af ýmsum atriðum.

Við höfum reynt að verja þetta svæði á ýmsan hátt. Um það gilda í fyrsta lagi almenn náttúruverndarlög sem takmarka mjög umsvif og mannvirkjagerð á slíkum svæðum. Í öðru lagi voru sett sérstaklega lög 1974 um verndun Mývatns og Laxár í suður-Þingeyjarsýslu. Þar segir, með leyfi forseta, í 2. gr. að á Mývatnssvæðinu sé hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil nema með leyfi Náttúruverndarráðs. Það er ekki talað um að umsögn Náttúruverndarráðs þurfi. Það er talað um það skýrt og skorinort að leyfi Náttúruverndarráðs þurfi fyrir hvers konar mannvirkjagerð og jarðraski á þessu svæði. Þá var sett 1978 reglugerð um þetta sama efni þar sem ítrekað er að þörf sé leyfis Náttúruverndarráðs fyrir aðgerðir á þessu svæði.

Í þriðja lagi samþykkti Alþingi 4. maí 1977 heimild fyrir ríkisstj. til að undirrita aðild að svokölluðum Ramsar-sáttmála sem er alþjóðleg samþykkt um verndun votlendis fyrir fuglalíf. Við erum sem sagt aðilar að þessum samningi. Við höfum raunar tilgreint Mývatn sem okkar framlag í þetta samstarf. Við höfum því alþjóðlega skuldbindingu að standa við að þarna sé farið með gát.

Lögin frá 1974 eru afdráttarlaus um þetta atriði, enda eru þau einmitt sett til að tryggja yfirráð Náttúruverndarráðs yfir svæðinu. Ef litið er í grg. með lagafrv. á sínum tíma þá segir þar svo, með leyfi forseta:

„Við meðferð máls þessa í Náttúruverndarráði kom til álita hvort náttúruverndarlög nr. 47/1971 fælu ekki í sér nægar heimildir til þeirrar sérstöku verndunar eða friðunar sem frv. gerir ráð fyrir. Um það atriði var leitað álits dr. Gauks Jörundssonar prófessors. Taldi hann að enda þótt ákvæði náttúruverndarlaga ættu að öllu jöfnu að nægja til þess að koma á með friðlýsingu svipaðri vernd og frv. gerir ráð fyrir þá hefðu hins vegar sérstök lög æðra gildi en reglur og ákvarðanir stjórnvalds og gætu því m.a. þjónað þrenns konar tilgangi. Í fyrsta lagi hefðu ákvæði þeirra sjálfstæða þýðingu að því leyti að þau settu reglur sem handhafar framkvæmdavalds hefðu ekki tök á að hrófla við. Í öðru lagi gætu slík lög veitt náttúruverndaryfirvöldum ótvíræða heimild til að breyta reglum og öðrum ákvörðunum annarra stjórnvalda sem þegar kynnu að vera fyrir hendi og í þriðja lagi gætu sérstök lög haft sjálfstætt gildi að því leyti að með þeim hætti mætti tryggja að ákvarðanir náttúruverndaryfirvalda yrðu taldar rétthærri en ákvarðanir annarra stjórnvalda.“

Í grg. prófessors Gauks segir, þar sem fjallað er um þetta mál, orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig er rétt að hafa í huga að skv. sérstökum lögum hafa verið heimilaðar tilteknar framkvæmdir á þessu svæði, sbr. lög nr. 60/1965 um Laxárvirkjun og lög nr. 80/1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, enda þótt ákvæði þeirra laga geti naumast skert heimildir náttúruverndaryfirvalda.“

Þarna telur prófessor Gaukur að náttúruverndaryfirvöld ættu að öllu jöfnu að hafa þarna óumdeildan rétt.

En til þess að tryggja óumdeild yfirráð Náttúruverndarráðs á þessu svæði mælir hann samt með því að sett verði sérstök lög um þetta atriði. Þetta segir okkur sitthvað um hvaða stöðu löggjöfin frá 1974 ætti að hafa í náttúruverndarmálum. Ég vil kalla þetta valdníðslu ráðh. skv. þessum lögum um kísilgúrverksmiðju við Mývatn frá 1966 og líklega námalögunum frá 1973. Þessi lög, sem eru sett 1974, eru yngri og það er greinilega þannig að þeim staðið að ætlast er til að þau hafi óumdeilda lögsögu á þessu svæði. Þetta eru einmitt lögin sem Mývatnsverndunarlögin eru sett til þess að yfirganga, til þess að ganga lengra.

Þetta er í stuttu máli hin lagalega staða í sambandi við þetta mál. Það væri hægt að tala hér langt mál um þær rannsóknir sem hafa farið þarna fram, þær rannsóknir sem þyrftu að hafa farið fram og þær rannsóknir sem væntanlega munu fara fram. Það er ein af skömmunum í þessu máli — og það má eiga hana hver sem vill — að fjárveitingavaldið hefur alls ekki staðið við ákvæði laganna frá 1974 um rannsóknarskyldu, um skyldu til framlags úr ríkissjóði til að rannsaka þetta svæði nægilega.

Þrátt fyrir það að ríkisvaldið hafi aldrei veitt þarna umbeðið fé og aldrei veitt nægilegt fé til að hægt væri að sinna rannsóknunum hafa ýmiss konar sjálfstæðar rannsóknir þó farið þarna fram, kannske með styrk úr Vísindasjóði eða Þjóðhátíðarsjóði eða vegna frumkvæðis og áhuga náttúruvísindamanna á Íslandi, t.d. við Líffræðistofnun. Það er þessari viðleitni og þessum rannsóknum að þakka að þrátt fyrir vanrækslu fjárveitingavaldsins eru það miklar rannsóknir til um þetta svæði að í fyrsta lagi telja náttúruverndarmenn mjög hæpið að ganga lengra en þegar hefur verið gert nema að mjög vel yfirveguðu máli. Við eigum að hafa allar aðgerðir náttúruverndarmegin í þessu máli, ekki kísiliðjumegin. Í öðru lagi er hægt að byggja á þessum rannsóknum sem þegar eru til. Á þremur árum telja þessir rannsóknarmenn að hægt sé að koma með viðeigandi álit og áætlun um það hvernig megi nýta þennan gúr án þess að hætta stafi af. Og það er einmitt með hliðsjón af þessu sem Náttúruverndarráð virðist hafa gert það að sínu skilyrði að leyfið yrði einungis framlengt í fimm ár. Á þeim tíma er hægt að komast að það staðgóðri niðurstöðu í þessu máli að hægt sé að gera áframhaldandi áætlanir.

Það er ýmislegt skondið í þessu bréfi hæstv. iðnrh. Þar er tiltekið hvaða bréf rn. hafi borist, það er sagt að því hafi borist samþykkt stjórnar rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn um þetta málefni, svo og ályktun hreppsnefndar Skútustaðahrepps. En það er ekki talað um t.d. að rn. barst bréf frá stjórn Landeigendafélags við Laxá og Mývatn, undirritað að Laxamýri af Vigfúsi Jónssyni meðal annarra. Það er ekki heldur tekið fram að frá íbúum við Mývatn barst bréf þar sem 60 manns rituðu undir og lýstu sig ekki á sama máli og rn.

Í hinum einstöku töluliðum bréfsins er ýmislegt hægt að tína til. Þar er t.d. sagt í 1. tölul.: „Leyfið heimilar Kísiliðjunni hf. að stunda á námusvæðinu alla þá starfsemi sem nauðsynleg er og viðeigandi til hagnýtingar á námunni fyrir framleiðslu á síunarefnum o.s.frv.“ Það er hvergi talað um lagaskyldu frá 1974 í þessu efni. síðan segir í 3. lið: „Iðnrh. er heimilt að endurskoða skilmála leyfis þessa verði verulegar breytingar til hins verra á dýralífi eða gróðri.“ Það er hvergi minnst á hina lögbundnu tengingu Náttúruverndarráðs við ákvörðunartöku þarna. Talað er um það í 5. gr. eða í einhverri annarri — þær eru svo margar góðar — að ríkissjóður muni leggja fram þarna ákveðið fé. Hefur hæstv. fjmrh. samþykkt það fyrir sína hönd? Í 7. gr. er talað um nefndarskipan sem eigi að fylgjast með áhrifum námurekstrarins á dýralíf og gróður við Mývatn. Þar er t.d. enginn fulltrúi landeigenda. Er það kannske af því að þeir voru ósammála?

Það sem kannske keyrir um þverbak er að í 11. gr. er sagt: „Kísiliðjunni hf. er heimilt ríkisins vegna að afla sér réttinda til efnistöku í þeim hluta kísilgúrnámunnar í Mývatni sem liggur innan netlaga.“ Það er nú einu sinni svo að skv. áðurnefndum lögum frá 1974 þarf leyfi Náttúruverndarráðs til að umtalaður kísilgúr innan netlaga sé tekinn. Og það er undarlegt ef ráðh. lýsir því hér með yfir að ríkisins vegna sé Kísiliðjunni þetta heimilt. Eða eiga kannske lögin að gilda í þessu ákveðna tilfelli?

Ég vil að lokum leyfa mér að bera upp ákveðnar fyrirspurnir til ráðh. Við munum vafalaust koma hér að þessu aftur og ræða þessi mál ítarlegar, efnislega. Ég vil spyrja í fyrsta lagi: Hvert mat leggur ráðh. á kvöð laganna frá 1974 í 3. gr. um leyfi Náttúruverndarráðs sem þurfi til aðgerða á þessu svæði?

Ég vil spyrja í öðru lagi: Hvers vegna var hafnað áliti Náttúruverndarráðs um fimm ára leyfisveitingu, sbr. bréfið frá 18. desember?

Ég vil spyrja í þriðja lagi: Hafa einhverjir samningar verið gerðir við Manville-félagið sem reka á eftir um að leyfið sé veitt núna, reyndar í miðjum viðræðum rn. og Náttúruverndarráðs? Og ef þessir samningar hafa verið gerðir tel ég að við eigum að fá að vita hverjir þeir eru og hvernig.

Ég vil líka spyrja: Hvers vegna er ekki tiltekið hvar kísilgúr skuli tekinn á þessu 15 ára tímabili?

Ég vil spyrja: Hvers vegna eiga landeigendur ekki hlut að nefndinni sem ráðh. leggur til að verði skipuð samkvæmt bréfinu í gær?

Ég vil spyrja: Hefur hæstv. menntmrh. samþykkt þessa ráðstöfun mála? — En Náttúruverndarráð er á því yfirráðasvæði.

Ég vil spyrja: Hefur fjmrh. samþykkt aukafjárveitingu í þessu skyni til rannsókna?

Svo mætti kannske að lokum spyrja: Telur ráðh. kannske löggjöfina frá 1974, um verndun Mývatns og Laxár, til einskis nýta, ómerka og hún kannske þvælist bara fyrir?

Ég held að þessum spurningum verði að svara og kannske ýmsum fleirum þegar lengra kemur. Ég tel, eins og ég sagði í upphafi, að hér sé prófmál um stöðu Náttúruverndarráðs, laga og reglugerða og náttúruverndaraðgerða gegn ásælni atvinnurekstrar, embættismannaveldis og framkvæmdavalds sem þegar í harðbakkann slær virðist sífellt taka stöðu með þeim sem á náttúruverndarsvæðin vilja sækja.